Skírnir - 01.04.1998, Síða 205
SKÍRNIR
ER ÍSLENSK ÞJÓÐERNISKENND FRÁ OZ ?
199
sínu máli og Serbar öllu króatísku, þótt báðir tali í raun sama tungumál
[-]-30
Að vísu var Ólafur Halldórsson í svargrein sinni lítt samþykkur
túlkun Böðvars á orðum sínum en ritdeila þeirra félaga sýnir
kannski í hnotskurn ákveðna togstreitu sem virðist fyrirferðar-
mikil nú um stundir.31 Jóhann M. Hauksson stjórnmálafræðingur
bar nokkru fyrr svipuð viðhorf og Böðvar á borð hér í Skírni.
Hann benti á að Islendingar hefðu hingað til horft með „róman-
tískri glýju í augum til hreins og tærs sveita- eða víkingamáls“ og
að það hafi jafnan verið talin helgispjöll á íslandi að innleiða er-
lendar slettur. Mat Jóhanns var að nýyrðasmíð á íslandi hafi
„fyrst og fremst haft að marki að halda íslensku máli ‘hreinu’,
forðast slettur, óhreinindi, skít og saur“.32 Eins og Böðvar lagði
Jóhann áherslu á að lifandi tunga væri tunga lifandi fólks: „I raun
er tungumál tæki til að tjá hugsanir eða tilfinningar manna á milli,
og ekkert merkilegra - þótt það sé stórmerkilegt - en t.a.m. bend-
ingar, tónbrigði eða grettur."33
I kjölfarið vaknar reyndar sú spurning hvort hægt sé að hafna
mýtunni um íslenska þjóðtungu en bera jafnframt hag íslensk-
unnar fyrir brjósti. Árni Böðvarsson, fyrrum málfarsráðunautur
Ríkisútvarpsins, svaraði þeirri spurningu játandi í grein fyrir
fáeinum árum og hyggst ég gera ummæli hans að mínum. Árni
lagði áherslu á að varðveislusjónarmið væru mikilvægasta ástæða
málræktar; að hans mati hafa íslendingar nútímans ekki heimild
til að spilla menningararfinum, enda geta síðari tíma menn ekki
bætt tjónið ef ein kynslóð tekur upp á því að glata móðurmálinu
með gáleysi.34 Arni taldi að ómetanleg tengsl milli kynslóðanna í
landinu myndu rofna ef íslenskan liði undir lok en benti jafnhliða
30 Sama, bls. 98-100.
31 Ólafur Halldórsson, „Lítið svar við löngu bréfi“, Tímarit Máls og menningar
58. árg., 4. hefti (1997). Sjá einnig Þórdísi Gísladóttur, „Þjóð í hlekkjum
tungumáisins. Innlegg í orðaskak Ólafs Halldórssonar og Böðvars Guð-
mundssonar“, Tímarit Máls og menningar, 59. árg., 1. hefti (1998).
32 Jóhann M. Hauksson, „Rasisti, bíll, skilgreiningar og íslensk orð“, Skírnir,
171. ár (vor 1997), bls. 161-63.
33 Sama, bls. 159.
34 Árni Böðvarsson, Islenskt málfar (Reykjavík, 1992), bls. 170.