Tímarit hjúkrunarfræðinga - 01.02.2011, Qupperneq 54
Tímarit hjúkrunarfræ›inga – 1. tbl. 87. árg. 201150
Á tímum fjárskorts og styttri legutíma aðgerðasjúklinga er
hætt við að aðrir þættir hjúkrunarþjónustu en þeir sem lúta að
líkamlegum þörfum víki. Í nokkrum íslenskum rannsóknum hafa
sjúklingar verið spurðir hvort þeir séu ánægðir með upplýsingar
sem þeir fengu meðan á sjúkrahúsdvöl stóð og benda
svörin yfirleitt til þess að sjúklingar séu ánægðir (Sveinsdóttir
og Gunnlaugsdóttir, 1996; Þórdís K. Þorsteinsdóttir, 2006;
Þórgunnur Jóhannsdóttir og Margrét M. Arnardóttir, 2005).
Hugtakið sjúklingaánægja er þó vandmeðfarið þar sem um
huglægt og oft óljóst fyrirbæri er að ræða (Tishelman og Sachs,
1992; Wagner og Bear, 2009). Erfitt hefur reynst að aðgreina
mælingar á heildaránægju sjúklinga með hjúkrunarþjónustuna
frá ánægju þeirra með einstaka þætti þjónustunnar (Sjöling
o.fl., 2003). Þrátt fyrir þetta hefur sjúklingaánægja verið
viðfangsefni fjölmargra rannsókna og það endurspeglar hversu
mikilvægt þykir að leita upplýsinga hjá sjúklingum sjálfum
um gæði þjónustu og eru hugtökin ánægja og gæði nú nær
samofin (Wagner og Bear, 2009). Þannig er talið mikilvægt
að leita til sjúklinga þegar skipuleggja á nýja meðferð eða
meta hjúkrunarþjónustu sem þegar er til staðar, enda þurfa
væntingar og álit sjúklinga og heilbrigðisstarfsfólks alls ekki að
fara saman (Dozier o.fl., 2001). Í mörgum þessara rannsókna
koma fram tengsl ánægju sjúklinga með veitta þjónustu og
sjúklingafræðslu og enn fremur hafa fræðsla og upplýsingar
áhrif á mat skurðsjúklinga á gæðum hjúkrunar (Krupat o.fl.,
2000). Í hugtakagreiningu Wagner og Bear (2009) á ánægju
sjúklinga með hjúkrunarþjónustu eru upplýsingar, sem
sjúklingum eru veittar um heilsufar sitt, eitt þeirra lykilatriða
sem stuðla að aukinni ánægju sjúklinga. Ánægja sjúklinga með
veitta þjónustu gefur vísbendingar um hvar úrbóta er þörf en
jafnframt hverju er vel sinnt (Tishelman og Sachs, 1992).
Hér verður greint frá rannsókn sem gerð var á Landspítala
árið 2007 í þeim tilgangi að lýsa fræðslu sem skurðsjúklingar
á skurðdeildum Landspítala segjast fá í sjúkrahúslegunni og
heima fjórum vikum síðar og skoða þætti sem hafa áhrif á
ánægju þeirra með fræðsluna.
Fræðsla skurðsjúklinga
Sjúklingafræðsla hvílir á þeirri hugmyndafræði að þekking og
skilningur á eigin veikindum, bataferli og viðhaldi heilbrigðis sé
til hagsbóta fyrir einstaklinginn, fjölskyldu hans og þjóðfélagið
allt (Redman, 2007). Skurðsjúklingar virðast leita upplýsinga til
að aðlagast betur aðstæðum sem gera þá óvissa og eftir því
sem óvissan er meiri eykst þörfin fyrir upplýsingar (Galloway og
Graydon, 1996). Hér á eftir verður gerð stuttlega grein fyrir þremur
þáttum sjúklingafræðslu: ávinningi fyrir sjúklinga og samfélag,
þörfum skurðsjúklinga við útskrift og formi fræðslunnar.
