Skírnir - 01.04.1998, Page 250
244
BALDUR HAFSTAÐ
SKÍRNIR
sig við vonbrigðin út af hinum snögga endi á menntunaráformunum.
Hann getur líka sætt sig við að hafa ekki fengið að láta tónlistina dafna í
lífi sínu. Sú sæla tónlist sem hann heyrir af fiðlu nafna síns, hins norska
Ole Bull, veldur honum hvorki öfund né raun, heldur eflir honum innri
styrk. En hann bugast að vissu leyti við að missa Sæunni. Hann gerir það
sem eiginlega var ekki hægt að búast við: hreppsnefndarmaðurinn af
Nýja-Islandi snýr aftur í þann hrepp sem hafði leikið hann svo grátt og
gert að ómaga sínum. Það er dálítið erfitt fyrir lesandann að sætta sig við
þetta, einkum með tilliti til þess að enn á Ólafur eitt barn í Vesturheimi
(sem hann yfirgefur að vísu í góðum höndum) og þar á hann góða vini
sem treysta honum og hann getur treyst í hörmungum sínum.
Þjóðsögustefið um selakonuna segir mikið í fáum orðum um líðan
móður sem verður að yfirgefa börn sín:
Mér er um og ó,
ég á sjö börn í sjó
og sjö börn á landi.5
Sæunni er á einum stað (1:196) líkt við hana enda verður hún bæði að
yfirgefa og missa. í verki Böðvars birtist hún sem umhyggjusöm en sorg-
mædd móðir. Hún fer eitt sinn fótgangandi til að sjá litla soninn sinn,
Ólaf heiðarsvein, sem hafði verið tekinn frá henni skömmu eftir fæðing-
una á Þrískóaheiði. Séra Helgi Thorkelsen telur ekki ástæðu til að setja
undir hana hest þennan dag. „Eg get engu lofað, elsku barnið mitt, því ég
á ekki neitt og er ekki neitt,“ segir hún síðar við dótturina Málmfríði
þegar litla stúlkan biður mömmu sína að fá að hitta hana og systkini sín
bráðum aftur (1:141).
Saga Sæunnar og Ólafs er þrátt fyrir allt falleg ástarsaga. Þau hittast
fyrst við heiðarsporðinn þar sem hún segir ungum ferðalang, sem flúið
hefur ranglætið í sveitinni sinni, til vegar. Síðar skilur áin þau að eins og
stundum gerist með elskendur. Þegar Sæunn sker þykkar hárfléttur sínar
í þeirri von að fá „Rússagull" í skiptum fyrir þær (1:131) minnir hún á
stúlkuna í smásögunni „Gjöfum vitringanna“ eftir O’Henry; hún seldi
hár sitt til að geta glatt ástvin sinn með dálítilli gjöf. Fyrsta árið í nýja
heiminum er eins og Jökulsá sé aftur komin á milli þeirra hjóna, slík er
vosbúðin (1:241). Annað árið vestra vill Ólafur hlífa Sæunni við vetrar-
kuldunum og húsnæðisleysinu í fyrirheitna landinu og fá hana til að bíða
í Winnipeg um veturinn. En hún vill heldur deyja en vera fjarvistum við
mann sinn aftur. Ólafur leikur á fíólínið yfir henni látinni, og mannsaldri
síðar hnígur hann niður við leiði hennar í Víðirnesi.
5 Þjóðsögur Jóns Arnasonar I (1961), 630.