Bændablaðið - 29.01.2015, Page 8

Bændablaðið - 29.01.2015, Page 8
8 Bændablaðið | Fimmtudagur 29. janúar 2015 Fréttir Nýliðunarstyrkir í mjólkurframleiðslu og sauðfjárrækt: Samþykktar umsóknir í mjólkur- framleiðslu voru 17 á síðasta ári Á síðasta ári var fjöldi samþykktra umsókna um nýliðunarstyrk í mjólkurframleiðslu 17. Alls barst 21 umsókn á síðasta ári. Nýliðunarstyrkir í mjólkurframleiðslu hafa verið veittir frá 2012 og hafa ekki fleiri umsóknir verið samþykktar. Markmið nýliðunarstyrkja er að aðstoða nýliða við að hefja búskap. Í verklagsreglum kemur fram að einstaklingur eða lögaðili getur sótt um framlög, allt að fimm milljónir króna, við upphaf kúabúskapar. Aðili á einungis rétt á slíku styrkframlagi einu sinni á sinni búskapartíð og teljast hjón og sambýlisfólk einn aðili í skilningi reglnanna. Árið 2012 bárust 20 umsóknir í mjólkurframleiðslu, en 12 voru samþykktar. Árið 2013 bárust átta umsóknir og voru sjö samþykktar. Svipaður fjöldi nýliðunarstyrkja í sauðfé Fjöldi umsókna um nýliðunarstyrki í sauðfjárrækt hefur verið svipaður á undanförnum árum, en fyrst var farið að veita þá styrki árið 2008. Nýliðunarstyrkir eru einnig veittir við fjölgun í bústofni um 50 ær eða fleiri. Í fyrra bárust 57 umsóknir; 31 ný og 23 framhaldsumsóknir. Af þeim voru 50 samþykktar en sjö hafnað. Árið 2013 bárust 54 umsóknir; 31 ný og 23 framhaldsumsóknir. Af þeim voru 45 samþykktar en níu hafnað. Árið 2012 bárust 54 umsóknir; 23 nýjar og 31 framhaldsumsókn. Af þeim voru 49 samþykktar. /smh Áburðarframleiðsla á hag- kvæman og vistvænan hátt − ammóníak búið til úr andrúmslofti og vatni Á dögunum veitti Rannsókna- sjóður Íslands í umsjón Rannís styrk til verkefnis sem miðar að því að þróa aðferð til að búa til ammóníak fyrir áburðarframleiðslu og þar með leyst iðnaðarferlið af hólmi sem notað er í dag. Verkefnið heitir „Áburður frá lofti og vatni: Frá reikningum til tilrauna“ og verkefnisstjóri þess er Egill Skúlason, dósent við Raunvísindadeild Háskóla Íslands. „Í iðnaði í dag þarf fyrst að búa til vetnisgas sem yfirleitt er búið til úr jarðgasi sem er þverrandi orkulind. Auk þess er sá hluti ferlisins dýrasti hlutinn. Vetnisgasið er síðan blandað saman við niturgas við mjög háan hita og þrýsting. Þetta leiðir til þess að slíkar verksmiðjur eru aðeins á útvöldum stöðum í heiminum í dag, og því þarf að flytja til ammóníakið eða áburðinn á milli staða, sem eykur kostnað á áburðinum og mengar einnig andrúmsloftið. Í aðferðinni sem við erum að vinna við að þróa hér verður hægt að búa til ammóníak og eða áburð úr nitri andrúmsloftsins (sem er 78 prósent) og vatni með svokallaðri rafefnafræði. Það yrði því hægt að gera þetta í miklu minni einingum eða verksmiðjum og aðeins stofuhiti og venjulegur loftþrýsingur þarf til hér. Þess vegna væri mögulegt að vera með slíka áburðarframleiðslu á sama stað og nota þarf áburðinn, t.d. á bóndabænum. Þá væri hægt annaðhvort að notast við rafmagn eða sólarorku,“ útskýrir Egill. Hugmyndin kemur úr náttúrunni „Ég byrjaði að vinna að þessari hugmynd í meistaranámi mínu við HÍ fyrir rúmum 10 árum en tók síðan nokkurra ára hlé frá því á meðan ég tók doktorsnám við Tækniháskóla Danmerkur, og hélt síðan áfram að vinna að þessu verkefni eftir að ég kom heim og fór að vinna við HÍ. Hugmyndin kemur í rauninni frá náttúrunni, en þar eru bakteríur með svokölluð ensím sem framkvæma svipað efnahvarf við svipaðar aðstæður. Menn hefur lengi dreymt um að læra þetta af náttúrunni og ýmsar rannsóknir tengt