Ávinningur sjúklingafræðslu fyrir sjúkling, fjölskyldu og
samfélag
Rannsóknir á fræðslu skurðsjúklinga benda til margháttaðs
ávinnings hennar, svo sem aukinnar ánægju með meðferð,
minni verkja og kvíða, færri fylgikvilla, aukins sjálfstæðis
og sjálfsbjargargetu, aukinnar meðferðarheldni og bættrar
aðlögunar (Bastable, 2006; Blay og Donoghue, 2005; Cebeci
og Celik, 2008; Hodginson o.fl., 2000; Lin og Wang, 2005;
Sjöling o.fl., 2003; Suhonen og Leino-Kilpi, 2006). Þá virðist
sjúklingafræðsla og mikilvæg fyrir fjölskylduna þar sem þeir
umönnunaraðilar, sem eru viðstaddir útskriftarfræðslu, eru
síður kvíðnir og ánægðari, og fá sjúklingarnir færri heilsutengd
vandamál eftir útskrift en ella (Driscoll, 2000).
Samfélagslegur ávinningur fræðslunnar felst í skemmri
sjúkrahúsdvöl (Devine, 1992; Suhonen og Leino-Kilpi, 2006)
en einnig færri og jafnvel skemmri endurinnlögnum (Naylor
og McCauley, 1999). Þá virðist óvæntum endurkomum til
heilbrigðisstofnana vegna vandamála eftir aðgerðir fækka
(Williams, 2008). Getur það skýrst af því að sjúklingar, sem
fá sértæka útskriftarfræðslu, finna fyrir færri vandamálum eftir
útskrift (Cebeci og Celik, 2008).
Fræðsluþarfir skurðsjúklinga við útskrift
Niðurstöður margra rannsókna sýna að sérstök útskriftarfræðsla
hefur jákvæð áhrif. Í yfirlitsgrein um fræðsluþarfir
skurðsjúklinga við útskrift reyndust þær helstu vera: umhirða
skurðsársins, verkir og önnur einkenni, virkni og hreyfifærni
og upplýsingar um mataræði, útskilnað, vinnu, endurkomu,
eftirlit með aukaverkunum og lífsgæði (Pieper o.fl., 2006).
Niðurstöður annarrar fræðilegrar úttektar á upplýsingum, sem
skurðsjúklingar fá, eru sambærilegar niðurstöðum Pieper og
félaga en gefa jafnframt til kynna að þarfirnar eru mismunandi
frá einum tíma til annars (Suhonen og Leino-Kilpi, 2006).
Ekki er hægt að gera ráð fyrir að fræðsluþarfir sjúklinga
séu fullkomlega uppfylltar við útskrift. Til dæmis nægði
ekki ítarleg munnleg og skrifleg útskriftarfræðsla sjúklingum,
sem gengust undir blöðruhálskirtilsbrottnám, til að gera
þá fullfæra um að ráða við fylgikvilla aðgerðar (Burt o.fl.,
2005). Samhljóða ofangreindu voru niðurstöður rannsóknar á
fræðsluþörfum 148 eldri aðgerðasjúklinga sem, þrátt fyrir góða
útskriftarfræðslu, höfðu áfram umfangsmiklar fræðsluþarfir
tengdar sjálfsumönnun og einkennameðferð auk þarfa fyrir
samræður vegna tilfinningalegra viðbragða sinna (Hughes o.fl.,
2000).
Form og tilhögun sjúklingafræðslu
Athygli rannsakenda hefur gjarnan beinst að því að skoða
hvaða form og tilhögun fræðslu nýtist sjúklingum best, svo sem
hóp- eða einstaklingsfræðsla, munnleg fræðsla, bæklingar,
myndbönd eða netfræðsla. Undanfarið hefur til dæmis fjölgað
rannsóknum sem draga fram mikilvægi einstaklingshæfðrar
fræðslu og virðist slík fræðsla leiða í ljós betri andlega líðan
þeirra sjúklinga sem slíka fræðslu hljóta (Sørlie o.fl., 2006;
McMurray o.fl., 2007). Að auki virðist þetta fræðsluform
draga úr tíðni fylgikvilla eftir aðgerð og geta orðið til þess að
sjúklingar muni frekar fræðsluna og þurfi síður að leita frekari
upplýsinga um meðferð einkenna (Blay og Donoghue, 2005).
Þannig virðist fræðsla, sem er einstaklingsmiðuð hvað varðar
innihald og tilhögun, vera árangursríkari hvað heilsufar og nám
snertir (Fredericks o.fl., 2010). Tímasetning fræðslu skiptir
einnig máli þegar horft er til ánægju sjúklinga (Hodginson o.fl.,
2000) en gæði samskipta heilbrigðisstarfsfólks við sjúkling
virðast jafnframt eitt af því sem miklu skiptir um heildaránægju
sjúklinga með meðferð og fræðslu (Sørlie o.fl., 2000).