Tímarit Máls og menningar - 01.11.2007, Blaðsíða 126
126 TMM 2007 · 4
B ó k m e n n t i r
áföllum eða sjálfskreppum. Hún var að vísu afskipt af foreldrum sínum en
virðist ekki hugsa mikið um það. Það liggur beint við að líta fremur á hana sem
fulltrúa fyrir viðhorf, jafnvel ómeðvitaðar skoðanir okkar sjálfra, eða ein-
hverra úr hópi hugsanlegra lesenda. Hún er sköpuð með staðlaðar hugmyndir
um veruleikann og innflytjendur sem lesendur geta speglað sjálfa sig í og hrist
upp í eigin fordómum.
Bókin er skrifuð eins og stíllinn eigi að vera ósýnilegur. Lesendum sem eru
vanir 19. aldar skáldsögum og reyfurum kemur fátt á óvart. Eitt af einkennum
stílsins er að persónum er lýst utan frá á ýktan hátt. Þær stara, stífna, stirðna,
lyppast niður, fölna og roðna, ef okkur er ekki sagt að þær tútni út af með-
aumkun, andlit þeirra afmyndist af hamingju, hrukkur og undirhökur brjótist
fram, eða þær mjálmi, hvæsi, kvaki, gelti eða ýlfri, svo ekki sé minnst á spætu-
hlátur eða glefs. Lýsingar á augum eru notaðar til þess að gefa til kynna tilfinn-
ingar og hugarástand. Augu eru ekki bara gjörn á að ranghvolfast heldur tindra
þau, ljóma, lýsast upp, hlæja, skjóta gneistum og glampa. Það er ánægjuglampi,
montglampi, ágirndarglampi og velþóknunarglampi, reiðiblik, vellíðunarblik,
ástúðarblik, skelfingarblik, heiftarblik, og flóttalegt blik. Þetta er auðvitað ekki
nýtt heldur á sér langa hefð. Bæði Tolstoy og Margit Sandemo nota sér lýsingar
af þessu tagi. Í biblíunni (Matt 6:22, Lúk 11:34) segir Jesús að augað sé lampi
líkamans, Shakespeare kallar augað glugga að hjartanu í leikritinu Ástarglettu
(Love’s Labour Lost), og í Njálu er spurt hvaðan Hallgerður hafi þjófsaugu; það
orð er einmitt notað í þessari bók. Í almennu tali eru augun oft sögð spegill
sálarinnar, og útbreidd aðferð í sögum og bókum að lýsa augum til þess að gefa
til kynna tilfinningar og hugarástand.
Frásagnarhátturinn náði vel til margra lesenda, örstutt leit á netinu gaf
umsagnir í anda þessarar:
Skemmtileg hnattvæðingar-nýfrjálshyggju-samfélagsádeilan skilar sér áreynslulaust
og án allrar íþyngingar. (Sjá http://extremethought.blogspot.com/2007_01_01_arc-
hive.html.)
Mér finnst þó dálítið merkilegt að sjá þessa gömlu tækni notaða í fagurbók-
menntum nútímans. En hvað ef þetta hefur merkingu, hvort sem hún er með-
vituð af hendi höfundar eða ekki, og sé til marks um yfirborðssýn og yfir-
borðsdýrkun, þá blekkingu að yfirborðið sé allt? Sem væri í samræmi við
söguröddina og hennar þriðju persónu frásögn. Þó er eins og söguröddin sé
írónísk, en er það hennar eigin írónía eða írónía höfundarins? Sögurödd, ég
kýs það orð frekar en sögumaður eða sögukona, vegna þess að það er enginn
líkami þar að baki, röddin er óefnisleg, við vitum ekkert um hana og hún er
ekki Auður Jónsdóttir, þó að hún sé tilbúningur hennar.
En verðum við ekki að taka röddina á orðinu, taka henni algerlega á hennar
eigin forsendum til þess að sýna hina hliðina, velta við steininum og sjá „orm-
ana skríða undan“? Það hlýtur að vera tilgangur írónískrar frásagnar. En er
jafnframt þverstæða hennar: hún fellur, bæði ef lesandinn tekur ekki eftir