Skírnir - 01.04.1998, Page 79
SKÍRNIR
,EGILL LÍTTNAM SKILJA ...
73
Króka-Refur er í hópi þeirra ,vígamanna‘ sem fær einna besta
útreið í kvæði Steinunnar. Ymsar skýringar má finna á því en ef-
laust skiptir nokkru að saga hans er ærsla- og ævintýrasaga og á
reyndar sitthvað sameiginlegt með dýrasögum, nánar til tekið
sögum um refinn Reinard (Ss, Skýr:197). Steinunn kann m.ö.o. að
hafa metið hana á annan veg en harmrænar sögur eins og Laxdælu
(sjá síðar), sem bera yfirbragð ,hlutlægni‘ og orka trúverðugar.
Umfjöllun um Ref hefur hún með fallegri líkingu þar sem hún
leggur áherslu á dýrseinkenni hans:
Refur væna vizku hlaut
vafða í skilnings feldi [...] (125)
Þá tíundar hún ýmis víg hans, m.a. vígið á Skálp-Grana, hirð-
manni Haralds Sigurðssonar:
Skálmar [...] Grana gerði graut,
við greftran hans réð stjana.
ríða riddarana -
[•••]
hönum undir skíðgarð skaut,
skvetti út benja vínum.
þeir vilja mínum - (125)17
Erindið fær svip grótesku. Alvarlegum atburði, vígi, er lýst með
orðalagi eins og gera skálmar graut, „við greftran hans réð
stjana“ og skvetta út benja vínum, þannig að hryllingur og hlátur
verða eitt. Reyndar má vera að það hlakki ögn í Steinunni yfir ör-
lögum Grana sem ætlaði að nauðga konu Refs. A.m.k. verður
myndin sem hún dregur af honum þar sem hann liggur gegnvotur
af sárum sínum, harla eitruð í tvíræðni sinni:
Sveipaði hann seyran [þ.e. vætan] blaut,
því svannann vildi hann gilja [...] (125)
17 Bjarni Vilhjálmsson gengur út frá að „Skálmar“ sé eignarfallseinkunn með
„Grana“ og skrifar því „Skálmar-Grana“ í útgáfu sinni. Hér verður hins vegar
gert ráð fyrir að orðið sé einkunn með „graut“ (sbr. AM 146 b 8vo:28r).