Tímarit hjúkrunarfræðinga - 01.02.2011, Qupperneq 7
Tímarit hjúkrunarfræ›inga – 1. tbl. 87. árg. 2011 3
Þjóðfélagsumræðan hér á landi er
sannarlega með neikvæðara móti þessa
mánuðina og misserin. Dapurlegar
fréttir um fjárhagsvanda, niðurskurð og
uppsagnir hellast yfir okkur daglega. Fátt
er um jákvæðar og uppbyggjandi fréttir
sem þó er einmitt það sem landsmenn
þurfa á að halda.
Mitt í öllum neikvæða fréttaflutningnum
birti þó til þegar Ríkisútvarpið gerði
kynningardegi 4. árs hjúkrunarfræðinema
við Háskóla Íslands góð skil. Nemarnir
nefndu daginn „Á krossgötum“ enda eru
tímamót fram undan hjá þeim. Fjögurra
ára háskólanámi, með því öryggi sem því
fylgir, er að ljúka og hinn harði heimur
að taka við. Á þessum krossgötum
kynntu þeir nýjar og hefðbundnar hliðar
á starfsvettvangi hjúkrunarfræðinga. Í
faglega hönnuðum kynningarbásum
mátti fræðast um hjúkrun í heilsugæslu,
fangelsishjúkrun, áfallahjúkrun, heilsuhýsi
og þyrluhjúkrun svo fátt eitt sé nefnt.
Mikið var lagt í framsetningu efnisins og
frumleikinn alls ráðandi. Nemendurnir
höfðu greinilega áhuga á því sem þeir
voru að kynna og voru stoltir af verkefnum
sínum og því starfi sem bíður þeirra. Það
er sannarlega ástæða til að gleðjast
og horfa keikur fram á veginn eftir svo
jákvæða og hvetjandi kynningu á störfum
hjúkrunarfræðinga.
Nokkur óvissa bíður þessara verðandi
hjúkrunarfræðinga. Flestir fá þeir einungis
tímabundna ráðningarsamninga og margir
hverjir ekki störf á sinni óskastofnun eða
deild. Þeir búa yfir nýjustu þekkingunni
í hjúkrun og því mikilvægt að nýta
starfskrafta þeirra. Þó líklega sé nú þrengra
á atvinnumarkaði hjúkrunarfræðinga
en nokkru sinni áður, hefur sú staða
jákvæðar hliðar einnig. Nú er víðast
vel mannað af hjúkrunarfræðingum
og það ætti að leiða til þess að gæði
hjúkrunarþjónustunnar verði enn meiri en
áður. Á Landspítala er verið að innleiða
sjúklingaflokkunarkerfið Rafaela sem mun
auðvelda stjórnendum að tryggja hæfilega
mönnun miðað við hjúkrunarþyngd á
hverri deild. Skráning í kerfið mun einnig
auðvelda hjúkrunarfræðingum að kynna
verkefni og ábyrgð hjúkrunarfræðinga og
mikilvægi þeirra í heilbrigðisþjónustunni.
Sjúkrahúsið á Akureyri og jafnvel fleiri
stofnanir hyggjast síðar taka upp þetta
sama kerfi.
Hjúkrunarfræðingar á vegum FÍH hafa
undanfarin misseri unnið að setningu
gæðavísa um fimm þætti hjúkrunar, í
samstarfi við aðra norræna hjúkrunar-
fræðinga. Nú liggja fyrir gæðavísar um
byltur, verki, næringu, þrýstingssár og
mönnun. Þessir gæðavísar munu ekki
hvað síst nýtast í öldrunarhjúkrun þar sem
nú er lag að fjölga hjúkrunarfræðingum.
Samfara hækkandi hlutfalli aldraðra í
samfélaginu á næstu árum og áratugum
er nauðsynlegt að efla hjúkrun bæði
innan stofnana og í heimahúsum. Gæða-
og þróunarstarf hjúkrunarfræðinga er
einn grundvöllur þess að stjórnvöld stýri
þjónustu við aldraða á markvissan og
öruggan hátt.
Nýverið hlutu Sigríður Gunnarsdóttir
hjúkrunarfræðingur og samstarfsmenn
hennar styrk úr Rannsóknasjóði (Rannís),
að upphæð tæplega sjö milljónir króna
vegna prófunar á starfsþróunaríhlutun
fyrir hjúkrunarfræðinga til að bæta
verkja meðferð. Styrkurinn er mikil viður-
kenning fyrir Sigríði og hvetur aðra
hjúkrunarrannsakendur til dáða.
Sérfræðingum í hjúkrun hefur fjölgað
mikið frá því ný reglugerð var sett árið
2003. Sérfræðingar starfa nú á mörgum
sérsviðum hjúkrunar á Landspítala og
nýlega var fyrsti sérfræðingurinn í hjúkrun
ráðinn til Heilsugæslu höfuðborgar-
svæðisins. Það er vel enda efling heilsu-
gæslunnar nauðsynlegri nú en nokkru
sinni.
Af framansögðu má ljóst vera að
hjúkrunar fræðingar sækja víða fram.
Sóknarfæri í hjúkrun liggja líka víða.
Hjúkrunar fræðingar sjálfir þurfa nú meira
en nokkru sinni fyrr að meta þekkingu
sína og færni að verðleikum. Samstaða
og stuðningur fleyta stéttinni langt.
Ég hef nú verið formaður Félags íslenskra
hjúkrunarfræðinga í tæp átta ár. Þau ár
hafa liðið hratt, líklega vegna þess hve
fjölbreytt og áhugavert starf formannsins
er. Á þessum árum hefur mikið áunnist
í kjaramálum þó sanngjarnt væri að
laun hjúkrunarfræðinga væru mun
hærri. Endurskoðun á stefnu félagsins í
hjúkrunar- og heilbrigðismálum er nú á
lokastigi, skipulagi félagsins hefur verið
breytt með aukið lýðræði og skilvirkni
að markmiði, ýmis átaksverkefni hafa
verið unnin, svo sem varðandi ímynd
hjúkrunarfræðinga, og svona mætti
áfram telja. Enn er margt óunnið enda
verkefnum fag- og stéttarfélags aldrei
lokið. Ég hef nú ákveðið að gefa kost á
mér til að gegna formennsku í FÍH næstu
tvö árin. Ég vona að með þekkingu
minni og reynslu geti ég enn unnið
hjúkrunarfræðingum gagn við þær
krefjandi aðstæður sem nú eru uppi.
HORFUM KEIK FRAM Á VEGINN
Formannspistill
Elsa B. Friðfinnsdóttir.