Gripla - 20.12.2016, Page 161
161
megin eru skyggðar með dekkra blæbrigði sama litar. Klæði og vængir engl-
anna eru að hluta til skyggð með lit svo að ljóst skinnið skín í gegn.
Nokkur atriði eru þó frábrugðin í andlátsmyndunum tveimur. Unga
manninn við rúmgaflinn á bl. 17v í Teiknibókinni vantar á mynd staka
blaðsins og djöflarnir halda þar einungis á tvíkrókum en hvorki á svipu né
vendi. Engir stólpar eru á rúminu á myndinni á bl. 17v og þrískiptir bog-
arnir í bogaröðinni öðru vísi en á mynd staka blaðsins. Sálin í barnslíki er í
þann veginn að skilja við deyjandi konuna en hefur yfirgefið munn hennar
á myndinni á staka blaðinu. Þessar smábreytingar gætu hafa gerst þegar
andlátsmyndin á bl. 17v í teiknibókinni var löguð að upphafsstafnum á
staka blaðinu og gæti vel hafa verið bein fyrirmynd hennar þó ekki verði
það fullyrt með vissu. Engar skyldar lýsingar hafa fundist í íslenskum
handritum sem varpað gætu frekara ljósi á tengsl andlátsmyndarinnar á
staka blaðinu og fyrirmynda C-teiknarans.
Stefán Karlsson fann hönd C-teiknarans á meginhluta handritsins
AM 343 a 4to sem hefur að geyma margar fornaldar- og riddarasögur.12
Aðalhöndin á handritinu er allskyld rithöndum eyfirskra bréfa og handrita
sem að líkindum eru eyfirsk að uppruna og skrifuð um og upp úr miðri 15.
öld.13 Sálutíðirnar á staka blaðinu eru á latínu með brotinni skrift sem erfitt
er að bera saman við skrift C-teiknarans í teiknibókinni. Á bl. 38v–39r í aM
343 a 4to er smápóstur með settara letri en skrift í þessu handriti sem, eins og
að ofan kom fram, er að mestu leyti með hendi C-teiknarans. Skriftarlíkindi
með þessum settleturspósti og skriftinni á staka blaðinu eru svo náin að
líklegt getur talist að sami maður hafi skrifað, þótt úr því verði ekki skorið svo
óyggjandi sé. Hugsanlega hefur C-teiknarinn bæði skrifað og lýst handritið
sem staka blaðið er úr og hefur hann þá bersýnilega verið æfður skrifari.
12 Stefán Karlsson fyrrverandi forstöðumaður Árnastofnunar rannsakaði texta teiknibókarinnar
árið 1968 og síðar. niðurstöður hans hafa ekki birst á prenti en þær eru að meginhluti textans
í bókinni sé skrifaður með einni hendi frá því um eða eftir 1450. Unnt er að sýna fram á
að þetta er hönd C-teiknarans. Guðbjörg Kristjánsdóttir, „Written Entries,“ í Guðbjörg
Kristjánsdóttir, Icelandic Book of Drawings: A Late Medieval Model Book (væntanleg).
13 um rannsóknir og niðurstöður Stefáns Karlssonar á textanum sjá „the Provenance and
History of the Book of Drawings: the Medieval Period,“ í Guðbjörg Kristjánsdóttir,
Icelandic Book of Drawings. A Late Medieval Model Book (væntanleg). um þessi handrit og
bréf og fyrri skrif fræðimanna um þau sjá Tales of Knights. Perg. fol. nr 7 in the Royal Library,
Stockholm (AM 567 VIβ 4to, NKS 1265 IIc fol.), útg. Christopher Sanders. Manuscripta
nordica: Early nordic Manuscripts in Digital facsimile 1 (Kaupmannahöfn: reitzel,
2000).
LÝSInGar Í ÍSLEnSKuM HanDrItuM Á 15. ÖLD