Skírnir - 01.04.1998, Síða 262
256
GUÐMUNDUR ODDUR MAGNÚSSON
SKÍRNIR
unum. í kristni var þessu öðruvísi farið. Kristileg myndlist á rætur sínar í
hellenskri menningu en Grikkir hikuðu ekki við að gera natúarlískar
myndir af guðum sínum sem mönnum í réttum hlutföllum. Einhverjar
elstu varðveittu myndirnar af Kristi er að finna í katakombunum í Róm.
Frelsaranum er þar ýmist líkt við Orfeus, sem var skáld, söngvari og
hafði vald yfir dýrum og náttúru, eða hann er sýndur sem Appolon;
hann er kennari, heimspekingurinn með lambið, skegglaus líkt og sólar-
guðinn gríski (það er ekki fyrr en í kringum 400 e.Kr. sem farið er að
sýna Krist skeggjaðan).
Fyrsti þekkti vísirinn að trúarlegri myndlist í anda Platóns er hins
vegar mósaík loftskreyting í kirkju frá fimmtu öld í Ravenna á Italíu. Við
sjáum dökkbláan næturhimin, Pétur og Pál við uppsprettulindina. Geisl-
arnir sem koma niður yfir höfðum þeirra er hin guðdómlega birta, bók-
stafleg vísan í veruleika handan efnisheimsins. Listamaðurinn er að kalla
fram ljós sem við sjáum ekki en skynjum og getum ef til vill skilið; varð-
ar mest til allra orða, undirstaða sé réttleg fundin.
II
Þegar meta á myndverk Kristínar Gunnlaugsdóttur duga hefðbundnar
mælistikur vísindalegrar listrýni skammt; anatómían samkvæmt hinum
aristótelíska skilningi er ekki einu sinni „rétt“. Verk hennar kalla hvorki á
rannsókn á myndmálinu né snúast þau um líffærafræðina, þau byggjast á
annarri undirstöðu. Á árunum 1987 til 1988 lærði Kristín íkonamálun í
klaustri Fransiskusystra, Francescane Missionare di Maria í Róm og hefur
íkonagerðin og list miðalda haft varanleg áhrif á hennar eigin myndir og
myndmál. Eg spyr Kristínu hver sé lykillinn að því að lesa verk hennar:
„Það er óþarfi að tengja of mikið í symbólisma, ég vil að hugur
áhorfandans geti brugðist við frjálst og óháð. Ef hann svo langar að vita
hvað ég var að hugsa er það auðvitað velkomið. Náin snerting við áhorf-
andann skiptir mig höfuðmáli. Eg vil ná til hans tilfinningalega og and-
lega. Það að verkin séu vel unnin, vel máluð, vil ég nota sem lykil til þess
að fólk laðist að þeim. Það eitt og sér hefur þó ekkert að segja ef inni-
haldið tengist áhorfandanum ekki á einhvern hátt. Að því leyti tel ég mig
vera mjög nærgætinn og varfærinn myndlistarmann. Það sem ég er að
segja, reyni ég að segja á nærfærinn en jafnframt opinn hátt og þá hentar
þessi tækni og engin önnur betur."
Ertu að tala um sömu tœkni ogþú lærðir við íkonagerð?
„Þegar ég var í MHÍ lærði ég að nota olíulitina og þeir hentuðu mér
mjög vel. í klaustrinu í Róm 1987 lærði ég íkonagrafíuna og eggtemperu-
tæknina en málaði jafnframt í olíu, stórar og miklar myndir. Svo gerist
það um 1993 að ég er komin alveg í þrot í olíunni, orðin stíf og stöðnuð,
alveg búin að fá nóg af því hvað þetta var stórt og þungt allt saman. Mig
hafði alltaf langað að gera litlar myndir en olían hentaði mér ekki við