Skírnir - 01.04.1998, Page 96
90
KRISTJÁN KRISTJÁNSSON
SKÍRNIR
Ég hef leitt rök að því á öðrum vettvangi að hvorug þessi við-
reisnar-viðleitni hafi lánast sem skyldi: hvorki dygðafræðin né
samfélagssinnaða siðfræðin nái máli sem boðlegar siðferðiskenn-
ingar.3 Það þýðir þó alls ekki að fornaldarsiðfræðin sé eftir-
hreytuheimspeki sem eigi óglöggt erindi við nútímafólk. Þvert á
móti hygg ég að umtalsverð framför hafi orðið á ýmsum sviðum
siðfræðinnar á undanförnum árum í krafti hinnar grísku vakning-
ar. Einstakar dygðir hafa verið endurmetnar, sem og gildi þeirra -
og dygða almennt - fyrir hið góða líf; geðshræringar hafa á ný
verið leiddar til sætis á siðferðisbekk, sem dygðir eða ígildi
dygða;4 mannleg farsæld verið gaumgæfð í aristótelískum anda og
skilningur eflst á þýðingu siðlegs uppeldis. Gríska siðfræðin hef-
ur þannig orðið yngilind nútímakenninga, einkum af
leikslokatagi. Það haggar ekki ágæti slfkra smáskammtalækninga
þótt stundum hafi láðst að lesa smáa letrið á hinum gríska elixír
og blandan því orðið ögn gruggug á köflum. En meira um það
síðar.
Ein er sú bók sem jafnt hefur lent í mjúk hjá „dygðafræðing-
um“, „samfélagssinnum“ og „smáskammtalæknum"; en það er
Siðfrœði Níkomakkosar eftir Aristóteles.5 Lætur nærri að viðreisn
3 Dygðafræðin séu þannig of sjálfhverf og sérgæðingsleg - snúist um kuskið á
eigin hvítflibba fremur en hagsmuni annarra siðferðisvera - og ljái okkur að
auki fá ráð við siðferðilegum klípum: því þegar við eigum um tvo slæma kosti
að velja og verðum að taka af skarið. Þar standi dygðafræðin að baki öðrum
siðferðiskenningum, svo sem nytjastefnu. Sjá ritgerð mína, „Af tvennu illu:
Um klípusögur, nytjastefnu og dygðafræði“, Hugur, 8 (1996), endurpr. í Af
tvennu illu: Ritgerðir um heimspeki (Reykjavík: Heimskringla, 1997). Samfé-
lagssinnaða siðfræðin hefur hins vegar reynst vera ávísun á illvíga afstæðis-
hyggju og gefið undir fótinn hugmyndum um svokallað „jákvætt frelsi” er
leggja vissa tegund af ánauð að jöfnu við frelsi, í anda svínanna í Dýrabœ.
Hinum samfélagssinnuðu verður til að mynda svarafátt frammi fyrir rökleys-
um kínverskra stjórnvalda sem telja allt hjal um mannréttindi afstætt við sögu
og eðli samfélaga - og andófsmenn sína þeim mun „frjálsari“ sem kirfilegar er
þaggað niður í þeim. Ég útfæri þessa gagnrýni í „What Is Wrong with Posi-
tive Liberty?", Social Theory and Practice, 18 (1992) og kafla 5 í Social
Freedom: The Responsibility View (Cambridge: Cambridge University Press,
1996).
4 Sjá ritgerð mína, „Um geðshræringar", Skírnir, 168 (haust, 1994), endurpr. í
Af tvennu illu: Ritgerðir um heimspeki.,
5 Hún er nú loks komin út í tveimur bindum á íslensku í ágætri þýðingu Svav-
ars Hrafns Svavarssonar (Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, 1995).