Skírnir - 01.04.1998, Síða 128
122
KRISTJÁN KRISTJÁNSSON
SKÍRNIR
ég vildi strika út úr lýsingu stórmennskunnar hjá Aristótelesi er
raunar sú sem Hume, Mill og Nietzsche ættu erfiðast með að
kyngja:98 að stórmennið hafi ekki dálæti á neinu þar sem fyrir því
sé „ekkert stórt".99 Aristóteles vill með þessum orðum hnykkja á
hve stórmennið sé þurftasmátt; en eitt er að vera þurftasmár, ann-
að að vera lífsþreyttur, „dálaus"100 og dignaður á vilja, eins og
þessi ummæli benda til. I anda Humes, Mills og Nietzsches vildi
ég sjá þá lýsingu á stórmenninu að því brenni skap af sterkum
löngunum og heitum ástríðum, en það beini þeim öllum í réttan
farveg, sjálfu sér og öðrum til heilla.
Eitt skýrasta dæmið um úrættun SHN er að þar skuli talið
manni til hroka og ágengni - lasts en ekki lofs - að krefjast þess
að vera metinn að verðleikum; auðmýkt og lítilþægni séu hinar
sönnu dygðir. Krafan um að vera verðskuldaður sómi sýndur er
þó, eins og Hume rökstuddi enn skýrar en Aristóteles, hvorki
meira né minna en grundvöllur heilinda og sjálfskenndar: sjálf-
stæðs persónuleika. Persónur eru skynsemisverur með sjálfsvit-
und sem gera kröfur hver til annarrar. Án þeirrar stórmannlegu
kröfu að fá að vera ágætur af sjálfum sér, og njóta viðurkenningar
slíks ágætis frá umhverfinu, er hætt við að grundvöllurinn skriðni
undan sjálfskennd okkar og við blasi hin andlega aldeyða smá-
sálnanna.
Hér gæti ég sett punktinn aftan við málsvörn stórmennskunn-
ar ef ekki kæmi til sú bjargfasta sannfæring mín (og sumra ann-
arra!) að hlutverk heimspekinnar sé að breyta heiminum, ekki að-
eins að skýra hann. Eg ætla því að fá að ljúka ritgerðinni með til-
lögum að fimm rannsóknarspurningum sem heimspekingar, hallir
undir stórmennsku, þurfa að glíma við áður en hægt er að gera
hugsjón þessa að verkhæfu uppeldismarkmiði. Slík jarðbinding er
raunar mjög í aristótelískum anda, því fáir heimspekingar hafa lagt
jafnríka áherslu og hann á að hvað ungur nemur gamall temur.101
98 Curzer bendir einnig á þetta í „Aristotle’s Much Maligned Megalopsychos“,
bls. 150.
99 Sibfrœbi Níkomakkosar, fyrra bindi, bls. 353 [1125a].
100 Sigurður Nordal ræðir um „dáleysi" í Einlyndi og marglyndi (Reykjavík:
Hið íslenzka bókmenntafélag, 1986), bls. 216-25.
101 Eg ræði ögn um uppeldiskenningu hans í „Um geðshræringar“, 4. hluta.