Skírnir - 01.04.1998, Page 112
106
KRISTJÁN KRISTJÁNSSON
SKÍRNIR
en ekki þegnarnir, hefðu dregið rétta ályktun af upphrópun
barnsins um nýju fötin. Náskylt aidös er nemesis: að hneykslast
eða fara hjá sér.54 Næm tilfinning fyrir því sem maður sjálfur get-
ur verið þekktur fyrir og viðkvæmm gagnvart brotum annarra -
þar sem maður fyrirverður sig fyrir þeirra hönd - kallast þannig á
hjá heilbrigðum einstaklingi, og í enn ríkari mæli hjá stórmenn-
inu en nokkrum öðrum.
Ekki fer á milli mála af þessari lýsingu að skömmin, eða öllu
heldur óttinn við að baka sér skömm, er mjög voldugur atferlis-
vaki í SHF. Það er engin hending að „aidös!“ var þekkt herhvöt í
bardögum Grikkja. Hún minnti hermennina á að yrðu þeir sér til
minnkunar á vígvellinum fyrir ragmennsku sakir kölluðu þeir
yfir sig slíka skömm að orðstír þeirra kynni að vera glataður að
eilífu.55 En hér hafa margir bent á að djúp sé staðfest milli SHF og
SHN. Mannfræðingar hafa þannig viljað gera greinarmun á
„skammar-“ og „sektar-samfélögum“ þar sem hin fyrrnefndu séu
í einhverjum skilningi fornlegri og frumstæðari; og ýmsir heim-
spekingar hafa lapið þennan mun upp eftir þeim.56 I skammar-
samfélögunum, sem enn eru á stigi SHF, sér maður eftir mis-
gjörðum sínum vegna óttans við að vera fyrirlitinn af öðrum eða
virðast hlægilegur í augum þeirra. Fyrstu viðbrögð manns eru að
hlaupa brott og fela sig, eða þá að sýnast og reyna að breiða yfir
eigin mistök. Matið á eigin breytni er þannig allt á ytra borðinu:
einstakhngurmn er leiksoppur umhverfisins og ímyndaðs eða
raunverulegs álits þess. I sektar-samfélögunum, mótuðum af
SHN, hefur hins vegar orðið sú framför að við sjáum eftir eigin
misgjörðum vegna þess að þau gera okkur að verri mönnum:
grýlan er eigið samviskubit eða sektarkennd57 en ekki skömm.
54 Sama rit, bls. 80.
55 Sama rit, bls. 79.
56 Ruth Benedict mun einna fyrst hafa viðhaft hugtökin „shame society“ og
„guilt society“ á nútímavísu, sjá The Chrysanthemum and the Sword: Patt-
erns of Japanese Culture (London: Secker and Warburg, 1947). Meðal heim-
spekinga sem hafa nýtt sér þau er Gabriele Taylor, í Pride, Shame and Guilt
(Oxford: Clarendon Press, 1985).
57 Orðið „sektarkennd" yfir „guilt“ er að sumu leyti óheppilegt þar sem það
gefur til kynna að um einbera kennd sé að ræða en ekki fullburða geðshner-
ingu eins og þó er raunin. (Sjá um mun þessa í „Um geðshræringar“.) Við