Skírnir - 01.04.1998, Page 54
48
ÁRNI BERGMANN
SKÍRNIR
ofnotkun. Þeir sækjast eftir annarri upplifun en þeirri sem mest
hefur verið haldið að þeim - því hrífast þeir af heimi Brekkukots
þar sem allt er undarlegt og engu líkt. Þeir sækjast eftir einlægni
og upprunaleika, eftir jákvæðu endurmati á því lífi sem var.
Nokkrum árum síðar gerðist það reyndar að ýmsir hinna betri
sovétrússneskra rithöfunda fóru sjálfir í verkum sínum að rifja
upp með nokkurri eftirsjá mannlíf í byggðum Rússlands fyrir
daga byltinga, tæknitrúar og frekrar framfarahyggju.48 Auk þess
fellur það fyrr og síðar í góðan jarðveg hjá rússneskum mennta-
mönnum að haldið sé fram frelsunarhlutverki lista, lausnarorðum
hins hreina tóns, því fáar þjóðir hafa lagt á það jafnmikið kapp og
þeir að gera listir og bókmenntir að einhverskonar veraldlegri
kirkju, að helgum vettvangi hins góða í hörðum heimi.
Zlobina fer einmitt hlýlegum orðum um mildi og ósérplægni
hjartahreinna í Brekkukoti. Sama má sjá í bók Krymovu og
Pogodins um Halldór Laxness (bls. 200). Fleiri dæmi má finna
um að sovéskir lesendur leggi sérstaka áherslu á manngæsku í
verkum Halldórs, ef til vill vegna þess hve mjög hafði verið hald-
ið að þeim nauðsyn þess að sjá í hverri persónu skáldsagna fyrst
og fremst þátttakanda í grimmri baráttu og þá helst stéttastríði.
Að loknum lestri Sjálfstæðs fólks telur Aleksandr Fadejev vafa-
laust að Halldór sé „einhver öflugasti listamaður samtímans“ - en
það er hann ekki vegna „rétts“ skilnings höfundar á framvindu
þjóðfélaga heldur vegna „fágætrar ástar hans á þjóð sinni".
Fadejev skrifar í minnisbók sína upp úr Sjálfstœðu fólki þessi
frægu orð: „Skilningurinn á umkomuleysi sálarinnar, á baráttunni
milli tveggja skauta, það er ekki uppspretta hins æðsta saungs.
Samlíðunin er uppspretta hins æðsta saungs“ (56. kap.). Fadejev
bætir svo við frá sjálfum sér: „Mikið er þetta satt! Án ástar á
manneskjunni er ekki hægt að skilja eða koma til skila þeim átök-
um sem hún ratar í.“49 Þetta er fróðlegt að lesa úr penna for-
48 Hér er átt við Raspútin, Shúkshin, Fjodor Abramov og fleiri höfunda sem
einu nafni kallast „sveitaskáldin“. Sjá Árni Bergmann: „Hláka, frosthörkur,
endurskoðun".
49 A. Fadejev: Za tridtsat let. Moskva 1957, bls. 876-77. Þetta ræðu- og ritgerða-
safn kom út skömmu eftir sjálfsmorð Fadejevs, sem menn hafa tengt við
leyniræðu Khrúshjovs um illvirki Stalíns á flokksþinginu árið 1956.