Tímarit Máls og menningar - 01.11.2007, Blaðsíða 95
M e n n i n g a r v e t t va n g u r i n n
TMM 2007 · 4 95
Björn Th. Björnsson (1922–2007) var einn af þeim úrvalsmönnum sem litu
á það sem kæra skyldu sína að deila því sem þeir lærðu, vissu og hugsuðu með
þjóð sinni. Enginn einstaklingur á stærri þátt í öflugri stöðu myndlistar á
Íslandi nú en hann, svo ötullega vann hann að því í bókum, útvarpsþáttum og
sjónvarpsþáttum að gera okkur meðvituð um mikilvægi sjónlista. Hann var
líka vinsæll og vel metinn rithöfundur og frábær þýðandi. Við kynntumst
þegar ég las handrit að þýðingu hans á Harmaminningu Leonóru Kristínar í
Bláturni, makalausri eigin frásögn dönsku konungsdótturinnar af áratugavist
hennar í því illræmda fangelsi. Í minningunni var þessu handriti ekki tekið vel
þegar það var boðið Máli og menningu, en mér þótti sem það þyrfti bara að láta
fólk lesa það eða segja frá því til að sannfæra útgáfustjóra um snilld þess. Það
reyndist rétt og bókin kom út 1986 með ítarlegum skýringum og sögulegum
inngangi Björns.
Þetta er bara eitt dæmi, nefnt vegna þess að það tengist perónulegum minn-
ingum. En allir lesendur TMM þekkja líka helstu verk hans, stórvirkið Íslenzka
myndlist á 19. og 20. öld (1964 og 1973), Minningarmörk í Hólavallagarði (1988)
og sögulegu skáldsögurnar, bæði þá fyrstu, Virkisvetur (1959) og þær sem hann
skrifaði á síðustu árum sínum – þeim árum þegar venjulegt fólk hefur dregið
sig í hlé: Falsarann (1993), Hraunfólkið (1995), Solku (1997) og margar fleiri.
Sérstakan stað eiga svo æskuminningar Eyjapeyja, Sandgreifarnir sem kom út
1989.
Með Árna Ibsen (1948–2007) fellur frá eitt vinsælasta leikskáld samtímans
og sá sem flestum mönnum betur hafði kynnt sér og skrifað um íslenska sam-
tímaleikritun. Umfjöllun hans um hana má til dæmis lesa í 3. og 5. bindi
Íslenskrar bókmenntasögu. Árni var mikilvirkur leikrita- og ljóðaþýðandi og
gaf út fjórar bækur með frumsömdum ljóðum á íslensku. Mörg frumsömdu
leikritin hans urðu vinsæl, enda bæði dillandi skemmtileg og beitt í greiningu
sinni á samtímanum, en langvinsælastur varð geðklofni gamanleikurinn
Himnaríki (1995), frumlegt verk og frábærlega skemmtilega útfært. Síðustu
árin var Árni lamaður eftir heilablóðfall, en jafnvel á þeim tíma orti hann ljóð.
Síðasta ljóðabókin hans, Á stöku stað með einnota myndavél (Bjartur 2007),
kom út fáeinum vikum áður en hann lést. Þar eru skyndimyndir af ýmsum
stöðum sem Árni þekkti, margar óvæntar eins og þessi:
Sólsetursbreiðgatan
Sunset Boulevard
nær alla leið frá sólarupprás
til sólarlags