þessu eru í gangi erlendis. En hráefnin og aðstæðurnar sem við viljum ná fram hér í þessari aðferð hefur ekki fengið mikinn gaum því þetta hefur þótt frekar vonlaus framkvæmd; því yfirleitt myndast bara vetnisgas í stað ammóníaks í þeim tilraunum sem hafa verið gerðar. Málið er að flest rafskaut sem hafa verið prófuð fyrir þetta mynda miklu frekar vetnisgas en ammóníak en við höfum notast við tölvureikninga til að leita að efnahvötum sem stýra útkomu efnahvarfsins, en við viljum koma í veg fyrir vetnismyndun en auka ammóníaksmyndun. Þannig höfum við náð að hanna efnahvata með tölvureikningum sem gera þetta langþráða efnahvarf mögulegt.“ Egill segir að styrkurinn frá Rannís sé góður og kærkominn. „Hann gerir það að verkum að við getum ráðið um sex manns (doktorsnema og sérfræðinga) til að vinna að þessu verkefni í þrjú ár. Þar að auki borgar styrkurinn hluta af launum fyrir sérfræðinga við Nýsköpunarmiðstöð Íslands, sem vinna að þessu verkefni, sem og til að kaupa og viðhalda tækjabúnaði og efnum fyrir þetta verkefni. Sem sagt rekstrarkostnaður en einnig kynningarkostnaður. Til að ná settu markmiði vinnum við bæði að tölvureikningum sem og tilraunavinnu. Tilraunavinnan byggir á því að búa til efnahvatana með nanótækni sem og að framkvæma rafefnafræðilegar tilraunir, en einnig að mæla magnið af ammóníakinu sem framleitt er. Öll þessi vinna er tímafrek og allir þættir verkefnisins þurfa að vinna saman og skiptast á niðurstöðum til að komast áfram að lokalausninni. Ef allt gengur eftir, þá gætum við byrjað á hagnýtingu og prófunum á stærri skala eftir nokkur ár. Þá gætu bændur hér heima, sem og annars staðar í heiminum, framleitt sinn eigin áburð með litlum kostnaði. Efnhvatarnir eru úr ódýrum efnum, tækjabúnaðurinn verður ódýr og hráefnin eru vatn og loft ásamt orkugjöfum eins og rafmagni eða sólarljósi. Landbúnaðurinn gæti þá komist nær því að vera óháður innflutningi á áburði, en það mun auðvitað vera mikilvægast fyrir fátæka bændur í þróunarlöndunum, sem hafa í dag ekki efni á áburði og eru því þar af leiðandi með litla uppskeru.“ /smh Sigurður Helgason, yfir- matreiðslu meistari á Grillinu á Hótel Sögu, var fulltrúi Íslands í óopinberri heimsmeistarakeppni matreiðslumanna Bocuse d’Or sem haldin var í Lyon í Frakklandi dagana 27. og 28. janúar. Úrslit lágu ekki fyrir þegar blaðið fór í prentun. Sigurður og fylgdarlið hans lentu í Frakklandi 22. janúar og voru með um eitt tonn af búnaði og hráefni meðferðis. Blaðamaður heyrði í Sigurði þegar hann var nýlentur og var hljóðið mjög gott í honum. „Við erum mjög vel stemmdir og spenntir. Þessi dagur fer nú bara allur í að koma farangrinum á keppnisstað. Fyrir utan ýmiss konar búnað erum við með um 15–200 kíló af matvælum. Það er alls kyns grunnhráefni og sósugrunnar en aðalhráefnið sem allir eiga að elda, franskan vatnaurriða og perluhænu, fáum við afhent á staðnum. Grænmetið fyrir fiskréttinn þarf ég að sækja á markað daginn fyrir keppnina og við fáum hálftíma til að velja það. Grænmetið með kjötinu get ég algjörlega valið sjálfur. Ég fór þá leið að nota íslenskt yfirbragð á réttina mína; ég nota reyk, villt ber sem ég tíndi í sumar og eru frostþurrkuð til að nota utan á kjötið. Þar eru meðal annars aðalbláber og einiber. Svo nota ég aðrar villtar jurtir, til að mynda hreindýramosa sem ég nota bæði í matinn og fyrir útlitið.