Gripla - 20.12.2016, Blaðsíða 139
139
hennar (aM 544 4°). Þetta stafar af samsetningu hans og fjölda rithanda.
Handritið er 14 kver og á þessum kverum eru 14 rithendur, þar af 6 hendur
á fyrstu þremur kverunum.43 Þrjú fyrstu kverin í 544, blöð 1–21, eru leifar af
tveimur öðrum handritum sem hafa verið felld inn í Hauksbók og löguð að
henni. Rithönd Hauks Erlendssonar kemur hvergi fyrir á þessum blöðum,
þar hafa aðrir skrifarar verið að verki. Stafsetningin bendir til þess að þeir
kunni að hafa verið norskir. Ekki er heldur nein fyrirsögn rituð með hendi
Hauks, sem þó er almenn regla í þeim hlutum sem hann hefur haft umsjón
með, jafnvel þótt aðrir hafi skrifað textann.44 Skriftarfræðilega séð eiga þau
því ekkert sammerkt með öðrum hlutum handritsins. Bókfellið í þriðja
kveri bókarinnar, bl. 15–21, er auk þess af annarri gerð, það er þykkara en
hin og blöðin hafa upphaflega verið mun stærri en blöðin í Hauksbók, því
að það hefur þurft að skera vel af ytri spássíunum til að laga þau að stærð
hinna kveranna í þessum hluta Hauksbókar.45 Þau eru því tvær sjálfstæðar
handritseiningar. Frá sjónarmiði skriftar og handritafræði eiga þau að
þessu leyti ekki neitt sammerkt með öðrum hlutum handritsins. En það er
einmitt á þessum fyrstu þremur kverum 544 sem alfræðiefni Hauksbókar
er að langmestu leyti saman komið.46
Handritafræðileg og skriftarfræðileg athugun leiðir því í ljós að mestallt
alfræðiefni Hauksbókar tilheyrir ekki þeim hluta handritsins sem Haukur
hefur skrifað. Þessu efni hefur verið aukið við handritið og sum blöðin sem
það hefur verið skrifað á hafa verið löguð að öðrum hlutum Hauksbókar.
Út af fyrir sig má vissulega túlka það sem vitnisburð um áhugasvið þess
eiganda handritsins sem lét binda þessi blöð saman við hin. Sú túlkun
byggist á handritafræðilegri athugun á sniði og bókbandi handritsins. En
út frá fornskriftarfræðilegum sjónarmiðum er hins vegar ekki hægt að gefa
sér að sá sem lét binda þessi blöð inn hafi verið Haukur Erlendsson, því
að hann hefur ekki skrifað neinn texta á þessi kver sjálfur, ólíkt því sem
gildir um aðra hluta 544. Á efri spássíu blaðs 21, sem nú er nánast ólæsileg,
43 Jón Helgason, inngangur að Hauksbók, vii–x.
44 Jón Helgason, inngangur að Hauksbók, xxii.
45 Jón Helgason, inngangur að Hauksbók, vi; blöðin í AM 675 4° eru einnig þykkari en aðrir
hlutar Hauksbókar.
46 Undantekningarnar eru brot af steinafræði, sem er með hendi Hauks, Cisio Janus,
Prognostica temporum og Algorismus. Ástæðan fyrir því að ályktað hefur verið sem svo að
Haukur hafi sjálfur bætt alfræðiefninu inn í Hauksbók kann að vera sú að steinafræðin er
talin rituð með hans hendi.
HauKSBÓ K oG aLfrÆÐ IrIt MIÐaLDa