Skírnir - 01.04.1998, Side 225
BIRNA BJARNADÓTTIR
í mótsögn tilfinninga
Um játningar Isaks Harbarsonar
ísak Harðarson
Þú sem ert á bimnum -þú ert hér!
Játningasaga
Forlagið 1996
Maður verður að læra að elska sjálfan sig — svo kenni
ég - með heilsteyptri og heilbrigðri ást: svo að mað-
ur þoli við með sjálfum sér og lendi ekki á flækingi.
Svo mœlti Zaraþústra eftir Friedrich Nietzsche.1
I biblÍunni er abraham reiðubúinn að fórna syni sínum ísak. Hvað hann
hugsar á leiðinni upp fjallið, leiðandi son sinn til slátrunar, veit enginn og
vilji einhver skilja Abraham, þarf sá eða sú að trúa einsog hann. Á önd-
verðri 19. öld reyndi þýski heimspekingurinn Hegel að færa trúna í let-
ur, en danskur samferðamaður hans, Sören Kierkegaard, efaðist um til-
tækið. Trúin, í huga Kierkegaards, er handan orðræðunnar. Mannleg
fræði eins og siðfræðin, guðfræðin og fagurfræðin búa ekki yfir endan-
legri útskýringu á trú.2 En hvernig nálgast maður trúartilfinninguna?
Kierkegaard segir trúna þverstæðu tilvistarinnar: Frá sjónarhóli trúarinn-
ar er Abraham reiðubúinn að fórna syni sínum til handa guði, en frá
sjónarhóli siðfræðinnar er Abraham reiðubúinn að myrða son sinn.3 Án
þessarar mótsagnar sé Abraham ekki sá sem hann er sagður vera og það
er einmitt vegna hennar sem sagan af Abraham komi okkur við. En vilji
einhver feta í fótspor Abrahams og fórna því sem henni eða honum er
kærast í þeirri vissu að öðlast það óskipt til baka, vilji einhver trúa cins
1 Þýðandi Jón Árni Jónsson. Háskólaútgáfan. Reykjavík 1996, bls. 196.
2 Frygt og Bneven eftir Johannes de silentio (dulnefni Kierkegaards) í Samlede
Værker, bindi 5, Gyldendal. Kaupmannahöfn 1994, bls. 44-45. Bókin kom
fyrst út árið 1843 og er andsvar við þeirri hugmynd Hegels að trúna sé hægt
að hugsa. Þessi grein er jáyrði mitt við andsvari Kierkegaards, um leið og hún
er „tilraun í viðbragði" gegn játningasögu ísaks Harðarsonar. Eg vil þakka
Ástráði Eysteinssyni fyrir holl ráð og fínar athugasemdir. Ég vil líka þakka
ritstjórum Skírnis fyrir jafn góðan lestur greinarinnar. Það segir sig hins vegar
sjálft að allt það sem betur má fara, skrifast á greinarhöfund.
3 Frygt og Bxven, bls. 29-30.
Skírnir, 172. ár (vor 1998)