Bændablaðið - 13.08.2015, Qupperneq 31

Bændablaðið - 13.08.2015, Qupperneq 31
31Bændablaðið | Fimmtudagur 13. ágúst 2015 Herbergin bera nöfn eins og Moskva og Kreml með tilheyr- andi skreytingum. Glatt var á hjalla og dvölin í vitanum var hin notalegasta. Vaskur gönguhópur á vegum FÍ bættist í hópinn. Mér til mikillar undrunar komst ég að því að móðurbróðir minn, Arnór Jónsson, hafði verið vitavörður í Hornbjargsvita árin 1950–1952. Daginn eftir var svo haldið á Horn bjarg í góðu veðri. Ég leyfi mér að halda því fram að það sé ein fegursta gönguleið á Íslandi. Margt að sjá á leiðinni og stórfenglegt að sjá fjallshornin rísa úr sæ. Algjörlega var ógleymanlegt að sjá yfir í Horn- vík, Hælavíkurbjarg og svo hið stór- kostlega nærumhverfi. Margt vakti athygli okkar á leið á bjargið og sóttist okkur ferðin seint enda ekkert að flýta okkur, svo mikið var að sjá, dást að og meðtaka. Frá vitanum áleiðis á bjargið lá leiðin hjá Blakkabás sem er hyldjúpur vogur þar sem bergmyndunin og berglögin voru þannig að engu líkara var en um sofandi risa væri að ræða. Blakkibás Blakkibás ber nafn sitt af nyrðri vegg sínum sem er sléttur blágrýtis- klettaveggur úr gömlum berggangi sem liggur til suðausturs upp í land- ið, en hann er kolsvartur á lit. Þar fellur Drífandi eða Mígandi fram af klettunum í sjóinn en okkur var tjáð að svo munu allir fossar heita á Hornströndum. Í Blakkabás mátti sjá rekavið hátt uppi á syllum sem sjórinn hafði skutlað þar upp sem eldspýtur væru. Dugghola Á leiðinni upp hlíðina mátti líka sjá ofan í Duggholu sem er nánast hringlaga geil en þar er brúnin hæst við bjargið. Utar er bergmyndun er myndað hefur vegg sem sjórinn hefur rofið, þannig að opið er inn frá hafi. Sérkennilegt og fallegt er að horfa þarna ofan í en vorið eftir sigldum við Árni ásamt Halldóri staðarhaldara og Sigurlaugu Jónsdóttur inn í Duggholu og Trog á tuðru. Nokkru utar rísa Fjalir úr sæ, en þær eru u.þ.b. 60 m háir berggangar, stórkostlegar ásýndum og sjást ágætlega frá vitanum. Má sjá ofan á þær af bjarginu. Skessuna góðu hittum við á leið okkar á bjargið og náðum bara nokkuð góðum myndum af henni. Við sáum líka vel til borgarísjaka sem lónaði úti fyrir bjarginu. Yrðlinga að leik hittum við nokkra á leiðinni og einn þeirra var að reyna að leggja sig þreyttur á þessum erli í kringum sig en ekki virtust þeir hræðast mannfólkið sem þarna var á ferð. Gönguleiðin þræðir bjargbrúnina, sums staðar nærri brúninni, en er þó hættulítil. Samt er full ástæða til að fara gætilega upp hjallana. Á vinstri hönd er Dögunarfell (542 m), en ofar birtist svo skyndilega tindur Skófnabergs sem strax gerir puðið algjörlega þess virði. „Skófnaberg hefur hlotið nafn sitt af því að á steinum og klöppum bjargsins er áberandi mikill mosi, sem líkist helst skófum á steinum.“ (Land og saga, Vestfirðir, 2007.) Smám sama komu svo tindar og skörð Hornbjargs í ljós og framundan Almenningaskarð. Þar er útsýni gott yfir tinda Hornbjargs: Skófnaberg, Eilífstind, Kálfatinda og Jörund, sem lítur úr eins og maður séð frá Hælavíkurbjargi, að því mér er sagt, og mun bera nafn sitt af land- námsmanni nokkrum sem kleif tind- inn og gaf honum nafn. Á milli Skófnabergs og Eilífstinds skerst Harðviðrisgjá. Hún skerst djúpt inn í Hornbjarg frá fjöru og að bjargbrúninni. „Gjáin dregur nafn sitt af norðaustanvindinum, sem skellur á syðri barm gjárinnar og endurvarpast þaðan á nyrðri barminn. Við þetta myndast miklar drunur og dynkir, sem líkjast fallbyssuskotum. Hljóðin enduróma í hamraveggjunum báðum megin, þannig að mikið hljóðverk heyrist í bjarginu.