Skírnir - 01.09.1999, Blaðsíða 248
HERMANN PÁLSSON
Skerfur til menningarsögu
Helgi Guðmundsson
Um haf innan. Vestrœnir menn
og íslenzk menning á miðöldum
Reykjavík 1997
Viðfangsefni
hinu nýja riti Helga Guðmundssonar mætti lýsa með ýmsu móti, en
eðlilegast þykir mér að telja það skerf til menningarsögu Islendinga,
enda hnígur titill bókarinnar í þvílíka átt. Hér dregur Helgi fram í dags-
ljósið marga skylda hluti sem áður voru myrkri huldir. Hann lítur
menningu vora fyrr á öldum nýjum augum og yrkir bók sína af miklum
áhuga og sannfæringu; hún er einkar læsileg, ólgar af fjöri og frumlegum
hugmyndum. Helgi raskar hefðbundnum kenningum um íslenska fortíð.
Bókin er svo víðfeðm og margslungin að enginn vegur er að gera öllum
þáttum hennar ítarleg skil í einum ritdómi.
Að hyggju Ara fróða í upphafi Islendingabókar byggðist Island fyrst
úr Noregi árið 870; þjóðarsaga vor hefst snögglega með komu Ingólfs
Arnarsonar hingað. Allir forfeður vorir fyrir daga Ingólfs heyra forsögu
til, og hún gerðist öll utanlands, einkum í Noregi en þó að nokkru leyti í
Suðureyjum og Irlandi. Þótt svo sé háttað um forsögu þjóðarinnar, þá
gegnir öðru máli um sögu Islands sjálfs. Nú virðast mannvistarleifar
benda til byggðar hérlendis „skömmu eftir aldamótin 700 e.Kr.“.‘ Þótt
slíkir frumbyggjar hafi ekki verið forfeður vorir, verður því naumast
neitað að tilvist þeirra, ef fullsönnuð verður, breytir forsögu Islands til
muna. Svo má heita að papar heyri forsögu Islands til, þar sem þeir
dvöldust hér um hríð fyrir landnámsöld. Þeir hverfa héðan rétt um það
leyti sem saga Islendinga er að hefjast „og létu eftir bækur írskar, bjöllur
og bagla“, að því er Ari fróði hermir í Islendingabók (1. kap.). Með slíku
móti fékkst sönnun fyrir því að Island átti sér dálitla forsögu fyrir daga
Ingólfs í Reykjavík.
I riti sínu Um haf innan fjallar Helgi skynsamlega - og þó að sumu
leyti nýstárlega - um papa (bls. 85-100). Hann ræðir þar meðal annarra
1 Páll Theodórsson, „Norse Settlement of Iceland Close to AD 700“, Norweg-
ian Archeological Review 31/1 (1998), bls. 29-38 og „Aldur landnáms og
geislakolsgreiningar“, Skírnir 171. ár (vor 1997), bls. 90-110. Aðrir fræðimenn
gera þó ráð fyrir að þessar mannvistarleifar séu mun yngri.
Skírnir, 173. ár (haust 1999)