Skírnir - 01.04.1998, Side 114
108
KRISTJÁN KRISTJÁNSSON
SKÍRNIR
Christopher Cordner er hins vegar enn ekki sannfærður um
að SHF jafnbrýni hér SHN: vandamálið sé ekki, segir hann, að
stórmennin geti ekki fundið bæði til sektar og skammar heldur að
þau skuli láta stjórnast af hinu síðara ásamt hinu fyrra. Með öðr-
um orðum: Hvöt stórmennis til fróðhugaðra athafna er ekki ein-
ungis sú að vilja vera, heldur líka að vilja sýnast, hugrakkur.
Staðan andspænis öðrum, mynd manns í augum þeirra, er þannig
nauðsynlegur þáttur í sjálfskennd persónanna sem Aristóteles
lýsir; en það brýtur þverlega í bág við þá forsendu SHN að hver
skuli sjálfum sér nógur í siðlegu mati: að maður eigi að vera bær
að dæma um eigin orð og gjörðir óháð duttlungum annarra.61
Enn hygg ég að Cordner hitti naglann á höfuðið er hann
bendir á skil milli SHF og SHN, en sú spurning lætur um leið að
sér kveða hvort forsenda SHN sé endilega réttari en SHF. Rík
ástæða er til að efa slíkt. Einn höfuðgallinn á sjálfsskilningi SHN
er, eins og margir hafa bent á, hvernig einstaklingurinn er þar rú-
inn öllum persónueinkennum uns ekkert stendur eftir nema loft-
borin skynsemin.62 Maðurinn sem siðferðisvera í skilningi Kants
er, svo að dæmi sé tekið, laus undan öllum löngunum og þrám:
náttúrulaus kóngur í ríki markmiða. Slík mannvera er ekki lengur
jarðarbarn heldur hugarsmíð: ekki af holdi og blóði, ekki eintak
af tegundinni homo sapiens. Hæpið er að tala um hann sem ein-
stakling með sjálfskennd, að minnsta kosti ef við trúum því að
hugmyndin um eigið sjálf verði til í félagslegum samskiptum - í
gegnum viðurkenningu annarra - eins og David Hume hélt
fram.63 Skyldi ekki veraldarhyggja Aristótelesar, mynd hans af
mannverunni sem viðkvæmri jurt meðal jurta er þarfnast birtu og
yls, vera ögn raunhæfari - trúverðugri - en skynsemishyggja
Kants? Og hví skyldi slíkri veru ekki vera annt um stöðu sína
meðal annarra, um orðspor sitt og orðstír sem einn lifir að eilífu?
61 „Aristotelian Virtue and Its Limitations“, bls. 299-304.
62 Sjá t.d. bók M. J. Sandels, Liberalism and the Limits of Justice (Cambridge:
Cambridge University Press, 1982).
63 I ritgerð A. O. Rorty, ,,‘Pride Produces the Idea of Self’: Hume on Moral
Agency“, Australasian Journal of Philosophy, 68 (1990), má finna skýra
greinargerð fyrir þessari kenningu Humes.