Skírnir - 01.04.1998, Page 101
SKÍRNIR
STÓRMENNSKA
95
Allt hljómar þetta enn fremur skýrt og skilmerkilega, en sú
spurning fer nú óhjákvæmilega að vakna á hverju verðleikar okk-
ar velti: Því eru sumir mikils verðir en aðrir lítils? Hyggjum fyrst
að því sem Aristóteles segir um ytri mælikvarða verðleikanna.
Þeir eru virðing eða virðingarleysi, sómi eða skömm. Það veltur
þannig á „virðingu og vanvirðu hvort hinn stórmannlegi sé sem
honum ber að vera“.21 Þetta ber þó alls ekki að skilja svo að sú
virðing sem manni áskotnast sé nægilegt skilyrði stórmennsku.
Meginatriðið er að niaður verðskuldi hana; og verðskulduð virð-
ing fellur á endanum ekki öðrum í skaut en „hinum góðu“: „Þess
vegna hlýtur sá sem er sannarlega stórmannlegur að vera góður.
Og svo virðist sem mikilleiki í hverri dygð sé einkenni hins stór-
mannlega.“22 Brýnt er að hafa það hugfast í framhaldinu að stór-
mennið hefur þannig allar hinar siðferðisdygðirnar til að bera, í
ríkum mæli. Það er „stórt“ í krafti eigin siðlegs ágætis.
Vegna þess að réttmæt ytri virðing telst vera mælikvarði á
verðleika þá er hinuni stórmannlega annt um að sér sé verðskuld-
aður sómi sýndur. Hann ...
lætur sig því einkum varða virðingu og vanvirðu. Hann gleðst mátulega
yfir mikilli virðingu og þeirri sem góðir menn veita; honum finnst hann
njóta sannmælis og bera jafnvel skarðan hlut frá borði, því sú virðing er
ekki til sem er verðug algerrar dygðar. Eigi að síður þiggur hann virðing-
una, því þeir hafa ekkert meira að bjóða. Hins vegar forsmáir hann full-
komlega virðingu almúgans og heiður sem honum hlotnast vegna lítils-
verðra hluta, enda verðskuldar hann ekki slíkt [,..].23
Stórmennið er ekki þurftarfrekt, heldur svo sjálfu sér nógt að
það kýs fremur fagra hluti sem koma að engum notum en gagn-
lega.24 Sækist það eftir völdum og auði er það einungis vegna
þeirrar virðingar sem slíkt getur aflað því. Eigi að síður gætir
hinn stórmannlegi meðallags í málum sem varða auð og völd,
jafnt sem aðra hluti. Hann kippir sér ekki upp við „gæfu eða
21 Sama rit, bls. 347 [1123b].
22 Sama rit, bls. 348 [1123b].
23 Sama rit, bls. 349 [1124a].
24 Sama rit, bls. 353 [1125a].