Skírnir - 01.04.1998, Page 209
SKÍRNIR
ER ÍSLENSK ÞJÓÐERNISKENND FRÁ OZ ?
203
fornum íþróttum og gelískri arfleifð almennt. Þessi ‘kúltúr-
nationalismi’, sem svo hefur verið kallaður, teygði ekki síst anga
sína til hins gelíska tungumáls sem reyndist fljótt áhrifamikill
hvati endurnýjaðrar þjóðerniskenndar.43 I anda Thomasar Davis
setti The Gaelic League endurreisn tungumálsins á oddinn í þeirri
trú að með því að afsala sér tungu sinni væri írska þjóðin að fyrir-
gera rétti sínum til þjóðernis. I huga Douglas Hyde (1860-1947),
stofnanda The Gaelic League, var tungan helsta séreinkenni
írskrar þjóðar og hann taldi fjarstæðu að halda því fram að til
væri sérstök írsk þjóð ef þessi sama þjóð fleygði frá sér öllu því er
mótaði hana og gerði hana raunverulega.44 Markmiðið var að
sameina alla íbúa Irlands í ‘kúltúr-nationalisma’ með því að
minna á hina sameiginlegu gelísku arfleifð og þannig átti að út-
rýma þeirri togstreitu sem jafnan einkenndi stjórnmálalíf á Ir-
landi og grundvallaðist oftar en ekki á trúhneigð manna.
The Gaelic League gerðist senn útungunarstöð fyrir alls konar
róttæklinga og uppreisnarseggi, þvert ofan í vilja stofnendanna
sem vildu að samtökin græddu sár en ýfðu þau ekki upp. Skóla-
kennarinn Patrick Pearse vaknaði einmitt til pólitískrar vitundar
undir verndarvæng The Gaelic League og sem ritstjóri málgagns
samtakanna, An Claidheamh Soluis, breiddi hann út boðskapinn:
„írska tungan er ómissandi þáttur írsks þjóðernis. Og ekki nóg
með það, því hún er helsti ástmögur þess og vörn. Þegar írska
tungan glatast mun írskt þjóðerni ipso facto glatast og það að
eilífu.“45 Öfugt við Douglas Hyde vildu menn eins og Pearse
stíga skrefið til fulls og frelsa þjóðina frá menningarlegri og
stjórnarfarslegri ánauð. Endurreisn tungunnar hætti að vera tak-
mark ein og sér heldur varð að vopni í blóðugri sjálfstæðisbar-
43 Sbr. John Hutchinson, The Dynamics of Cultural Nationalism: The Gaelic
Revival and the Creation of the Irish Nation State (London, 1987).
44 Sjá t.d. BA-ritgerð mína í sagnfræði, „Sjö alda ánauð? Samanburður á sjálf-
stæðisbaráttu fslendinga og íra og hugmyndum þjóðfrelsismanna um þjóðerni
sitt, uppruna þess og mikilvægi“, Háskóli íslands 1996, bls. 16-21.
45 An Claidheamh Soluis, 19. nóvember 1904. Það er kannski kaldhæðnislegt (en
segir þó meira en mörg orð) að mikill meirihluti þessa blaðs var ritaður á
ensku; höfundar þess vissu vel að írskuþekking lesendanna var ekki upp á
marga fiska.