Skírnir - 01.04.1998, Page 82
76
BERGLJÓT SOFFÍA KRISTJÁNSDÓTTIR
SKÍRNIR
Lesendur geta þá séð hana fyrir sér þar sem hún tíundar hvert
vígið á fætur öðru en situr sjálf við prjóna, vef eða aðra friðsama
iðju með stöllu sinni, „gullhlaðs Eiri“.
Á sama hátt kann tvíræðni að vera fólgin í orðalaginu „þá á ég
[...] til fegra efnis þýða“. Það getur einfaldlega merkt ,þegar ég á
að fella í kvæði, yrkja' (samantekt: þá ég á til fegra efnis þýða) en
það má einnig skilja sem viðurlag við „gullhlaðs Eiri“. Að vísu
yrði þá að gera ráð fyrir áþekkri setningaskipan og skýrendur
dróttkvæða þykjast stundum sjá í kveðskap hirðskálda:
Hálfgrátandi bið ég um hvíld af Frosta ferju smið, hér með gullhlaðs
Eiri, þá á ég þýða til fegra efnis [hið skáletraða má útleggja svo: hana á
ég, þýðlynda, til fegurra yrkisefnis!].
Nú skal reyndar tekið fram að svo er að sjá sem skrifari handrits-
ins hafi gert einhverja vitleysu og krotað oní, einmitt í orðunum
„þá á“. Vera kann því að ekki sé rétt með línuna farið. Það breytir
hins vegar engu um þann tón sem sleginn er í ramma kvæðisins.
Vésteinn Olason (1989:214-15), sem hefur m.a. skrifað um
áhrif íslenskra miðaldaverka á seinni tíma skáldskap, heldur því
fram að íslenskir karlar hafi litið á hetjur fornsagnanna sem fyrir-
myndir en kappakvæði Steinunnar sýni að konur hafi „látið sig
dreyma um þeirra líka“ og telur viðlagið við kvæði hennar stað-
festa þetta. Eins og Jón Karl Helgason (1998:24) hefur vikið að er
túlkun Vésteins umdeilanleg. Reyndar má færa að því rök að í
lokaerindi kvæðisins verði viðlagið beinlínis þáttur í skopi skáld-
konunnar. Hún biður „hálfgrátandi um hvíld“ frá öllum hetjun-
um og stynur: „Ég sá þá ríða“; hún segir að skáldskaparfleyið rati
ekki á „Andvars [dvergs; fisks] mið“ (þ.e. á fengsæl mið; sbr.
„Andavari“ og „andvari“, Laufás Edda 263 og 269); hún bætir við
„því að þeir vilja“ þannig að lesandi sem þekkir viðlagið allt getur
ímyndað sér að henni láti margt betur en að yrkja um þetta efni;
hún lýsir yfir því að það myndi „þóknast betur“ að hún þegði, og
hnýtir aftan við „þeir vilja mínum fundi“, og gefur þá e.t.v. í skyn
að hetjurnar sæki nú á hana vegna þess að hún hefur ekki þagað;
loks kallast lokaljóðlínan í kvæðinu ekki síður á við lok viðlags-
ins en það sem á undan er gengið: