Gripla - 20.12.2016, Side 149
149
verið varðveittar í bæklingum og kverum eftir því hvað hentaði eigendum.
í Lárentíus sögu er talað um að Einar Hafliðason hafi skrifað upp á quaterni
það sem Lárentíus hafði hripað niður á vaxspjöld og eru engar vísbendingar
í textanum um að þau kver hafi endað sem innbundnar bækur.62 Hauksbók,
eins og hún er nú, er því ekki nauðsynlega eins og hún var þegar Haukur
skrifaði hana eða lét skrifa hana. Reyndar vitum við ekki heldur með vissu
að Haukur hafi skrifað Hauksbók, þó að líkurnar séu meiri en minni. Á það
hefur verið bent að þar sem rithönd Hauks byrjar í Eiríks sögu er textinn
styttur en þar sem ritarinn tekur við er textinn hliðstæður því sem þekk-
ist annars staðar.63 En þetta gæti reyndar stafað af því að þá hefði Haukur
einmitt hætt að skrifa og farið að lesa skrifara sínum fyrir.64 Sú hönd sem
talin er hönd Hauks væri þá hönd ritara hans. Á móti þessu mælir að í
Landnámu segist Haukur hafa ritað bókina eftir þeirri bók sem ritað hafði
Sturla lögmaður og annarri sem Styrmir fróði hafði ritað, en notar ekki
sama orðalag og Snorri í formála Heimskringlu, að hann hafi látið rita bók-
ina. Auk þess þyrfti sami klerkur að hafa fylgt Hauki milli landa og héraða
í nokkurn tíma, því að sama hönd er á Gulaþingslögum og dómsúrskurðum
Hauks. Sennilegast er því að Haukur hafi sjálfur skrifað bókina sjálfum
sér til handa, enda benda aðferðirnar við ritun hinna ólíku kvera til þess að
hann sjálfur hafi ráðið þar för.
En fleira kemur til. Miðaldagerðir Landnámabókar voru skrifaðar af
lögsögumönnum eða lögmönnum: Styrmisbók, Sturlubók og Hauksbók.
Styrmir varð fyrst lögsögumaður 1210–14, þegar Snorri Sturluson tók
við, og aftur 1232–35. Sturla varð lögsögumaður 1251 þegar Ólafur bróðir
hans fór utan en lét lögsöguna lausa þegar ólafur kom aftur, og varð
síðan lögmaður 1271. Haukur var lögmaður 1294–99. Ef Landnámuritunin
tengist lögsögumanns- og lögmannsstarfinu þá kynni svo að vera að
Landnámuritun Hauks ætti rót að rekja til lögmannsára hans á íslandi.
Ennfremur þurftu lögsögumenn – og þá vafalaust líka lögmenn – að
kunna ýmislegt fyrir sér í klerklegum fræðum og lögum, starfa síns vegna.
62 „Lárentíus saga biskups“ í Biskupa sögur III, útg. Guðrún Ása Grímsdóttir, Íslenzk fornrit
17 (reykjavík: Hið íslenzka fornritafélag, 1998), 379
63 Sven B.F. Jansson, Handskrifterna til Erik den rödes saga (Stockholm: Wahlström &
Widstrand, 1945).
64 Samkvæmt réttarbót Hákonar konungs 1308 skyldu lögmaður og sýslumaður hafa með sér
á ferðum sínum einn klerk sem skyldi festa lögmannsúrskurði á blað (Norges gamle Love
indtil 1387, 3. bindi, útg. r. Keyser og P.a. Munch (Christiania: Gröndahl, 1849), 76.
HauKSBÓ K oG aLfrÆÐ IrIt MIÐaLDa