Morgunblaðið - 30.03.2016, Blaðsíða 21
MINNINGAR 21
MORGUNBLAÐIÐ MIÐVIKUDAGUR 30. MARS 2016
✝ Ásta Guð-mundsdóttir
var fædd á Siglu-
firði 28. mars 1940.
Hún lést 18. mars
2016.
Foreldrar henn-
ar voru Guðmundur
Björgvin Guð-
mundsson málara-
meistari og Kristó-
lína P. S. Kristins-
dóttir húsfreyja.
Ásta var elst af sjö systkinum.
Ásta var tvígift og átti þrjá
syni með Jóni Rafni Einarssyni,
þá Guðmund f. 1958, Sigurð f.
1959 og Kristján f. 1964. Seinni
maður hennar var Samúel Guð-
mundsson og eign-
aðist hún með hon-
um soninn Einar
Þór f. 1973.
Ásta vann í nið-
ursuðuverksmiðj-
unni Ora, einnig
sem dagforeldri og
líka sem starfsleið-
beinandi á vinnu-
stofum Kópavogs-
hælis. Ásta átti við
veikindi að stríða í
allmörg ár og í tæpt ár var hún
á hjúkrunarheimilinu Sunnuhlíð
þar sem hún lést.
Jarðarförin fer fram frá
Digraneskirkju í dag, 30. mars
2016, klukkan 13.
Amma Ásta stendur við elda-
vélina í Bræðratungu og hellir
aspassúpu í skál. Hún er klædd
eftir nýjustu tísku og hárið krull-
að og grátt. Veisluborðið er
tilbúið og jólin að ganga í garð.
Húsfreyjan sest niður og eys
forréttinum á disk fimm ára
gamla sonarsonar síns. Strákn-
um líkar ekki súpan og amman
sér í hvað stefnir. Hún ákveður
því að segja honum hvaðan asp-
asinn sem hann vill ekki snerta
sé kominn. Vorgrænmetið, sem
er ræktað í heitari löndum Evr-
ópu og Asíu, sé komið úr garð-
inum hennar. Það hafi hún upp-
skorið rétt fyrir jól, þrátt fyrir
snjó og fimbulkulda, í austurbæ
Kópavogs. Lýsingin af afrekun-
um í garðinum gaddfreðna verð-
ur til þess að strákurinn hrífst
með og súpan rennur niður.
Svona er fyrsta minning mín
um ömmu sem ég neyðist nú til
að kveðja. Hún á vel við enda
ágæt lýsing á manneskjunni sem
hún hafði að geyma. Fagurker-
anum sem sá til þess að heimilið
væri til fyrirmyndar og að gest-
irnir fengju nóg að borða.
Hversu lagin hún var við að ná
sínu fram og húmorinn sem hún
svo sannarlega bjó yfir.
Amma var nýjungagjörn en af
gamla skólanum. Augu hennar
ljómuðu þegar Siglufjörður,
þorpið sem hún kvaddi sem ung
kona, kom til tals og þegar þjóð-
legur íslenskur matur var reidd-
ur fram. Allir sem ömmu þekktu
vissu hversu ákveðin hún gat
verið og fengu jafnvel að kynn-
ast brynjunni sem hún oft
klæddist. Við sem stóðum henni
næst vitum að brynjunni var
ætlað að vernda viðkvæma veru
sem átti stundum erfitt með að
greiða úr tilfinningaflækjunum
sem við mætum öll.
Veikindi ömmu tóku sinn toll.
Þrátt fyrir það var hún alltaf viss
um að góð heilsa og heimferð
væru handan við hornið. Var hún
þá líkt og áður heppin að eiga
Samma afa að sem fylgdi henni
alla leið. Klettinn sem hún gat
stutt sig við.
Kvöldið sem amma kvaddi
okkur varð mér hugsað til
kveðjustundanna í Bræðratungu
fyrir tuttugu árum. Hvernig
amma nestaði mig áður en hún
lét mig lofa því að ég myndi
heimsækja hana aftur sem fyrst.
Hvernig þessi myndarlega kona
stóð við útidyrnar við hlið afa og
veifaði til mín þar sem ég sat í
aftursætinu. Söknuðinn sem kom
upp þegar bíllinn var kominn
fyrir horn og dyrnar lokuðust.
