Skírnir - 01.04.1998, Page 70
64
BERGLJÓT SOFFÍA KRISTJÁNSDÓTTIR
SKÍRNIR
að Guðmundur hafi tekið sér hana til fyrirmyndar - hann gæti
t.d. verið sá „vin“ sem ávarpaður er við lok kappakvæðis hennar
(131)! - ef þau hafa þá ekki bara ort hvort sitt kappakvæði án þess
að hafa hugmynd um hitt. Það er hins vegar tímanna tákn að þau
skuli bæði kjósa að yrkja undir vikivakahætti fremur en fylgja
dæmi Bergsteins og Þórðar á Strjúgi.
Steinunn er rímnaskáld og í kvæði sínu nýtir hún óspart heiti,
kenningar og annað skáldskaparmál rímna (sjá: Böðvar Guð-
mundsson 1993:476). Ljóðmál hennar er því að nokkru leyti af
ætt eldri kappakvæða. Hún beitir og oftast áþekkri aðferð og sjá
má í Islendingadrápu, Kappakvæði Björns á Skarðsá og Strjúgs-
flokki, þ.e. að helga hverri persónu eitt erindi en víkja þá
jafnframt að öðrum persónum sem koma við sömu sögu.11 í
Allrakappakvæði og kvæði Guðmundar Bergþórssonar er hins
vegar fylgt þeirri mcginreglu að fjalla í sama erindi um persónur
úr ólíkum sögum. Bragarhátturinn sem Steinunn velur sér og hin
löngu erindi, valda því að hún fjallar gjarnan ítarlegar um hverja
persónu en karlarnir fyrirrennarar hennar, rekur stundum at-
burðarás nánar og kemur með fleiri athugasemdir en þeir. Alls
nefnir hún persónur úr 19 Islendingasögum og -þáttum. Þar af
eru sex verk sem Björn á Skarðsá og Strjúgsskáldið sækja ekki til,
þ.e. Bárðar saga, Flóamanna saga, Hávarðar saga, Jökuls þáttur,
Króka-Refs saga og Þorsteins þáttur uxafótar. Eftirtektarvert er
að þarna er einkum um að ræða ,ungar‘ sögur.
III
Böðvar Guðmundsson (1993:476) heldur því fram að Steinunn
lofi „manndráp og vígfimi [...] óspart“ í kvæði sínu en ýmislegt
mælir gegn þeirri fullyrðingu.
Steinunn hnýtir hvað eftir annað í hetjurnar þegar hún nefnir
víg þeirra og vopnaburð. Hún segir t.d. að Ásbjörn Þorsteinsson,
veisugalti, og Þorgils Hölluson hafi ekki þolað nein „öfug [...]
svör [...] óbetöluð“ og bætir við:
11 í fjórum erindum af tuttugu nefnir Steinunn persónur úr fleiri sögum en einni,
í einu tilviki er þá um að ræða Kjalnesinga sögu og Jökuls þátt.