Skírnir - 01.04.1998, Blaðsíða 103
SKÍRNIR
STÓRMENNSKA
97
í öðru lagi vekja nokkrar staðhæfingar Aristótelesar í þessum
sama kafla, og á öðrum stöðum í Siðfrœðinni, upp spurningar um
hvort hugsjón stórmennskunnar fari ekki í bág við mjög djúp-
rættar og útbreiddar hugmyndir um eðli alls siðferðis. Eg hef hér
í huga áherslu Aristótelesar á að ytri gæfa leggi sitt af mörkum til
stórmennsku og að hetjudáðir drýgðar við tilteknar jaðaraðstæð-
ur, svo sem í hernaði, séu í einhverjum skilningi mikilvægari -
meira virði - en dáðir hins daglega lífs. Svo virðist sem einstak-
lingur geti haft til að bera framangreinda „lykilþætti", verið
dygðugur fram í fingurgóma, raunsær á eigið ágæti og jafnframt
vandur að virðingu sinni, en samt ekki verið stórmenni vegna
þess að hann búi ekki við þær ytri aðstæður sem geri fólki kleift
að klífa stall stórmennskunnar: ekki nógu ættstór, heilsuhraustur,
fjáður og svo framvegis. Slíkir fyrirvarar hafa orðið hár á tungu
ýmissa gagnrýnenda Aristótelesar og á endanum knúið þá til að
skyrpa út úr sér kenningunni eins og hún leggur sig. Umfjöllun
um þessi „stóru vandamál“, sem og aðra árekstra milli hugar-
heims Grikkja og nútímafólks, bíður fjórða hluta.
Lesandanum er vorkunn þó að hann hafi þegar tengt lýsingu
Aristótelesar á stórmenninu og hinum manngerðunum þremur
við tilteknar persónur, lífs eða liðnar, úr eigin reynsluhcimi.
Raunar hafa margir ritskýrendur velt því fyrir sér, ýmist í gamni
eða alvöru, til hvaða lifandi fyrirmynda(r) Aristóteles hafi helst
mænt. Algengt er að nefna þar til sögu Sókrates - grómlausan en
stoltan og hæðinn - frammi fyrir dómurum sínum; því hefur
jafnvel verið haldið fram að stórmennið sé einhvers konar sam-
breiskja úr persónum Sókratesar og Aristótelesar sjálfs!28 Hvað
sem slíkum bollaleggingum líður er ljóst að margt í lýsingu stór-
mennskunnar minnir á hugarfar og hegðan bæði hetjanna í kvið-
um Hómers og hefðarmenna Aþenu á dögum Aristótelesar:
persóna sem skiljanlega stóðu höfundi nærri. Hafi lesendur hins
vegar fundið vænlegar „holdtekjur“ í nútímanum er það merki
þess, sem mig grunar, að hugsjón stórmennskunnar sé meira en
einskært barn síns tíma.
28 Sjá F. A. Seddon, „Megalopsychia: A Suggestion“, Personalist, 56 (1975).