Nú eru dyrnar lokaðar fyrir
fullt og allt. Inni í hlýjunni situr
amma og fylgist með fólkinu sínu
úr fjarska. Fólkinu sem saknar
hennar og hlakkar til að sjá hana
aftur.
Haraldur Guðmundsson.
Elsku amma.
Það er svo ótrúlega sárt að
sætta sig við það að þú sért far-
in. Það er enn erfiðara að hafa
ekki getað verið hjá þér þegar
ég kvaddi þig og ekki getað
„knúst“ þig bless. En þó svo að
við Ásturnar værum sín hvorum
megin á hnettinum gátum við
spjallað saman í síðasta sinn í
gegn um símann hans pabba.
Þú varst sterk, þú varst stolt,
þú ferðaðist, þú varst hugrökk,
þú varst þrjósk, þú varst óstöðv-
andi, þú varst alltaf flott, þú
varst Drottning.
Þú elskaðir að ferðast. Þið afi
heimsóttuð svo ótal marga fram-
andi staði á lífsleiðinni þinni. Það
sem er mér efst í minningu er
servétta sem að þú færðir mér
eftir ferð ykkar til Kúbu. Þér
hafði einhvern veginn tekist að
láta tollverðina á Kúbu, þá undir
stjórn Fidel Castro, stimpla á
servéttuna á sama tíma og þeir
stimpluðu vegabréfið. Þú hafðir
þennan skemmtilega húmor fyr-
ir hlutunum. Þú fékkst þínu
fram og þú hlóst eftir á. T.d.
þegar ég var barn og þú vildir að
ég myndi borða brauðskorpuna
en ég neitaði og ég henti henni
inn í skáp hjá þér til að fela
hana. Mamma sagði mér seinna
að þú hafðir vitað það allan tím-
ann. Þér fannst þetta bara svo
fyndið.
Þú lagðir alltaf mikla áherslu
á að ég lærði listir. Þú spáðir
ekki mikið í því hversu hratt ég
gæti lesið eða hversu mörg
stærðfræðidæmi ég gæti leyst.
Þú hinsvegar gafst mér píanó-
nám og dansnám. Þú gerðir mik-
ið af handverki, útsaumi, prjóna-
verkum og glerlist. Þú kenndir
mér hversu mikilvægt handverk-
ið væri og þó svo að ég gæti
ekki, í dag, prjónað til að bjarga
lífinu mínu (þó svo að þú hafir
reynt að kenna mér það þúsund
sinnum), þá er ég í námi í fata-
hönnun. Þú hafðir alltaf trú á
mér og þú lést mig alltaf fara
einu skrefinu lengra en ég hélt
ég gæti tekið og það hefur gert
mig að þeirri manneskju sem ég
er í dag. Þegar mér fannst þú
vera að láta mig æfa mig of mik-
ið á píanóið þá fattaði ég ekki
hversu mikið af þínum tíma þú
varst að veita mér, til að gera
mig betri og til þess að ég myndi
öðlast meiri þekkingu. Ég er svo
þakklát fyrir tímann sem að þú
gafst mér og fyrir að leggja það
á þig að hlusta á mig glamra á
píanóið. Þú hefðir getað gert allt
aðra hluti sem þig eflaust lang-
aði meira til að gera, en þú valdir
að gefa mér tímann þinn dag eft-
ir dag. Þú hlustaðir á mig og þú
veittir mér alla þá athygli og ást
sem barnabarn gæti nokkurn
tímann óskað sér frá ömmu
sinni.
Níunda sinfónía Beethovens,
Óðurinn til gleðinnar, var uppá-
halds lagið þitt sem ég spilaði.
Núna, þegar ég kveð þig, mun ég
spila í huganum lagið okkar. Í
hvert sinn sem ég mun heyra
það lag mun ég minnast þín.
Líf mitt og áhugamál hafa alla
tíð einkennst af listum. Nú þegar
ég er að ljúka námi í listgreinum
er enginn vafi í hjartanu mínu að
þú veittir mér innblásturinn og
styrkinn til að gefast aldrei upp.
Þú lagðir grunninn, amma, og
kenndir mér svo margt. Ég
þakkaði þér aldrei fyrir það og
ég veit ekki hvort þú vissir
hversu mikið ég kann að meta
það. Takk, elsku amma, fyrir allt
sem að þú gerðir fyrir mig.
