Skírnir - 01.04.1998, Page 176
170
ÁRNI BJÖRNSSON
SKÍRNIR
Það munaði hvorteðer svo lítið um þau fáu heystrá sem unnt
hefði verið að kroppa af álagablettunum, að engin ástæða var til
að taka hina minnstu áhættu. Fyrir nú utan hvað það var
skemmtilegt og spennandi að hafa álagablett heima hjá sér sem
sögur gátu spunnist um og hægt var að segja frá. Upphafleg orsök
varúðarinnar í tengslum við álagabletti getur hinsvegar verið
löngu gleymd eins og útskýrt var í Skírnisgrein minni (97).
Valdimar getur þess einnig að ekki gangi lengur sögur af um-
skiptingum, leynilegum mökum við álfa eða huldukonum í
barnsnauð. Astæðan er væntanlega betri velferðarþjónusta í
mannheimum og meira frjálsræði í ástamálum, en engin hugar-
farsbreyting.
Kenningar og brjóstvit
Matthías segir að rökfærsla mín sé „reist á huglægri og umdeildri
sögutúlkun“ án þess að útskýra það nánar (92). Eg hefði gaman af
að vita hvaða sögutúlkun hann er að meina. Ef hann á við hug-
myndir manna á borð við Bacon, Descartes, Hume, Kant,
Voltaire, Feuerbach, Marx og Nietzsche, þá skal ég fúslega viður-
kenna, að mér hefur þótt margar þeirra bæði skynsamlegar og
skemmtilegar. Hinsvegar hef ég undanfarið fremur reynt að leiða
hjá mér svokallaðar sögutúlkanir, vegna þess að margar þeirra
hafa reynst mér óttalegt rugl og höfðu úrelst að meðaltali á
svosem aldarþriðjungi. Ekki get ég að því gert þótt einstakar
niðurstöður mínar kunni samt stöku sinnum að falla saman við
einhverja sögutúlkun sem Matthías man eftir en ekki ég.
Hér er því naumast um „hellistálsýn“ mína að ræða eins og
Matthías gefur í skyn (90-91) heldur miklu fremur hitt, að mér
var orðið bumbult af allri þeirri hugarleikfimi sem dembt hefur
verið yfir okkur í þessum dulrænu efnum alla mína lífstíð og mér
var löngu hætt að finnast skemmtileg. I staðinn fór ég því að
reyna að skoða hlutina útfrá eigin brjóstviti, starfsreynslu og lífs-
reynslu. Mikilvægur þáttur í þeirri stefnubreytingu voru langvar-
andi kynni mín af viðhorfum heimildamanna þjóðháttadeildar
Þjóðminjasafns Islands, eða mikils meirihluta þeirra, eins og ég
gerði grein fyrir í Skírnisgreininni (79, 91-92).