Tímarit hjúkrunarfræðinga - 01.02.2011, Side 63
Tímarit hjúkrunarfræ›inga – 1. tbl. 87. árg. 2011 59
Ritrýnd fræðigrein
SCIENTIFIC PAPER
Hér kom fram að ekki var munur á ánægju sjúklinga með
fræðslu eftir tegund aðgerðar þegar spurt var á spítala. Vera
má að vegna margbreytileika þeirra hafi þau atriði, sem spurt
var um, haft misjafnt vægi frá einni aðgerð til annarrar og því
hafi slíkur munur ekki komið fram.
Eitt af því sem hér vekur athygli er að sjúklingar virðast ánægðari
með fræðsluna á sjúkrahúsinu heldur en þegar heim er
komið. Ekki fundust rannsóknir sem styðja þessar niðurstöður
sérstaklega. Fyrri rannsóknarniðurstöður hafa hins vegar sýnt
að ekki er endilega samband milli þess að vera vel upplýstur
einum sólarhring fyrir útskrift og vera jafn-vel upplýstur einni
til tveimur vikum seinna (Henderson og Zernike, 2001) og því
þörf á áframhaldandi fræðslu eftir útskrift (Broughton o.fl.,
1995; McMurray o.fl., 2007). Slíkt gæti þá bent til þess að
eftir að úr öryggi sjúkrahússins er komið þurfi sjúklingar meiri
stuðning en veittur hefur verið hingað til. Hér gæti einnig skipt
máli að sjúklingum virðist gagnast betur fræðsla sem veitt er
við fleiri en eitt skipti (Fredericks o.fl., 2010). Svör sjúklinga um
atriði, sem þeir telja að megi vera betri í fræðslu við útskrift,
geta einnig endurspeglað óöryggi þeirra. Mikilvægi eftirfylgdar
er því ljóst en samkvæmt okkar reynslu er skipulögð eftirfylgd
skurðsjúklinga hins vegar oft takmörkuð.
Ef til vill gæti hér komið á óvart að yngri sjúklingar eru
óánægðari en þeir eldri með fræðslu um ferlið eftir að heim
var komið þrátt fyrir að ætla mætti að þeir séu almennt
fljótari að ná sér og þeir sæki sér frekar þekkingu sjálfir á
veraldarvefinn. Samrýmist þetta þó fyrri upplýsingum um að
yngri skurðsjúklingar séu óánægðari með fræðslu en þeir sem
eldri eru (Ottosson o.fl., 1997). Gagnstætt okkar rannsókn telja
þó Johansson o.fl. (2002) aldraða skurðsjúklingar þurfa meiri
fræðslu en yngri en sé mið tekið af okkar niðurstöðum þurfa
þeir sem yngri eru ekki síður athygli við.
Það að konur séu óánægðari en karlmenn með fræðsluna eftir
að heim er komið samræmist eldri rannsóknum um að konur
séu óánægðari með upplýsingar sem þær fá (Ottosson o.fl.,
1997). Það að þessi munur komi ekki fram á sjúkrahúsinu gæti
þó einnig bent til þess að það séu fleiri atriði sem tengjast
heimkomu og aðstæðum heima fyrir sem þarna hafi áhrif.
Í þessari rannsókn snerust tvær spurningar um ánægju
sjúklinga með fræðslu. Vert er að íhuga hvort mögulegt sé
að sjúklingar vilji með þessu láta í ljós ánægju með umönnun
á sjúkrahúsinu í heild sinni (Sjöling o.fl., 2003). Einnig þarf
að hafa í huga að samband sjúklinga við heilbrigðisstarfsfólk
hefur mjög mikið að segja varðandi ánægju þeirra með veitta
meðferð og hvernig þeir taka við fræðslu um ástand sitt og
meðferð (Sørlie o.fl., 2000).
