Skírnir - 01.09.1999, Blaðsíða 111
SKÍRNIR
HLÆJANDI GUÐIR OG HELGIR MENN
357
allir gamlir guðir“. Það sem flækir málin enn frekar er að sama
gerð setningarinnar getur þjónað ólíku hlutverki í ólíku sam-
hengi. Hjá Nietzsche lýsir setningin „Dauðir eru allir guðir“
stundum því ástandi að allir guðirnir, eins og þeir birtast t.d. í
fjölgyðistrú, séu dauðir. Þeir drápust en masse. En á stundum
kemur hún fyrir sem gildishlaðin lýsing á borð við: „Dauðir eru
allir einræðisherrar", „Dauðir eru allir kóngar", „Dauðir eru allir
guðir“.
Þessi greinarmunur á dauða guðs og dauða guðanna skiptir
máli fyrir skilning á ítarlegustu skýringunni sem Zaraþústra sjálf-
ur gefur á dauða guðanna. Hún er svohljóðandi:
Dauði þeirra líktist ekki ljósaskiptum, - þótt því sé logið að svo hafi
verið! Heldur hlógu þeir einu sinni sjálfa sig í hel!
Þetta gerðist þegar hið guðlausasta orð gekk af munni eins af guðun-
um sjálfum, - en það hljóðar svo: „Til er einn guð! Þú skalt ekki aðra
guði hafa!“ -
- þannig gleymdi sér gamall, afbrýðisamur og grimmúðlegur guð: -
Þá ráku allir guðirnir upp hlátur, riðuðu í sætum sínum og æptu: „Er
ekki guðdómleikinn einmitt fólginn í því að til eru guðir en ekki guð?“
(188)
Strax á eftir þessari málsgrein skýtur Nietzsche inn setningunni:
„Hver sem eyru hefur, hann heyri.“ Hvað er það sem við þrá-
umst við að heyra þegar dauða guðs ber á góma? Tilvitnunin gef-
ur vissar vísbendingar. Eitt er að það er talið guðlausast sem
kristnir menn álíta efsta stig guðrækni: að hafa einn og aðeins
einn guð. Dauði guðdómsins felst ekki í því að gamli ráðríki guð-
inn hafi dáið, eins og svo oft er álitið og óttast, heldur einmitt í
hinu að hann hafi fœðst, eða orðið einvaldur. Vandinn er ekki sá
að þessi guð hverfi heldur að hann hafi orðið til. Dauði guðanna
og endalok guðdómleikans birtast sem eingyðistrú af ráðríkustu
tegund. Þessi einokun guðdómleikans er sögð mesta ógnin sem
mannkynið, mennskan, hefur staðið frammi fyrir hingað til (KSA
3, 490). Einkar athyglisvert er að þessi vandi skuli kenndur við
dauða guðs, enda er hér stutt í aðra ályktun: Dauði guðs, í merk-
ingunni dauði guðdómleikans, getur í ákveðnu samhengi merkt
að við séum orðin kristin, höfum játast trúnni á einn og aðeins
einn guð.