Skírnir - 01.04.1998, Blaðsíða 237
SKÍRNIR
f MÓTSÖGN TILFINNINGA
231
tilfinningarnar sem kveikja fyrir alvöru í trúarþörf ísaks, en fleiri játarar
greina frá keimlíkri reynslu.
Ágústínus er einn þeirra, en í Játningunum horfir hann á cftir besta
vini sínum í gröfina: „Af þessum harmi varð mér myrkt fyrir hjarta, og
allt, sem ég augum leit, bar dauðasvip".24 Dauður vinur er raunverulegri,
meira lifandi en allt sem fyrir augu ber og Ágústínus verður sér meðvit-
aður um hvernig skynjun hans verður sendiboði dauðans. Um leið verð-
ur dauðinn honum áminning um lífið, og við tekur voðaleg glíma í völ-
undarhúsi ástar þar sem Ágústínus linnir ekki látum í vankunnáttu sinni:
„Hvílíkt óvit að kunna ekki að unna mönnum mannlega. Heimskingi,
sem kannt þér ekki hóf í mannlegri raun!“25 Hvort maður elski öðruvísi
en í óhófi mannlegrar raunar er alvöru spurning. Og til þess að leita
svara við henni, þarf játari að þola við mcð hugsun sinni, sem er hið sama
og að þola við með sjálfum sér: hann verður að lifa í spurn andspænis
dauðanum.26
Ágústínus er heitbundinn veruleikanum. Hann játar trú sína í spurn
um veruleikann en ekki handan hans og einmitt þess vegna eru
]átningarnar vitnisburður um ævintýralegt samband ástar, trúar og
dauða í raunveruleika kristni. Lesandi Játninganna spyr því ekki hugs-
unarlaust um yfirfærðan verulcika. Eins og trúin á guð sé eitthvað annað
og betra en skapandi skelfing í hugarfylgsnum manns, spyr hún/hann í
anda Jobs: Er ég úr grjóti fyrst ég þreyi? I allsgáðum huga fyrirfinnst
ekkert svar. Kannski vegna þess að maðurinn er ekki bara ráðgáta sjálf-
um sér, heldur líka guði: „Mikið undradjúp er maðurinn! Þú telur höf-
uðhár hans, Drottinn, og ekkert þeirra glatast þér. En höfuðhár hans eru
auðtaldari en það, sem í hjarta hans hrærist og bærist.“27
I Þú sem ert á himnum - þú ert hér virðist Isak hins vegar reyna hið
ómögulega, hvort heldur fyrir sjálfan sig eða lesanda sögunnar, en eins
og til væri vitnisburður um ævintýralegt samband ástar, trúar og dauða,
handan mótsagnar, gerir ísak tilraun til að játa trú sína í trássi við veru-
leikann. Hann gerir, með öðrum orðum, tilraun til að yfirvinna hlut-
skipti sitt. Slík er freistingin, eins og fram hefur komið, og hér er ekki ef-
ast um rætur hennar. Til þess að tjá sig um hlutskiptið, hins vegar, þyrfti
24 Sjá Játningar Ágústínusar í þýðingu Sigurbjörns Einarssonar. Bókaútgáfa
Menningarsjóðs. Reykjavík 1962, IV. 4.
25 Sama rit, IV. 7.
26 Sjá grein Vilhjálms Árnasonar „„Deyðu á réttum tíma.“ Siðfræði og sjálfræði í
ljósi dauðans" í Skírni, 164 (haust 1990, bls. 288-316), en í henni ræðir Vil-
hjálmur þýðingu dauðans fyrir lífið og mismunandi afstöðu manna til hans.
Afstaða Ágústínusar er keimlík þeirri afstöðu sem Vilhjálmur lýsir svo: „Með
því að horfast í augu við dauðann á einlægan hátt horfast menn í augu við
sjálfa sig í spurn um grundvöll og merkingu eigin tilveru" (bls. 296).
27 Játningar Agústínusar, IV. 14.