Skírnir - 01.04.1998, Side 109
SKÍRNIR
STÓRMENNSKA
103
skásta sem um hana verði sagt sé að hún megi að einhverju leyti
kallast barn síns tíma.
Sem fyrr segir hefur stórmennskan loks, á síðustu árum, eign-
ast fáeina marktæka verjendur. Þeir eru ósammála þessari hefð-
bundnu túlkun. Howard Curzer leggur sig þannig allan fram við
að rökstyðja að stórmennskan sé samrýmanleg ýmsum nútíma-
legum og/eða kristnum gildum. Eina samtímahugsjónin sem hún
brjóti á endanum í bág við sé hugmynd okkar um siðferðilegan
jöfnuð (frammi fyrir guði, lögunum og svo framvegis) og þar
með andúð okkar á hvers lags úrvalshyggju (elítisma).46 John
Casey og Bernard Williams ganga enn lengra í samrýmingarátt er
þeir halda því fram að djúptækustu siðferðishugmyndir okkar
séu í raun hinar sömu og í fornöld þó að við teljum okkur trú urn
annað. Við tökum „heiðnu dygðirnar" alvarlegar en við viljum
sjálf kannast við, segir Casey, erum heiðin í verki og hugsun, að
minnsta kosti þegar við leggjumst dýpst, þó að við göngum
drjúgt fram í dul um þessa staðreynd og séum þungt haldin af alls
kyns kristnum sjálfsblekkingum.47 Williams þræðir svipaða stigu
er hann hvetur okkur til að „greina á milli þess sem við höldum
og hins sem við höldum að við höldum“; hugmyndir okkar, til að
mynda um athafnir og ábyrgð, séu þannig mun skyldari hinum
grísku en við teljum okkur trú um, og finnist einhver munur sé
samanburðurinn þeim síðarnefndu í vil.48 Lærdómurinn hjá
Casey og Williams er sá að við höfum kviksett hugsun okkar með
lífslygi, eins og Nietzsche og Sartre bentu á fyrir löngu; auðnist
okkur að segja skilið við hana muni hinar svokölluðu heiðnu
dygðir, þar á meðal stórmennskan, falla við hvers manns fjöl.
Aðrir, svo sem Christopher Cordner, hafa maldað í móinn: í raun
sé breiður bekkur milli lífssýnar okkar og Grikkjanna og miklu
róttækari breyting í því fólgin að rækja nú dygðir Aristótelesar
en Williams og Casey vilji vera láta.49
46 „Aristotle’s Much Maligned Megalopsychos‘\ bls. 151.
47 Pagan Virtue, bls. viii, 211 og 226.
48 Shame and Necessity, bls. 4, 16 og 91.
49 C. Cordner, „Aristotelian Virtue and Its Limitations“, Philosophy, 69 (1994),
einkum bls. 294-97.