Skírnir - 01.04.1998, Page 211
SKÍRNIR
ER ÍSLENSK ÞJÓÐERNISKENND FRÁ 02 ?
205
námskrár, kröfur um írskukunnáttu opinberra starfsmanna voru
hertar og jafnframt þurftu háskólanemar að uppfylla viss skilyrði
til að hljóta brautskráningu. Helstu stjórnmálaleiðtogar gleymdu
ekki að minna Ira á að ef tungan glataðist þá gætu þeir aldrei
framar sagst vera þjóð. Mikilvægi tungunnar var síðan staðfest í
stjórnarskránni frá 1937 þar sem hún var sett skör hærra en
enska.48 Vandamálið á Irlandi fólst hins vegar í því að enska hafði
þegar tekið við af írsku sem hið talaða tungumál (hér má undan-
skilja ýmis jaðarsvæði á vesturströndinni sem þó sæta einnig
breytingum) og því ávallt á brattann að sækja.
Endurreisn írskunnar mistókst vegna þess að dauðastríð
hennar var of langt fram gengið en þar að auki er deilt um hvort
stjórnvöld hafi staðið rétt að málum. I stað þess að liðka fyrir og
stuðla að notkun írskunnar með jákvæðum hætti lögðu þau meg-
ináherslu á að þvinga henni upp á fólk með boðum og bönnum.
Sagnfræðingurinn Joseph Lee heldur því t.d. fram að stjórnvöld
hafi blindast um of af þeirri trú sinni að skólakerfið breska hefði
drepið írskuna á nítjándu öld og að því gæti írskt skólakerfi lífgað
hana við á þeirri tuttugustu. Staðreyndin var hins vegar sú að
jafnvel þótt börn lærðu írsku í skólanum þá reyndist hún ákaflega
gagnslítil í mannlegum samskiptum almennt; „börnum var ekki
gefin nein forsenda til þess að læra írskuna sem lifandi tungumál
heldur einungis sem dáið“.49 Samt fengu kröfur kennara um
raunsærri stjórnarstefnu lítinn hljómgrunn, ekki mátti hreyfa við
hinni ‘heilögu kú’ - írskunni.
Sumir áttuðu sig þó á því hvert stefndi. Þannig hélt þingmað-
urinn og leiðtogi stjórnmálaflokksins Fine Gael, James Dillon,
því fram strax á fimmta áratugnum að írsk stjórnvöld væru með
málstefnu sinni að skaða írska tungu meir en breskum stjórnvöld-
um hafði tekist alla nítjándu öldina. Að hans mati var börnum
kennt að hata írsku og að sjá hana sem nokkurs konar pyntingu.50
48 Adrian Kelly, „The Attempts to revive the Irish Language through the Ed-
ucation System from 1922 to 1960s“, óbirt MA-ritgerð frá St. Patrick’s Col-
lege (Maynooth, 1992), bls. 185-86.
49 J. J. Lee, Ireland 1912-1985: Politics and Society (Cambridge, 1989), bls. 671.
50 Adrian Kelly, „The Attempts to revive the Irish Language", bls. 212-15.