Ég elska þig, amma, hvíldu í
friði.
Ásta Guðmundsdóttir.
Ég hitti Ástu frænku síðasta
sumar, brosandi og vel tilhafða
að venju. Það var ekki löng
heimsókn en minningin yljar.
Ég var margoft inni á heimili
Ástu frænku og Samma þegar
ég var krakki og fór meðal ann-
ars með þeim, og Einari frænda í
tjaldferðalag um landið. Í hvert
skipti sem ég kom, vorum við
Einar hæðarmæld og kannski
finnast þeir sentimetrar ennþá í
kjallaranum í Bræðratungu.
Það er tvennt sem stendur
upp úr þegar ég hugsa um
frænku mína, annars vegar sól-
böð og hins vegar hárgreiðslan
hennar. Samkvæmt mínu minni
var Ásta mikill sóldýrkandi og
ég man eftir henni liggjandi í
sólbaði við hvert tækifæri, alltaf
í bikiní og búin að taka hlýrana
niður. Þegar við vorum í ferða-
laginu og það var sólarglæta, þá
var hún búin að rífa út tjaldstól,
setja hlýrana á brjóstahaldaran-
um niður og bretta upp skálm-
arnar á buxunum áður en Sammi
náði að leggja almennilega. Svo
var það hárið hennar. Ásta
frænka lagði mikið upp úr því að
vera vel tilhöfð, hún vildi vera fín
og vel greidd. Sem hún að öllu
jöfnu var. Það sem hins vegar
fékk mig svo oft til að brosa út í
annað var að hún greiddi sér
mjög fínt að framan en gleymdi
svo kannski hnakkanum, fyrst
hún sá hann ekki í speglinum þá
þurfti ekki að greiða hann held-
ur. Þetta fær mig alltaf til að
brosa því þetta er mín uppáhalds
Ástu-minning og ég vitna jafnan
í Ástu frænku greiðsluna þegar
ég sé einhvern sem gleymdi að
greiða sér í hnakkanum.
Ég á margar minningar, enda
búin að hafa mörg ár til þess að
safna þeim. Ég hitti hana síðast
brosandi og ég ætla að kveðja
hana brosandi.
Elsku Sammi, Einar, Gummi
og allir þeir sem standa ykkur
næst, ykkur sendi ég mínar inni-
legustu samúðarkveðjur.
Guðrún Margrét
og fjölskylda.
Sönglist blíða, svala hjarta
sæta óminn láttu þinn,
líða eins og leiftrið bjarta
lengst í sálarfylgsnin inn.
Ljóðadís, að ljóssins heim
mér lyftu hátt með söngsins blíða
hreim
(Ólína Andrésdóttir)
Nú hefur hún Ásta Guð-
mundsdóttir kvatt þetta líf. Við
kynntumst henni gegnum söng-
inn. Hún gekk til liðs við Árnes-
ingakórinn í Reykjavík og söng
þar og starfaði yfir tvo áratugi
og sinnti ýmsum stjórnarstörf-
um, m.a. formennsku. Ásta var
mjög félagslynd og ávallt tilbúin
að blása til fagnaðar og voru þau
hjón tilbúin að opna heimili sitt
þegar á þurfti að halda.
Nú horfa stjörnur og kvaka lóur
og koparlokkurnar fara á stjá.
Við brimströnd gjálpandi báran raular
sinn brag um drauminn og æskuþrá.
Ég elska lífið og þrái fegurð
og þetta allt sem um ég syng……..
(Sveinn A. Sæmundsson)
Ljóð þetta minnir á tíma Ástu
í kórnum þó mörg ár séu að baki.
Þau Ásta og Samúel höfðu
mikla ánægju af ferðalögum og
ferðuðust þau víða bæði innan-
lands og utan.
Við þökkum samfylgdina og
vottum eiginmanni og fjölskyldu
innilega samúð.
Anna María Einarsdóttir,
Ingibjörg Valdimarsdóttir
og Herdís P. Pálsdóttir.
Ásta
Guðmundsdóttir
Ógnarleg
hryðjuverk, sem
nú eru framin af
innflytjendum í
Evrópu eru mjög
til umfjöllunar.