“ Útlitið skiptir máli Við leggjum líka mikið upp úr útlitinu á réttunum og þar er plattinn auðvitað undirstaðan í framreiðslunni á kjötréttinum. Plattinn er 90 sentimetrar í þvermál og á hann fara 12 skammtar. Mikið var lagt í hönnun og smíði hans; þar sem hugmyndin var að reyna að einhverju leyti að endurskapa náttúru Íslands. Innblásturinn kom meðal annars frá íslensku stuðlabergi. Inni á plattanum hefur verið mótað lítið grill úr því sem líkist stuðlabergsstrendingum. Þar ofan í set ég kol og birki og framkalla reyk til að gefa réttinum aukin áhrif. Allt þetta útheimtir gríðarlega skipulagningu og tímastjórnun. Þráinn Freyr Vigfússon er þjálfari Sigurðar og þrír aðstoðarmenn eru með í för; Hinrik Örn Lárusson (Grillinu), Karl Óskar Smárason (Vox) og Rúnar Pierre Heriveaux (Lava í Bláa Lóninu) en hann aðstoðar Sigurð í keppniseldhúsinu á sjálfum keppnisdeginum 27. janúar. „Við myndum góða liðsheild og ég er mjög heppinn með þá aðstoðarmenn sem eru með mér. Við erum eiginlega sex manna lið því Sturla Birgisson fór með okkur út sem dómari. Þetta er orðið mjög reynslumikið lið sem stendur að baki íslenska þátttakandanum hverju sinni og við stefnum á að ná góðum árangri – vonandi alla leið upp á pall. /smh Sigurður Helgason, fulltrúi Íslands á Bocuse d’Or: Náum vonandi upp á pall Landssamband kúabænda: Aðalfundur 12. og 13. mars 2015 Aðalfundur Landssambands kúabænda verður settur fimmtudaginn 12. mars nk. kl. 10.00 í fyrirlestrarsal Íslenskrar erfðagreiningar að Sturlugötu 8 í Reykjavík. Fagþing nautgriparæktarinnar verður haldið þar síðar um daginn, frá kl. 13–16. Fundurinn og fagþingið er opið öllu áhugafólki um nautgriparækt. Árshátíð Landssambands kúabænda verður haldin á Grand Hótel Reykjavík föstudagskvöldið 12. mars. Miðapantanir eru í síma 460 4477. Veislustjóri verður Ingvar Jónsson. Tveggja manna herbergi á Grand Hótel Reykjavík með morgunverði kostar 24.190 pr. nótt. Tveggja manna herbergi með morgunverði á Hótel Cabin kostar 13.100 kr pr. nótt. Herbergjapantanir eru gerðar í síma 415 0600 eða með tölvupósti á linda@icelandunlimited. is Þar sem mjög mikil ásókn er í gistingu í höfuðborginni þessi misserin, er áhugasömum ráðlagt að hafa hraðar hendur við pantanir! Landssamband kúabænda hvetur bændur til að fjölmenna á þessa viðburði. Egill með syni sínum, Eldi Egilssyni, á rannsóknarstofunni. Sigurður Helgason. Ljósmæður á Selfossi sjá um legháls- krabbameinsleit á Suðurlandi Eftir 1. febrúar býðst konum á Suðurlandi að panta tíma í leghálskrabbameinsleit hjá ljósmóður á sinni heilsugæslustöð á flestum heilsugæslustöðvum Heilbrigðisstofnunar Suðurlands. Að undanförnu hefur Krabbameinsfélag Íslands staðið fyrir átaki til þess að hvetja konur að mæta í leghálskrabbameinsleit. Þátttakan á Íslandi hefur farið minnkandi undanfarin ár og er nú víða undir 50%. Sérstaklega hefur þátttakan dregist saman á landsbyggðinni, en á árum áður mættu konur yfirleitt mun betur úti á landi sem nú hefur snúist við. „Sú breyting hefur orðið á leitinni að nú framkvæma l j ó s m æ ð u r einnig leghálssýnatökuna, og er það nú þegar byrjað á Leitarstöð Krabbameinsfélagsins í Reykjavík og á heilsugæslustöðvum víðast hvar um landið. Þessi háttur er hafður á í mörgum nágrannalöndum okkar og þar er þátttakan mun meiri en hér á landi. Leghálskrabbameinsleit skilar góðum árangri svo framarlega sem konur mæta. Dánartíðni af völdum leghálskrabbameins hefur lækkað um 90% síðan skipulögð leit hófst,“ segir Sigrún Kristjánsdóttir, yfirljósmóðir hjá Heilbrigðisstofnun Suðurlands. /MHH Sigrún Kristjánsdóttir.

x

Bændablaðið

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.