Skólavarðan - 01.02.2008, Blaðsíða 24

Skólavarðan - 01.02.2008, Blaðsíða 24
24 FYRIRLESTUR, NýR VEFUR SKÓLAVARÐAN 1.TBL. 8. ÁRG. 2008 Kolbrún Baldursdóttir hefur mörg áhuga- mál, þeirra á meðal pólitík, karate og skógrækt. Hún er líka öflugur fyrirlesari um unglingsárin. Við fengum Kolbrúnu til að segja frá eða kannski frekar minna okkur á fyrir- lesturinn sem hún býður skólum um þetta margbrotna aldursstig. Fyrirlesturinn er nefnilega mörgum kunnur og hefur meira að segja verið getið áður í blaðinu en sjaldan er góð vísa of oft kveðin. Var búið að nefna að vísnagerð er enn eitt af áhugamálum Kolbrúnar? En gefum henni orðið: Unglingsárin hafa löngum verið þekkt fyrir að vera eitt viðkvæmasta tímaskeið ævinnar. Þetta er tímabilið þar sem barnið í okkur kveður á sama tíma og stigið er inn í heim fullorðinna. Ótal vísbendingar, leyndar og ljósar, eru um að kynþroskinn hafi færst neðar með aukinni velmegun. Að sama skapi hefur skólaganga almennt lengst. Því má segja að þetta tímaskeið ævinnar spanni fleiri ár en áður. Samhliða miklum þjóðfélagsbreytingum undanfarna áratugi hefur sambúð stórfjöl- skyldunnar farið minnkandi, einangrun mismunandi aldurshópa hefur aukist og leitt til þess að áhrif jafnaldrahópsins eru meiri nú en áður. Sem sálfræðingur barnaverndarmála og skólamála í hartnær tuttugu ár hef ég séð ástæðu til að bjóða upp á stutt fræðslunámskeið sérstaklega ætluð for- eldrum sem eru að styðja börnin sín gegnum tímaskeið unglingsáranna. Um er að ræða rúmlega klukkustundar fyrirlestur sem skiptist í sjö meginþætti. Hann hefst á stuttri umræðu um unglingsárin, helstu þroskabreytingar, megináhrif á þroskaferilinn og hvernig kynin upplifa einstaka þætti í lífi sínu með ólíkum hætti. Því næst fjalla ég um mismunandi uppeldisnálganir og hvaða nálgun er líklegust til að mæta þörfum einstaklinga á þessu aldurskeiði. Grunnþættir samskipta og samskipta- tækni eru meðal efnis á námskeiðinu. Farið er í samskiptatækni sem sérstaklega er til þess fallin að leiða til jákvæðra og uppbyggilegra samskipta foreldra við börnin sín. Unglingurinn, tölvunotkun og Netið eru málefni sem mörgum foreldrum eru hugleikin. Með Netinu hafa sannarlega skapast auknir möguleikar á samskiptum en á sama tíma getur óhófleg tölvunotkun dregið úr færni í mannlegum samskiptum og haft neikvæð áhrif á líðan og virkni unglingsins. Fjallað verður um með hvaða hætti foreldrar geta miðlað til barna sinna fræðslu um tölvunotkun og hættur sem kunna að leynast á Netinu og hvaða aðferðir eru gagnlegar ef stemma þarf stigu við tölvunotkun barna. Áfengi og sú ógn sem stendur af vímu- gjöfum er málefni sem brennur á fjölmörgum foreldrum barna sem nálgast eða eru á þessu viðkvæma aldursskeiði. Vís-bendingar eru um að meira framboð sé af vímuefnum nú en áður og aðgengi auðveldara. Það kemur í hlut foreldranna fyrst og fremst að annast forvarnir og fræðslu. Sökum ungs aldurs átta unglingar sig oft ekki á slævandi áhrifum áfengis á heilastarfsemina og hversu einstaklingsbundnar breytingar það framkallar á persónuleika, hugsun, tilfinningar og atferli. Jafnframt verða skoðuð tengsl milli