Tímarit Máls og menningar - 01.11.2007, Blaðsíða 9
TMM 2007 · 4 9
U m f o r m l i s t J ó n a s a r
Vandinn við að yrkja undir triolet-hætti á íslensku er sá að þurfa að
endurtaka fyrsta vísuorðið óbreytt í fjórðu línu. Fyrsta vísuorð í erindi
hefur ævinlega tvo stuðla í hefðbundnum kveðskap eins og Jónas yrkir
hér, og á móti þeim kemur höfuðstafur í annarri. línu. Það þýðir að ekki
er hægt að nota fyrsta vísuorðið óbreytt sem fjórða vísuorð án þess að
misþyrma stuðlasetningunni. Eina leiðin til að forðast ofstuðlun í fjórða
vísuorði er að skipta um seinna orðið og velja í staðinn orð sem stuðlar
ekki. Þess vegna verður „Fífilbrekka! gróin grund!“ í fyrstu línu „fíf-
ilbrekka! smáragrund!“ í þeirri fjórðu. „Gljúfrabúi! gamli foss!“ verður
„gljúfrabúi! hvítur foss!“ Þessa leið fer Jónas í öllu kvæðinu. Þetta er
snjöll og frumleg lausn, því þessi litla breyting á vísuorðinu þegar það er
endurtekið í fyrra skiptið dregur úr verstu hættunni við triolet-háttinn:
hvað endurtekningarnar vilja verða vélrænar. Auðvitað má segja að
þetta sé alls ekki lengur triolet-háttur heldur eitthvað annað, og ég yrði
að fallast á það ef við værum ströng á bragfræðilegum flokkunarkerf-
um. En skyldleikinn við triolet-háttinn er greinilegur þannig að þetta
verður þá eins konar afbrigði.
Reyndar vekur það alveg sérstaka ánægjutilfinningu að hitta upphafs-
línuna aðeins öðruvísi þegar við sjáum hana næst og síðan aftur alveg eins
í lokin, sælan verður svipuð því þegar maður heyrir stef og tilbrigði í
klassískum tónverkum. Fyrst heyrum við stefið sem síðan fær eitt eða tvö
tilbrigði í framhaldinu, og loks er það endurtekið í upprunalegri mynd í
lokin. Þegar sagt er að Jónas sé meistari formsins eða frumlegur snillingur
þá er það þetta sem við er átt; ég get ekki nefnt nema örfá skáld sem jafn-
ast á við hann og meðal tónskálda er bara einn sem kemur strax upp í
hugann – huga minn að minnsta kosti – Johann Sebastian Bach. Jónas og
Bach eru báðir fullkomnir meistarar forms og byggingar um leið og þeir
eru snjallir og frumlegir nýjungamenn. Báðir eru gáfaðir og hugsandi
listamenn en um leið meistarar listrænna áhrifa.
Hið lærða enska skáld John Milton lýsti eitt sinn forvera sínum
William Shakespeare svo að hann „kvakaði villt í sínum heimaskógi“ og
gaf þar með í skyn að Shakespeare væri ómenntaður sveitastrákur og
kvæðin hans eins og fuglakvak, yndisleg, sjálfsprottin og óöguð. Hug-
myndin um Shakespeare sem óskólaðan alþýðusnilling er löngu úrelt
meðal fræðimanna. Og ef einhver heldur núna að Jónas Hallgrímsson
hafi verið einfaldur, lítt skólaður strákur úr Öxnadalnum með róm-
antíska sál sem allt í einu braust út í óhugsuðum kveðskap eins og
„Dalvísu“ þá vona ég að það sem hér er bent á um byggingu og brag-
einkenni þessa einstaklega margslungna litla ljóðs komi honum á aðra
skoðun.