“ (Land og saga, Vestfirðir, 2007.) − Gefum Snorra aftur orðið: „Gjáin er djúp og mikil og hefur mikið verið sótt í hana á síðustu árum, er menn hafa ekki haft nægt lið til siga. Á brún er þögult vitni um það, hvernig menn hafa farið að: handvaður, sem settur er um stór an jarðfastan stein. Á honum handstyrkja menn sig niður gjána, en hlaupa síðan lausir út í þræðinga í bjarginu og safna þar eggjum. En þess vil ég lengstra orða biðja, að menn fari ekki þar niður né annars staðar þar sem slíkir vaðir eru; það er aðeins fyrir alvana bjargmenn. Lengra frá sjáum við risann sjálfan, Kálfatinda, bústað trölla og forynja og heiðnaberg Hornbjargs, 534 m háan og frá honum teygist fjallsrani að Hornvík. Heitir hann Múli og markar Innstadal að utan. Af Múla er gengt á Kálfatinda, en ekki er það fyrir lofthrædda. Þó mun það, að nær allir þátttakendur í ferðum ferðafélaganna á þessar slóðir hafi farið á tindana. Þaðan er mikið útsýni ef vel viðrar og ferðin upp því vel þess virði, en hrikaleg er sýnin niður.“ Ekki við, því þegar upp var komið hittum við gönguhópinn vaska sem var á leið niður aftur eftir að hafa gengið á Kálfatinda, og um leið og við gerðum okkur líkleg til þess að ganga lengra brast á mikil þoka og hættum við því við, enda lítið að sjá í þokunni sem í sjálfu sér var engu að síður myndrænt listaverk náttúrunnar. Útsýnið yfir í Hornvík og á Hælavíkurbjarg var þó gott. Göngufélaginn lágfóta Ekki gekk ferðin niður neitt sér- staklega hratt heldur því þá eign- uðumst við sem göngufélaga lágfótu nokkra sem við gerðum okkur dælt við og gáfum henni hnetur, rúsínur og möndlur. Gaman var að sjá að hnetur sem henni fundust of harðar gróf hún til síðari nota. Óborganlegt var að sjá svipinn á refaskyttunni í hópnum þegar hann gaf henni úr lófa sér. Næsta dag var grenjandi rign- ing og gönguhópurinn vaski fór í göngu ferð um nágrennið og Ása með þeim. Greinarhöfundur fór að skoða öxina við Axarfjall en þar í námunda ku skessan góða hafa búið, síðasta tröll sem lifði á Íslandi. Árni og Pálmi skelltu sér yfir Axarfjall (260 m) niður í Hrolleifsvík og út á Bjarnarnes, en þar var býli áður. Sagan segir að hjón með tvö börn hafi verið að flytja búferlum að Bjarnanesi, konan fór á undan með börnin en maðurinn kom á eftir með kúna. Maðurinn og kýrin komust aldrei á leiðarenda og til þeirra hefur aldrei spurst, en konan dvaldi þar veturlangt með börn sín. Þykir með ólíkindum að þau hafi lifað af veturinn. Enginn vissi af atburðum þessum fyrr en vorið eftir. Kvöldinu var svo varið innan dyra við spjall og spil. Síðasta deg- inum var varið í að pakka saman og ganga frá í vitanum, draga upp stigann og braut ina, því ferðatímabil- inu var lokið og allir að fara heim. Greinarhöfundur rétt náði að sýna ferðafélögum sínum öxina góðu um morguninn. Gönguhópurinn vaski hélt svo yfir Kýrskarð til Hornvíkur þangað sem við sóttum þau á bátnum, en Haukur Vagnsson frá Bolungarvík kom að sækja okkur og allan far- angurinn, og síðan var siglt fyrir Horn. Það var mikil upplifun og ekki spillti fyrir að komist var í návígi við borgarísjakann sem lónaði úti fyrir Horni. Við sóttum svo gönguhópinn vaska sem fyrr segir en Haukur fór með okkur í útsýnissiglingu í kring um Súlnastapa við Hælavíkurbjarg. Það var alveg hreint dásamlegt. Ég hélt mig úti nánast alla leiðina því óborganlegt útsýni var upp eftir björg unum og inn í víkur á leiðinni til Bolungarvíkur. Komið var við á Sléttunesi til að taka ferðalanga með. Þegar til Bolungarvíkur var komið þurftum við far til að sækja bílinn sem auð- vitað var enn á flugvellinum og var það auðsótt mál; Hafrún Huld Þorvaldsdóttir og Birgir Grétar Haraldsson úr vaska gönguhópnum buðu far. Síðan var haldið heim á leið. Gist var í bændagistingu