Takmarkanir rannsóknarinnar
Í gagnasöfnun voru notaðir spurningalistar með stöðluðum
spurningum. Því gæti vantað einhver atriði sem sjúklingar vilja
fá fræðslu um eða eru ánægðir eða óánægðir með. Við mat
á þátttöku þarf að hafa í huga að þátttakendur voru misvel á
sig komnir. Þeir sem fóru í einfaldari aðgerðir, sem gáfu góðan
bata, hafa þannig ef til vill ekki fundið tilgang í að svara síðari
spurningalistanum. Þá má ætla að máttfarnari sjúklingar og þeir
sem voru óánægðari með bata sinn hafi síður svarað listanum.
Framkvæmd við heimtur á heimalista hefði enn fremur mátt
vera skýrari. Sjúklingar fengu að velja um að taka listann með
sér heim eða fá hann sendan. Virðist það hafa leitt til þess
að hluti hópsins svaraði listanum of fljótt eftir heimkomu. Við
úrvinnslu var stuðst við fjölda marktækniprófa en það getur
valdið því að tengsl, sem eru ómarktæk, mælast marktæk.
Varast ber því að oftúlka niðurstöður. Síðast en ekki síst má
nefna að stór hluti spurningalistans var unninn af reyndum
hjúkrunarfræðingum starfandi á skurðdeildum Landspítala og
byggist því ekki á spurningalista sem þróaður hefur verið í fyrri
rannsóknum. Allar niðurstöður ber að túlka með það í huga.
LOKAORÐ
Fræðsla skurðsjúklinga er flókið fyrirbæri og skoða þarf
mat sjúklinga á ánægju og gagnsemi hennar frá ýmsum
sjónarhornum og á mismunandi tímum fyrir og eftir útskrift. Ljóst
er að þeir hafa yfirgripsmiklar fræðsluþarfir sem nauðsynlegt
er að sinna af kostgæfni. Stærstur hluti skurðsjúklinga er
ánægður með fræðsluna og telur hana gagnlega og því
mikilvægt að halda því sem vel er gert. Þó er ljóst að bæta þarf
fræðslu þeirra sem sýna ákveðin einkenni eða hafa ákveðinn
bakgrunn og því er ekki nægjanlegt að skipuleggja fræðslu
skurðsjúklinga út frá tegund aðgerðar eða umfangi einu
saman heldur þarf og að taka tillit til lýðfræðilegra sérkenna,
andlegs og líkamlegs ástands og viðbragða hvers og eins.
Þá er nauðsynlegt að meta sérstaklega þörf fyrir eftirfylgd því
fræðsluþarfir skurðsjúklinga vara fram yfir útskrift.
Með því að efla fræðslu og auka eftirfylgd, til dæmis á
hjúkrunarstýrðum göngudeildum, í síma eða með gagnvirkri
fræðslu á netinu mætti auka gagnsemi fræðslu skurðsjúklinga.
Lokaávinningurinn gæti orðið betri líðan og ánægja sjúklinga
og ódýrari heilbrigðisþjónusta vegna fækkunar einkenna,
fylgikvilla og endurinnlagna.
Niðurstöður rannsóknarinnar verða nýttar til endurskipulagningar
fræðslu skurðsjúklinga á skurðlækningasviði LSH.
Þakkir
Höfundar vilja þakka hjúkrunarfræðingunum Sigríði S.
Þorleifsdóttur, Margréti Sigmundsdóttur, Soffíu Eiríksdóttur og
Þuríði Geirsdóttur fyrir vinnu að þessu verkefni, þátttakendum
rannsóknarinnar fyrir svörin og B-hluta vísindasjóðs FÍH,
vísindasjóði Landspítala og vísindasjóði Háskóla Íslands fyrir
veittan stuðning.
HEIMILDIR
American Pain Society Quality of Care Committee APSQCC, (1995). Quality
improvement guidelines for the treatment of acute pain and cancer pain.
Journal of the American Medical Association, 274 (23), 1874-1880.
Bastable, S.B. (2006). Essentials of Patient Education. London: Jones and
Barlett Publishers International.
Blay, N., og Donoghue, J. (2005). The effect of pre-admission education on
domiciliary recovery following laparoscopic cholecystectomy. Australian
Journal of Advanced Nursing, 22 (4), 14-19.