Öllum er ljóst,
að ómögulegt er
að koma í veg
fyrir þau og þau
munu halda
áfram í mörg ár.
Hryðjuverkin
eru framin af öfgafullum
múslimum. Þeir vísa í Kór-
aninn og lýsa þeirri sælu,
sem þeir muni verða aðnjót-
andi, en það er taumlaus
kynferðisleg misnotkun
barnungra kvenna í sæluríki
Allah. Það er sjálfsagt rétt,
að þannig hugsi aðeins öfga-
fullir múslimar, en þeir
skipuleggja hryðjuverkin og
fremja þau síðan nánast
hvar sem er. Þrátt fyrir
þetta keppast stjórn-
málamenn á Vesturlöndum
við að segja, að ekki megi
kenna múslimum um þessi
hryðjuverk; þeir séu hvorki
betri né verri en menn af
öðrum trúarbrögðum. Þetta
er sá pólitíski rétttrúnaður,
sem fjölmiðlar og stjórn-
málamenn, ekki síst á
vinstri væng, hafa leitt til
öndvegis.
Þegar Chamberlain for-
sætisráðherra Breta lét
undan Hitler 1938 og fórn-
aði Tékkum til að kaupa
frið, hét það friðþæging (á
ensku appeasement), og lík-
lega trúði maðurinn því, að
nú hefði hann tryggt „peace
in our time“. Svo fór, sem
hlaut að fara, og þegar af-
leiðingar friðþægingarinnar
dundu yfir með fleiri landa-
kröfum Hitlers, var öllum
ljóst, að friðþæging leysti
ekki vandann. Hún leysir
ekki vandann nú, þegar
staðið er aug-
liti til auglitis
við öfgamenn,
sem eru 700
árum á eftir
vestrænum
þjóðum í sið-
menningu og
virðingu fyrir
rétti ein-
staklingsins
til að lifa sínu
lífi.
Friðþæging
stöðvar ekki
ódæðisverkin
á meginlandi Evrópu. Frið-
þæging kemur ekki í veg
fyrir ódæðisverk á Íslandi.
Nú er svo komið að þegar
yfirvöld hér á landi reyna
að fara eftir reglum og
milliríkjasamningum við af-
greiðslu á málum svokall-
aðra hælisleitenda rísa upp
fámennir hópar hávaðafólks
á götunni og linna ekki lát-
um fyrr en stjórnmálamenn
gefast upp og láta undan
með því að fara á svig við
slíkar reglur og samninga.
Svo langt hefur verið geng-
ið, að sett hafa verið lög til
að lúta vilja hávaðafólksins;
stundum í nafni mannúðar.
Pólitískur rétttrúnaður nú
felst í að tala um opið lýð-
ræði. Þetta er opið lýðræði.
Þetta er götulýðræði. Þetta
er það lýðræði, sem nú á að
friðþægja. Þetta er það lýð-
ræði, sem nú á að taka upp
í Stjórnarskrá Íslands.
Ég hef ekki andúð á út-
lendingum. Ég hef ekki
andúð á múslimum yfirleitt.
Pólitískir rétttrúnaðarmenn
munu kalla mig rasista; þeir
um það. Ég er fæddur og
uppalinn á Íslandi. Ég vil að
íslenskt þjóðerni dafni. Ég
vil að íslenskur menningar-
arfur lifi. Ég vil, að íslensk
tunga lifi. Ég vil ekki, að
þjóðin glati því, sem hún
náði í baráttu fyrir sjálf-
stæði sínu. Ég vil ekki, að
þjóðin glati auðlindum sín-
um í hendur annarra þjóða.
Ég vil ekki, að þjóðin missi
stjórn á fiskveiðilögsögu
sinni eftir grimma baráttu
vopnlausrar þjóðar við eitt
mesta herveldi heims. Ég á
þann draum, að Íslendingar
búi í friði við þær alls-
nægtir, sem landið og fiski-
miðin bjóða upp á. Ég vil að
ungu fólki sé kennd sagan
af sjálfstæðisbaráttu Íslend-
inga bæði í skólum og á
heimilum. Ég vil, að því sé
sagt frá 1. desember 1918.
Ég vil, að ungu fólki sé
kennd sagan af baráttunni
um fiskveiðilögsöguna.