í Snart- ar tungu þar sem að orðið var of áliðið til að halda alla leið til Reykjavíkur í einum áfanga enda fólk orðið þreytt. Dásamlegri ferð var lokið. Það hafði lengi verið draumur minn að fá að sigla fyrir Horn og nú hef ég gert það þrisvar sinnum, því vorið 2014 bauðst okkur Árna óvænt að slást í hópinn þegar farið var til þess að opna vitann og gera klárt fyrir sum- arið. Okkur þótti það ekki leiðinlegt og má segja að hringnum hafi þannig verið lokað. Vorum við samferða Halldóri Hafdal til Bolungarvíkur þar sem að við gistum í svefnpoka- plássi á vegum Hauks Vagnssonar og var aðstaðan ágæt. Þaðan var svo siglt alla leið í Látravík. Sem fyrr var ég úti nánast alla leiðina. Fyrsti dagurinn fór að mestu í að koma dótinu upp úr fjörunni og „starta“ húsinu. Virkjuninni var komið í gang og hafist handa við að koma rennunni og stiganum fyrir í víkinni. Einhverstaðar las ég að Frímann Haraldsson vitavörður 1936–41 hefði átt hugmyndina að rennunni og stiganum upp úr Látravíkinni og komið henni í framkvæmd. Næsta dag var svo málað úti og dyttað að. Ég vaknaði eina nóttina við að sólin skein á gluggann hjá mér, kíkti út og hékk út um gluggann drjúga stund til að dást að fegurðinni. Þriðja daginn fóru flestir í göngu á Hornbjarg en aðrir brugðu sér í siglingu. Okkur bauðst að fara í siglingu og var það hin mesta skemmtun. Sigldum við á gúmmítuðrunni inn í Blakkabás undir fossinn Míganda eða Drífanda, í Duggholuna, Trogið og alveg að Fjölunum. Þá var siglt inn í Svelginn, en svo heitir víkin aust an við vitann, og þar er líka fal legur foss. Kvöldvökur voru á kvöldin og dvölin hin ánægjulegasta með góðu, vinnusömu fólki frá FÍ. Þegar til Bolungarvíkur var komið bauð Lilja Steingrímsdóttir öllum í kaffi á ættaróðali sínu. Í Hornbjargsvita þetta vor lærði ég að gera rabarbarasultu með hvönn, sem er hið mesta hnossgæti. Það er eitthvað við Hornstrandir sem heillar, fegurðin allstaðar og má segja að ég sé komin með Horn- stranda bakteríu, sem ómögulegt er að drepa. Vaski gönguhópurinn: Birgir Haraldsson, Benedikt Vilhjálmsson, Gerður Sigtryggsdóttir, Guðrún Elísabet Bjarnadóttir, Hafrún Þorvaldsdóttir, Hjördís Svavarsdóttir, Kristján Guðmundsson, Reynir Arngrímsson, Sturlaugur Eyjólfsson, Þorleifur Hauksson. Fararstjóri: Guðmundur Sveinbjörn Ingimarsson. Standsetningargengið: Auður Elva Kjartansdóttir, Árni Þórður Jónsson, Gerður Jensdóttir, Gísli Már Gíslason, Halldór Hafdal Halldórsson, Hallfríður M. Pálsdóttir, Heiðrún Meldal, Helgi Guðmundsson, Lilja Steingrímsdóttir, Linda M Stefánsdóttir, Páll Eysteinn Guðmundsson, Pétur Ásgeirsson, Ragnar Lýðsson, Ragnheiður Pálsdóttir, Sigrún Valbergsdóttir, Sigurlaug Jónsdóttir, Þorbergur Pálsson. Allar ljósmyndir eru teknar af greinarhöfundi,nema annað sé tekið fram. Ása og Halla klifra upp skarðið. Mynd / áþj Upp, upp, áfram klifrað. Mynd / áþj Hornbjargsviti. „Hornbjarg er hrikalegt ásýndum en þó er minni hætta að síga það en Hælavíkurbjarg þar sem bjargbrúnir eru lausari í sér. Í Flateyjarbók er sagt frá ferð fóstbræðranna Þormóðs Kolbrúnarskálds og Þorgeirs Hávarðssonar í Hornbjarg. Er þeir klifu bjargið varð Þorgeiri fótaskortur svo hann hrapaði, en náði handfestu á hvannnjóla. Stolt kappans varð til þess að hann þóttist ekki geta kallað á hjálp, en það varð honum til lífs að Þormóður sem hafði lagt sig uppi á bjargbrúninni vaknaði nokkru síðar og kippti honum upp áður en njólinn gaf sig. Sagt er að ekki hafi verið sérlega kært með þeim fóstbræðrum eftir þann atburð.“ (Land og saga, Vestfirðir, 2007.) Blakkibás. Kálfatindar. Lágfóta.

x

Bændablaðið

Direct Links

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.