Skírnir - 01.04.1998, Page 61
SKÍRNIR
NORÐAN VIÐ KALT STRÍÐ
55
- um arðrán auðstétta á vinnandi fólki, grimma stéttaskiptingu,
kaldrifjaða viðskiptahyggju, vígbúnaðarofsa og hnignun menn-
ingar. Engu að síður má finna í þessum skrifum mörg tilbrigði
við ímynd Vesturlanda sem fóru eftir tíma og rúmi. Með þeim ár-
angri sem náðist upp úr 1956 í viðleitni til að halda uppi „frið-
samlegri sambúð ríkja sem búa við ólík þjóðfélagskerfi" dró
smám saman úr sovéskri dómhörku. Einnig fór hið pólitíska hita-
stig í skrifum nokkuð eftir löndum. Bandaríkin og Vestur-Þýska-
land voru talin helstur Þrándur í Götu sovéskra hagsmuna og
fengu oftast mun harkalegri meðferð en t.d. Frakkland og Italía.
Um smáríki sem lítil pólitísk hætta stafaði af var fjallað í mildari
tóni en stórveldi og nutu Norðurlönd ekki síst góðs af því - og
ekki spillti það fyrir að tvö þeirra, Svíþjóð og Finnland, stóðu
utan hernaðarbandalaga. Af þessum sökum kom sitthvað það já-
kvætt sem sovéskur gestur sá í fari og viðhorfum alþýðu manna,
þjóðlegum hefðum og menningararfleifð skýrar fram þegar sagt
var frá Italíu eða Danmörku en Bretlandi og Vestur-Þýskalandi.
Sú Islandsmynd sem haldið var að Rússum á seinni hluta
Sovéttímans fellur að nokkru að þessu mynstri. Engu að síður er
hún mun jákvæðari en búast mætti við. Sú skoðun nær að breiða
úr sér þar eystra að Islendingar séu fágæt skáldskaparþjóð á háu
menningarstigi, dugnaðarfólk sem hefur sigrast á óblíðri náttúru
og ýmislegri sögulegri óheppni. Þetta tvennt, ásamt sjálfri smæð
þjóðarinnar, er yfirleitt talið nægja til að draga mjög úr því sem
Sovétmönnum fannst sér annars skylt að andskotast út í þegar
þeir fjölluðu um vestræn ríki. Það má sjá furðu mörg dæmi um
það, að sitthvað er á Islandi talið Rússum til fyrirmyndar: virðing
fyrir fornum menningararfi, mikill bóklestur ungra og gamalla,
vinnusemi, umburðarlyndi, jafnaðarmennska í daglegri umgengni
fólks. I þessurn vef má, ef vill, greina skrýtna þræði. Það er al-
kunna að allt frá fjórða áratugnum gerðu margir vinstrisinnaðir
íslenskir menntamenn sjálfsmynd Sovétríkjanna að sinni: þar
eystra er alþýðan að rétta úr kútnum í byltingarþjóðfélagi og því
stendur menning þar með blóma. Nokkru síðar svara ýmsir sov-
éskir menntamenn sem kynna sér íslenskar bækur og þjóðlíf í
sömu mynt. Islandsmynd Steblins-Kamenskijs og sporgöngu-
manna hans líkist mest sjálfsmynd Islendinga sjálfra á árunum