Skólavarðan - 01.02.2008, Blaðsíða 5

Skólavarðan - 01.02.2008, Blaðsíða 5
5 GESTASKRIF: PéTUR GUNNARSSON Pétur Gunnarsson rithöfundur hélt nýverið fyrirlestur í boði Kennarasambandsins og Kennaraháskólans. Tilefnið var aldarafmæli kennaramenntunar á Íslandi og fyrirlestur Péturs er einn margra spennandi viðburða á afmælisárinu. Við fengum leyfi höfundar til að birta hluta fyrirlestrarins „Þú ert að verða of seinn í skólann“ í Skólavörðunni. Lífið eða tíminn sem við höfum í þessari jarðvist og hvernig við verjum honum er inntakið í orðum Péturs. Hann er snillingur eins og allir vita og segir okkur hér margt forvitnilegt sem við höfum ekki gefið okkur tíma til að hugleiða af sjálfsdáðum. Nám (eða þroski) og vinna – hvert er samband þessara tveggja fyrirbæra? Er sjálfsagt að tengja skólann við atvinnulífið? Lesið áfram... Skóli, sjálft orðið mun vera komið um latínu úr grísku, „skhole“ og þýðir frí, næði. Þannig að það er eftir allt saman innistæða fyrir línunni gamalkunnu: „Í skólanum, í skólanum, er skemmtilegt að vera...” Hvernig hugsuðu Forn-Grikkir sér skólann? Þeir hefðu allavega ekki tengt hann við atvinnulífið, svo mikið er víst. Markmið náms og raunar alls þroska var maðurinn sjálfur, að þroska sjálfan sig, uppfylla þá möguleika sem einni mannsævi voru gefnir til að rætast, verða það sem í manni bjó. Gríski höfundurinn Plutarque (uppi á fyrstu öld e.Kr.) segir frá því að Spartverjar hafi látið þræla erja fyrir sig jörðina af því að þegnarnir vildu “rækta sjálfa sig”. Og Sókrates kemur iðulega að þessu sama, til dæmis í Málsvörninni: „...ég geri ekki annað en ganga um og telja um fyrir yður, bæði eldri mönnum og yngri, að bera ekki mesta umhyggju fyrir líkömum yðar né fjármunum, heldur framar öllu fyrir sálu yðar, að hún verði sem best.“ Vinnan aftur á móti var fyrir neðan virðingu frjálsborins Grikkja. Við getum hæðst að þessum sjónarmiðum, hneykslast jafnvel, en það breytir ekki því að Grikkir unnu þau afrek sem síðan hafa ekki verið toppuð. Í heimspeki, bókmenntum, stærðfræði, listum. Þeir eru taldir hafa lagt grundvöllinn að vestrænni menningu, hvorki meira né minna. Sömu sögu er að segja um Rómverja, þeir halda uppteknum hætti Grikkja, fyrirlíta vinnuna og láta þræla annast um verkin. Otium er lykilorð hjá Rómverjum og táknar tóm, næði, svipað og „skhole“ hjá Grikkjum. Andstæðan við otium er negotium, ónæði, og dæmigert að það færist síðar yfir á verslun, t.d. “négoce” í frönsku sem merkir kaupskap. Íslenska orðið yfir viðskipti ætti samkvæmt því að vera at. Rómverjar líkt og Grikkir hafa kappnóg af þrælum og komast því upp með að horfa fram hjá hlutverki vinnunnar í samfélagsgerðinni. Og heimspekingum þeirra fer eins og lagsbræðrum þeirra í Grikklandi, þeir leggja áherslu á nauðsynina að rækta sjálfan sig. Seneka boðar að menn eigi að hætta öllu nema þessu eina: að annast um sjálfan sig. Og Markús Árelíus, heimspekingur og keisari, segir í Hugunum sínum: „Hættu að sóa tímanum. Haskaðu þér að takmarkinu; segðu skilið við tilhæfulausar væntingar, komdu sjálfum þér til hjálpar á meðan það er ennþá hægt og þú berð umhyggju fyrir sjálfum þér.” Þegar hér er komið sögu tekur Pétur til umfjöllunar kristni og trú, klaustur og kirkju. Við spólum áfram og grípum aftur niður í fyrirlesturinn á frönskum miðöldum: Að hvaða leyti skyldi bændalýður miðalda hafa verið frábrugðinn þrælum Grikkja og Rómverja? Lénsskipulagið með átthaga- fjötrum sínum innleiðir fyrirkomulag þar sem í stað þess að þurfa að verða sér úti um nýja og nýja þræla með herleiðöngrum og ströngu eftirliti og stöðugum ótta um að þeir neyttu liðsmunar og gerðu uppreisn, er komið á skipulagi þar sem bóndinn er bundinn við sína torfu en endurnýjar sig jafnframt sjálfviljugur með æxlun. SKÓLAVARÐAN 1.TBL. 8. ÁRG. 2008 Þú ert að verða of seinn í skólann! Hvernig hugsuðu Forn-Grikkir sér skólann? Þeir hefðu allavega ekki tengt hann við atvinnulífið, svo mikið er víst. Markmið náms og raunar alls þroska var maðurinn sjálfur, að þroska sjálfan sig, uppfylla þá möguleika sem einni mannsævi voru gefnir til að rætast, verða það sem í manni bjó. Ljósmyndir: Jón Reykdal

x

Skólavarðan

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Skólavarðan
https://timarit.is/publication/1179

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.