neyslu og áhættuhegðunar og hvaða orsakir kunna að liggja að baki því að sumir hafa meiri tilhneigingu en aðrir til að leiðast út í neyslu. Í síðasta hluta þessa fyrirlesturs mun ég fjalla um hvaða vísbendingar gætu gefið til kynna að huga þurfi nánar að líðan og félagslegri stöðu unglings og hvenær ástæða er fyrir foreldra að hafa áhyggjur af barni sínu. Fyrirlestrinum lýkur með að reifaðar eru hugmyndir um hvernig foreldrar geta brugðist við sé barnið þeirra í vanda statt og hvaða úrræði standi þeim til boða í samfélaginu. Unglingsárin, tímabil uppgötvana og átaka Kolbrún Baldursdóttir sálfræðingur. Unglingar eru orkumiklir og tilfinningaríkir og mikilvægt fyrir þá að fá útrás á jákvæðan hátt. Það skiptir líka máli fyrir foreldrana. Kolbrún greinarhöfundur stundar karate og hvort sem austurlenskar bardagaíþróttir heilla eða ekki er næsta víst að allir geta fundið tómstundagaman við sitt hæfi og verið góð fyrirmynd fyrir dætur, syni og nemendur. Kennarar, foreldrar og skólastjórar sem vilja fá nánari upplýsingar eða panta fyrirlesturinn hjá Kolbrúnu geta haft samband í s. 899 6783 eða kolbrunb@hive.is, Heimasíðan er www.kolbrun.ws Nýr fjölmenningarvefur leikskóla hefur litið dagsins ljós. Höfundar eru Fríða Bjarney Jónsdóttir og Anna Margrét Þor-láksdóttir auk þess sem Sigrún Björnsdóttir hafði umsjón með uppsetningu en vefurinn er saminn fyrir Leikskólasvið Reykja- víkurborgar. Vefurinn www.allirmed.is ber yfirskriftina Fjölmenning í leikskóla og undirskriftina Enginn eins en allir með! „Mikilvægt er að leikskólastarf í nútíma samfélagi endurspegli þann menningarlega margbreytileika sem þar er alla daga ársins,“ segir á forsíðu vefjarins. „Fjölmenning er tiltölulega nýtt hugtak í íslensku en það er komið til að vera. Fjölmenningarlegt leikskólastarf tekur mið af því að enginn er eins en allir geta verið með á sínum forsendum...“ Vefurinn Fjölmenning í leikskóla er fyrst og fremst gagnabanki, þar er fjöldi skemmtilegra verkefna og leikjauppskrifta sem rækta með börnum umburðarlyndi og styrkja félagsþroska. Hugmyndafræðin er sótt í austur og vestur – til Bretlands og Bandaríkjanna, en höfundar kynntust kenningum um fjölmenningu þaðan í fjölmenningarnámi í Kennaraháskólanum. Lögð er áhersla á að fá fjölskylduna með og á vefnum eru líka leikir til að leika heima, ekki bara í skólanum. Þótt verkefni séu miðuð við börn á leikskólaaldri er hægt að nota mörg þeirra með eldri börnum, ýmist beint eða með nokkurri aðlögun. Þá er mikil umræða og gott tenglasafn á vefnum sem gagnast öllum sem hafa áhuga á og/eða lifa og hrærast í fjölmenningu. Og hver gerir það ekki? Á þessum „síðustu og verstu“ verður manni enn meira ljóst hve mikilvægt er að ala börn upp í andrasisma og ná þeim ungum. Voru það ekki fjórtán ára krakkar sem stóðu á bak við Pólverjahatursskrifin? Kennarar, kíkið á www.allirmed.is og fáið góðar hugmyndir og hvatningu í fjölmenningarstarfinu. Allir með! www.allirmed.is

x

Skólavarðan

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Skólavarðan
https://timarit.is/publication/1179

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.