Gripla - 20.12.2016, Síða 158
GRIPLA158
úr klaustrum til stórbýla í kjölfar svartadauða.5 Fátt bendir til að scriptoria
hafi verið starfrækt í klaustrum á 15. öld.6
Ef frá er talin Teiknibókin sem höfundur þessarar greinar hefur rann-
sakað um árabil eru myndskreytingar í handritum frá 15. öld svo til órann-
sakaðar. Teiknibókin er safn fyrirmynda eftir fjóra listamenn sem störfuðu
á 14. og 15. öld. Þeir eru í rannsóknum mínum aðgreindir sem A-, B-, C- og
D-teiknari. A- og B-teiknararnir voru að verki á 14. öld, en C-teiknarinn á
þriðja fjórðungi 15. aldar og D-teiknarinn um 1500.7 Teiknibókin er eina
fyrirmyndabókin frá miðöldum sem varðveist hefur á Norðurlöndum.
Fyrirmyndir C-teiknarans í Teiknibókinni eru án efa lang athyglisverðasta
myndverkið frá þriðja fjórðungi 15. aldar þó ekki væri nema vegna þess
að þar er að finna ýmis minni sem hvergi annars staðar eru til í íslenskri
miðaldalist.8 Frá sama tíma hafa einnig varðveist handrit og handritabrot
sem talið hefur verið að tveir samnefndir bræður, Jónar Þorlákssynir, hafi
skrifað. Fræðimenn hafa fjallað um rithendur þeirra en lýsingum í bókum
þeirra hefur lítill gaumur verið gefinn.
í þessari grein er ekki stefnt að því að gefa yfirlit yfir lýsingar á 15.
öld enda ógerningur vegna þess hversu rannsóknir eru skammt á veg
komnar. Greinin takmarkast því við athugun á fyrirmyndum C-teiknarans
í Teiknibókinni og lýsingum í bókum og bókarbrotum með rithöndum
áðurnefndra Jóna. Leitast er við að gera grein fyrir með hvaða hætti lýs-
endur tóku upp þráðinn á ný eftir samdráttinn sem varð í framleiðslu bóka
á fyrri hluta 15. aldar.
Einnig er fjallað um Bjarna ívarsson, eina nafnkunna lýsandann á 15. öld,
sem heimildir greina frá að lýst hafi grallara sem annar Jónanna skrifaði.
Lýsingar Bjarna eru ókunnar. Úr því að vitað er um samvinnu skrifarans
Jóns Þorlákssonar og lýsandans Bjarna ívarssonar kann sá síðarnefndi að
hafa myndskreytt aðrar bækur sem Jón skrifaði. Til að ganga úr skugga um
það eru lýsingar í bókum, heilum og óheilum, sem Jónarnir tveir skrifuðu,
skoðaðar sérstaklega í því skyni að skera úr um hvort þeir sjálfir hafi lýst
5 Stefán Karlsson, „Íslensk bókagerð,“ 293–294 (endurpr. í Stafkrókar, 239–240).
6 Guðvarður Már Gunnlaugsson, „Voru scriptoria í íslenskum klaustrum?“, í Klausturmenning
á Íslandi á miðöldum, ritstj. Gunnar Harðarson og Haraldur Bernharðsson, (reykjavík:
Miðaldastofa Háskóla íslands og Há skóla útgáfan, 2016), 205.
7 Um teiknarana fjóra sjá, Guðbjörg Kristjánsdóttir, Íslenska teiknibókin, ritstj. Soffía Guðný
Guðmundsdóttir (reykjavík: Crymogea, 2013), 24–25.
8 Guðbjörg Kristjánsdóttir, Íslenska teiknibókin, 57–58.