Gripla - 20.12.2016, Page 138
GRIPLA138
eða Sturlungu verður ekki fullyrt. Þessi fyrsti hluti Hauksbókar fjallar um
landnámið, kristnitökuna og framhald hennar. Hann er að öllu leyti ritaður
með sömu hendi og á sama afmarkaða hluta handritsins. Frá sjónarmiði
handritafræði, skriftarfræði og innihalds myndar hann því eina samstæða
heild. Strangt til tekið á heitið „Hauksbók“ einungis við um þennan hluta
handritsins.
Þriðji hluti Hauksbókar, AM 675 4°, hefur einnig verið sjálfstæð heild í
upphafi. Sama rithönd er á báðum þeim kverum handritsins sem varðveitt
eru. Línufjöldi á síðu er mjög breytilegur, allt frá 23 upp í 31 línu. 41 Svo
virðist sem stungið eða strikað hafi verið fyrir línum á hverri opnu um sig.
Tvær áritanir sem hugsanlega má túlka sem eigendamerkingar eru í þessum
hluta handritsins, „Þordvr“ neðst á fyrsta blaði og „Sveinn [og]mundz son“
á aftasta blaði. Staðsetning þessara áritana vekur þá spurningu hvort 675
hafi staðið sér þegar þær voru gerðar. Þessi handritseining hefur að geyma
norrænu þýðinguna á Elucidariusi. Sú þýðing er einnig varðveitt í öðrum
handritum, því elsta frá 12. öld; brotakennd varðveisla handritanna gerir
það þó að verkum að textinn er ekki til í heild í neinu þeirra. Þessi hluti
myndar einnig eina heild, út frá sjónarmiðum handritafræði, skriftarfræði
og innihalds. Ástæðan fyrir því að þessi hluti handritsins fylgir hinum
tveimur er því ekki ljós. Rithönd Hauks er þar hvergi að finna. Það er ekki
vitað hvort Haukur bætti þessum hluta við sjálfur eða hvort seinni eigandi
eða safnari hefur látið binda hann saman við hina. Handritafræðileg atriði
(bókbandsgöt, stærð kvera og blaða) benda þó til þess að hér séu á ferð-
inni kver sem hafi fylgt hinum tveimur handritshlutunum um ótiltekinn
tíma.42
Þessir tveir hlutar Hauksbókar (aM 371 4° og aM 675 4°) eru því
tvö sjálfstæð og innbyrðis óháð handrit. Hvað eru svo óskyld handrit,
efnislega og skriftarfræðilega, að gera í einni og sömu bókinni? Eins og
handritafræðileg gögn benda til hafa þau þó lengi átt samleið. Ef til vill
hafa þau ekki annað til saka unnið en að hafa einhvern tímann verið í eigu
sama aðila sem hefur ákveðið að binda þau saman í eina stærri skinnbók af
einhverjum ástæðum.
Sá hluti Hauksbókar sem erfiðast er að henda reiður á frá handritafræði-
legu og skriftarfræðilegu sjónarmiði – og reyndar efnislegu líka – er mið hluti
41 Jón Helgason, inngangur að Hauksbók, xxiii.
42 Jón Helgason, inngangur að Hauksbók, v.