Skírnir - 01.04.1998, Page 155
SKÍRNIR
GEGN ÞJÓÐTRÚ
149
var út var dauðinn vís en aðstandendur gátu rétt eins átt von á því
að það gengi aftur, jafnvel nokkrum árum seinna, friðlaus sál í
hefndarhug.5 Skýring hjálpar-andans á uppruna ættardraugsins er
einmitt á þennan veg: um er að ræða útburð, löngu afturgenginn,
sem viðmælendur mínir hafa fengið í arf. A þessari sögu hef ég
margsinnis fengið staðfestingu í fjölmörgum viðtölum við ólíka
fjölskyldumeðlimi. Ingibjörg sagði svo frá: „Málið snýst um út-
burð sem finnur engan frið hinum megin. Það veit enginn núlif-
andi nákvæmlega hvernig dauða barnsins hefur borið að. Hitt er
víst að þetta neikvæða afl sem plagar okkur birtist í gegnum út-
burðinn." Hér kemur berlega í ljós sú hugmynd að ill öfl taki
holdlegar og „andlegar" leifar útburðar tangarhaldi. Jón Hnefill
Aðalsteinsson gerir þessu fyrirbæri skil í Islenskri þjóðmenningu:
„Sú trú kemur fram í þjóðsögum að útburðir geti verið draugar
þannig til komnir að púkar taki sér bústað í óskírðum börnurn
sem út hafi verið borin.“6
Hjálpar-andinn lætur ekki við það sitja að skýra frá uppruna
draugsins heldur lýsir því hvaða ráðum þarf að beita til að kveða
hann niður. Systkinunum, Ingibjörgu, Sigga og Guðrúnu, ber að
fara að bæjarrústunum þar sem barnið var borið út. Þangað hafði
enginn úr fjölskyldunni lagt leið sína síðan Sigurður heitinn brá
búi og fluttist búferlum ásamt konu sinni og börnum árið 1936.
Þau systkinin fá að vita að eina leiðin til að losna undan draugn-
um er að fara að bænum en þrenningin fær engar frekari upplýs-
ingar um hvað bíði þeirra á Skipeyri.
Þegar þessi hjálpar-andi yfirgefur líkama Guðrúnar tekur
draugurinn við, ógnar heimildamönnum mínurn og hótar að gera
allt sem í hans valdi standi til að koma í veg fyrir leiðangurinn.
Hann ræðst einnig að Magnúsi, eins og Ingibjörg greindi frá í
samtali okkar hér að framan. I hans stað kemur Sigurður gamli.
Hann segist heldur betur kannast við drauginn og hafi allt sitt líf
5 Nákvæmar heimildir um útburð eru ekki til. Fjölmargar þjóðsögur frá upp-
hafi aldarinnar benda til að útburður hafi verið stundaður langt fram eftir öld-
um.
6 Hjalti Hugason og Jón Hnefill Aðalsteinsson, „Þjóðtrú“, Islensk þjóðmenning
V, Trúarhœttir, Reykjavík 1988, bls. 376.