Gripla - 20.12.2016, Blaðsíða 147
147
himinsins, sól og regnboga. Sé reynt að áætla lengd þessara textahluta má
sjá að predikun Ælfrics gegn skurðgoðadýrkun, sem rýfur samhengið á
fyrri staðnum, hefst í 8. línu á blaði 4r og lýkur í 12. línu á blaði 8r. Lengdin
á texta Ælfrics jafngildir því nokkurn veginn 4 blöðum (c. 4r–7v). Sé litið
til textanna sem rjúfa samhengið á seinni staðnum, þ.e. hómilíu Ælfrics
gegn fjölkynngi, útdráttanna úr Elucidariusi og Imbrudagahómilíunnar,
þá samsvara þeir einnig u.þ.b. 4 blöðum í Hauksbók. Predikun Ælfrics
gegn fjölkynngi hefst í fyrstu línu á blaði 9v og Imbrudagahómilíunni
lýkur í 26. línu á blaði 13r sem gerir einnig nokkurn veginn 4 blöð (c.
9v–13r). Vikmörkin eru í báðum tilvikum 4 línur til eða frá sem telja má
eðlileg skekkjumörk. Samanlagt jafngildir þetta einu 8 blaða kveri sem
hefði innihaldið predikanir Ælfrics og skylt efni. niðurstaðan er því sú að
samhengi landfræðitextanna er rofið á tveimur stöðum af guðfræðilegu efni
og að áætlaður blaðafjöldi þeirra texta sem samhengið rýfur er svipaður.
Hver gæti verið skýringin á þessu munstri? Vissulega mætti horfa til
ætlunar skrifarans eða tengsla við önnur sambærileg verk eða reyna að
ráða í merkingu þeirrar samsetningar textanna sem þarna birtist. En aðrar
skýringar koma einnig til greina. Til dæmis mætti beita handritafræðilegum
aðferðum við að gera grein fyrir þessari samsetningu. Ein möguleg
handritafræðileg skýring gæti þá verið sú að í forriti þessa hluta Hauksbókar
(eða forriti forritsins) hafi Ælfric-hómilíurnar, útdrættirnir úr Elucidariusi
og Imbrudagahómilían verið skrifuð á sérstakt kver sem hafi óvart lent
inni í kveri sem hefur haft að geyma alfræðitexta á borð við þá sem finna
má í AM 194 8°, eða þá að eitt blað úr alfræðitextanum hafi lent í miðju
hómilíukversins. Sambærilegan rugling má t.d. sjá í GKS 1812 4° þar sem
a.m.k. þrjú handrit frá tólftu, þrettándu og fjórtándu öld hafa blandast
saman, og svipaða sögu er að segja af röð textanna í aM 696 XXXIII 4°,
þar sem skrifað hefur verið upp eftir forriti sem hefur verið brotið aftur
fyrir sig með þeim afleiðingum að fyrri texti lendir inni í miðjum þeim síð-
ara.61 fyrstu tvö kverin í 544, blöð 1–14, sem skoða má sem sérstaka einingu
(sama rithönd á báðum kverum, sami texti sem heldur áfram milli kvera,
þ.e. samfella milli rithandar, kvera og texta, en rof milli innihalds textanna
á tveimur stöðum), hafa því samkvæmt þessu að geyma uppskrift af leifum
tveggja annarra eininga. annars vegar væri um að ræða uppskrift af leifum
kvers sem hefur innihaldið alfræðilegt efni, sambærilegt við hluta af efni
61 Gunnar Harðarson, Littérature et spiritualité, 44–45.
HauKSBÓ K oG aLfrÆÐ IrIt MIÐaLDa