Skírnir - 01.04.1998, Page 240
234
BIRNA BJARNADÓTTIR
SKÍRNIR
Eins og í fyrirmyndinni, (Sköpunarsögunni), er frjáls vilji manneskj-
unnar fordæmdur: „HÆ, HVAÐ EIGUM VIÐ AÐ VILJA?“ (15),
sönglar villuráfandi mannkynið. Isak vill gera betur og afræður að svara
kallinu, en til þess að stilla ljósið verður Isak ekki bara að komast úr
heimsmynd 19. og 20. aldar, eða úr þeim raunveruleika guðleysis sem
hcfur staðið bæði skáldum og hcimspekingum á Vesturlöndum um
nokkurt skeið til boða, heldur einnig úr heimsmynd miðalda. Þegar á
miðöldum gat nefnilega einstaka skáld lifað með ímyndunaraflinu og
fyrir vikið lukust dyrnar að kristnu hugarfari upp á gátt.29 En ísak vill
ekki leika sér í helvíti, hann vill gera betur og heldur því rakleiðis inn í
bíblíusögu þar sem hann hreiðrar um sig á meðal útvalinna persóna
Gamla testamentisins, eða nánar tiltekið á meðal þeirra persóna sem geta
gefið sig - í þögn - fáránleikanum á vald. I upphafi játningasögunnar -
hluta sem nefnist „I Efanum“ - má sjá heiðið landnám á Islandi baðað í
kristilegri auðmýkt og hvernig Ingólfur er kallaður líkt og Móse:
Meira en þúsund árum áður en kom að kaflanum um kynslóð mína í
sögu þinni, hafði tvö útskorin guðatré rekið upp í nafnlausa fjöruna
[...]. Þar voru komnar öndvegissúlur Ingóifs, Hallveigar og Hjörleifs
og fólks þeirra sem þú hafðir kallað út í auðnina líkt og Móse,
Mirjam og Aron og lýð þeirra í suðri fyrrum. Og þótt þau þekktu
lítið til þín annað en að betra væri frelsi en helsi og friður en deilur,
þá þekktir þú miklu meira til þeirra en nöfnin tóm. Þannig varstu
mitt á meðal þeirra, þegar þau litu í fyrsta sinn yngsta land þitt á
jörðu rísa úr djúpinu eins og fullkomið svar við bænum sínum. Og
þannig dirfðust þau ekki að ráða því sjálf hvar þau næmu hið nýja
land, heldur báðu um leiðbeiningu guðanna og lögðu allt undir í
auðmýkt gagnvart vilja þess afls sem þú leyfðir þeim að skynja að
stóð handan og ofan mannsins [...] (25)
Ólíkt skáldum í löndum ritskoðunar (og jafnvel ólíkt því sem ísak
ímyndar sér, eins og vikið verður nánar að) má ísak leika sér að vild með
guð. Og þótt hann vilji vera persóna í biblíusögu og ímynda sér Ingólf
Móses og frelsi helsi (eða viðjar sem er fallegra orð) ferst enginn: Ólíkt
Salman Rushdie, er Isak fæddur og borinn í kristinni menningu. Hitt má
vera ljóst að eigi ævintýri Isaks að lifa og koma einhverjum við í raun-
veruleika kristni, getur hann ekki sniðgengið leyndardóm veruleikans,
þessa ráðgátu mótsagnar sem er sjálfur hann, í leit sinni að einhverju
öðru og betra til að elska. Trúarreynsla Isaks, sú reynsla sem lesa má um
í hvörfum sögunnar og sú reynsla sem gerir lífið, í huga Isaks, þess virði
að lifa því, virðist því í senn grafa undan þeirri ást, sem og mögulegum
29 Dante er skáldið sem ég hef í huga.