Ég vil ekki, að íslensk
þjóð glati sjálfstæðri tilveru
sinni í mannhafi því, sem nú
býr á jörðinni og telur yfir
6 milljarða. Á Íslandi búa
330-340 þúsund manns,
flestir við allsnægtir, og er
mikill fjöldi þeirra innflytj-
endur frá mörgum löndum.
Íslensk þjóð og íslensk
menning mun ekki blandast
í mannhafið á jörðinni. Ís-
lensk þjóð og íslensk menn-
ing mun hverfa sporlaust í
það mannhaf, ef ekki er
spyrnt við fæti strax af
alefli og hætt að lofsyngja
friðþæginguna.
Ég vil ekki, að íslensku
þjóðerni, íslenskri menn-
ingu né þeim friði og vel-
megun, sem hér er, verði
fórnað á altari friðþægingar
við öfgamenn.
Hryðjuverk –
friðþæging
Eftir Axel
Kristjánsson
Axel
Kristjánsson
»Ég vil ekki, að
íslensk þjóð
glati sjálfstæðri til-
veru sinni í mann-
hafi því, sem nú býr
á jörðinni og telur
yfir 6 milljarða.
Höfundur er lögmaður.
Innanríkis-
ráðherra Ólöf
Nordal gaf út
reglugerð á sl .
hausti um breyt-
ingar á þjónustu
Íslandspósts.
Breytingarnar
fela það í sér að
nú verða póst-
ferðir í sveitir
landsins aðeins
tvisvar og þrisv-
ar í viku, í staðinn fyrir fimm
ferðir eins og nú er. Póstur-
inn kemur annan hvern virk-
an dag sem er afar ruglings-
legt. Komi t.d. póstur á
mánudegi, miðvikudegi og
föstudegi, þá verður póstferð
næst á þriðjudegi!
Vonlaust er að vera áskrif-
andi að dagblaði því á þriðju-
deginum kæmu fjögur tölu-
blöð í einu sem er algerlega
óviðunandi. Eins er með
varahluti í vélbúnað ýmiskon-
ar. Hátæknifjósum hefur
fjölgað mikið á síðustu árum
og verði bilun í einhverjum
búnaði svo sem flórsköfum,
loftræstingu,
fóðurkerfi eða
mjaltabás/
mjaltaþjóni,
verður að koma
því í lag sem
allra fyrst. Þar
höfum við
bændur reitt
okkur á þjón-
ustu Íslands-
pósts, sem hef-
ur starfað
hingað til undir
kjörorðinu:
,,Hér í dag, þar
á morgun“. Með þessum
breytingum er stokkið ára-
tugi aftur í tímann í lífs-
gæðum hvað þetta varðar og
kjörorðið verður þá vænt-
anlega í Reykjavík í dag, á
landsbyggðinni eftir fjóra
daga, kannski þrjá. Í dreifi-
bréfi frá fyrirtækinu kemur
fram að boðið verði upp á
heimsendingu á pökkum
gegn greiðslu alla virka daga.
Ekki er nefnt hvað slík heim-
sendingarþjónusta muni
kosta. Fram kom hjá póstfull-
trúa á Akureyri, sem ég hafði
samband við, að eftir væri að
ákveða gjaldið og það yrði
gert síðar. Bent hefur verið á
að Íslandspóstur sé rekinn
með tapi þessi misserin og
þess vegna verði að bregðast
við. Nú skora ég á alla sem
málið varðar að fara ofan í
saumana á fyrirtækinu og
finna aðrar leiðir til að spara.
Þetta gengur einfaldlega ekki
upp í nútímaþjóðfélagi. Hvað
með B-póstinn, þar sem öllum
bréfum er safnað saman alls
staðar af landinu og þau flutt
til Reykjavíkur og flokkuð
þar? Bréf frá Ísafirði til Bol-
ungarvíkur er keyrt þúsund
kílómetra leið í staðinn fyrir
smá spotta sem er á milli
staðanna. Ég treysti póst-
fulltrúum á Ísafirði fullkom-
lega til að koma því til skila
án flokkunar í okkar ágæta
höfuðstað.
Ólöf, þetta
gengur ekki upp
Eftir Benjamín
Baldursson
Benjamín
Baldursson
»Með þessum
breytingum
er stokkið áratugi
aftur í tímann
í lífsgæðum.
Höfundur er bóndi.