Skírnir - 01.04.1998, Síða 193
SKÍRNIR
MEINT HEITROF GUÐRÚNAR HJALTALÍN
187
Og Hulda lætur ekki hér við sitja. Hún segir, að mikið hafi
verið um dýrðir í silfurbrúðkaupi þeirra Hjaltalínshjóna vorið
1888 og lýsir því. Þar hafi séra Matthías Jochumsson verið og
fleira stórmenni. Séra Matthías flutti silfurbrúðhjónunum kvæði
þar sem þessi ljóðlína kemur fyrir: „Hvað, þó gisni gullnu hárin“,
og Hulda bætir við: „Mér hefur stundum orðið hugsað til þess,
hvernig viðstöddum hafi orðið við, þegar blessað skáldið talaði
um „gullnu hárin“. Flestir munu hafa vitað, að þau höfðu gisnað
svo mjög, að frúin var víst fyrir löngu farin að nota hárkollu“
(s. 169). Hrædd er eg um að hefðu þessar síðustu tilvitnanir verið
í bók eftir karlmann hefðu þær vafalítið verið taldar bera vott um
karlrembu af verstu gerð.
„Minningar Huldu A. Stefánsdóttur munu, ef að líkum lætur,
skipa henni á bekk með nokkrum þeim löndum hennar sem
samið hafa merkastar minningabækur á síðustu áratugum“, segir í
umsögn um fyrsta bindið á bókarkápu. Það sem hún skrifar um
Guðrúnu Hjaltalín rýrir gildi bókarinnar og er að mínu áliti
hæpið, að jafn menntuð og lífsreynd kona og frú Hulda var, láti
svona nokkuð frá sér fara. Það fer vart milli mála, að frú Guðrún
átti við geðræn vandamál að stríða, enda segir Jón A. Hjaltalín í
bréfi til Davíðs prófasts á Hofi dagsettu í Reykjavík 19. júní 1902,
að hann hafi lítið getað starfað, „því að batinn hjá konunni vill
verða seinfær. Það er hræðslan og taugaveiklunin, sem þjáir hana
mest, nokkuð líkt og var fyrstu árin á Möðruvöllum".16 Ef til vill
hefir samtíðarfólk Guðrúnar ekki skilið þetta enda var ekki haft
hátt um geðsjúkdóma á þeim tíma, en nú er öldin önnur og hefir
verið síðustu áratugi, þannig að frú Hulda veit eða hefði átt að
vita, að hún var að skrifa um sjúka konu, sem gat ekki fengið
lækningu á þeim tíma, einfaldlega vegna þess að læknar þekktu
ekki sjúkdóminn eða voru algjörlega vanhæfir til þess að veita
viðeigandi meðferð. Skrif hennar dæma sig því sjálf eins og skrif
höfunda sögu menntaskólans og segja meira um manngildi þeirra
og þroska, en hegðun og framkomu sjúklingsins.
16 Saga Menntaskólans á Akure-yri I, s. 43.