Skírnir - 01.04.1998, Side 134
128
KRISTJÁN KRISTJÁNSSON
SKÍRNIR
Það hefur mjög staðið rannsóknum á sagnaarfi okkar fyrir
þrifum hve lítill gaumur hefur verið gefinn að hinni siðferðilegu
hlið hans. Lengi vel var ekki minnst á siðfræði sagnanna nema í
tengslum við deilur um höfunda og boðskap þeirra; og þótt úr
því hafi ræst á síðustu árum er áherslan nú öll á samband siðferðis
og samfélagsgerðar á söguöld.112 Rýnt er í siðferði söguhetjanna
eins og muni á forngripasafni, án þess að nokkur virðist láta að
sér hvarfla að meta það sem innlegg í siðferðilega umræðu nútím-
ans - nema þá öll „samfélagsfræðin" eigi að gefa í skyn að samfé-
lag sögualdar sé of ólíkt okkar til að það taki neinum samanburði.
Bernard Williams ræðir einatt um „frelsun fornaldar“: frelsun
hennar úr greipum sagnfræði og afvegaleiddrar framfarahyggju,
enda sé samtími okkar líkari fornöld en nokkurt annað skeið
mannkynssögunnar á síðari tímum: guð dauður í siðfræðinni
(þótt hann kunni að vera sprelllifandi á himnum) og fólk gagn-
tekið hugmyndum um ytra vald sem setji lífi þess skefjar (áður
vald örlaganna, nú vald stjórnmálanna!).113 Gríska bylgjan í sið-
fræði síðustu ára er merki um slíka frelsun. Eg legg til að við hefj-
um nú þegar frelsun hinnar íslensku fornaldar með því að sækja í
sagnaarf okkar haugtekin vopn fyrir lifandi skoðunum. Ef til vill
þurfum við þá ekki að leita út fyrir landsteinana að rökum og
dæmum er styðja það álit mitt að stórmennska sé eftirsóknarverð
dygð í mannlegu félagi.
Ég þakka heimspekiskor Háskólans í Austur-Anglíu, og þá einkum formanni
hennar, dr. Alec Fisher, fyrir að hafa léð mér aðstöðu til að skrifa ritgerð þessa í
rannsóknarleyfi mínu þar skólaárið 1996-97. Aukinheldur á ég þeim Atla Harðar-
syni, Birni Sigurðarsyni, Haraldi Bessasyni, Ólafi Páli Jónssyni og Róbert H.
Haraldssyni skuld að gjalda fyrir þarflegar ábendingar og athugasemdir.
112 Sjá t.d. ritgerðir Vilhjálms Árnasonar, „Saga og siðferði: Hugleiðingar um
túlkun á siðfræði Islendingasagna“, Tímarit Máls og menningar, 46 (1985) og
„Morality and Social Structure in the Icelandic Sagas“; einnig M. I. Steblin-
Kamenskij, Heimur Islendingasagna (þýð. Helgi Haraldsson, Reykjavík:
Iðunn, 1981) og Jesse L. Byock, Feud in the Icelandic Saga (Berkeley/Los
Angeles: University of California Press, 1982). Richard Gaskins gagnrýnir
ýmsar enn nýrri „félagsfræðilegar túlkanir“ á sögunum í „Félagsvísinda
saga“, Skírnir, 171 (vor, 1997).
113 Þetta er t.d. eitt meginstefið í Shame and Necessity.