Tímarit Máls og menningar - 01.11.2007, Blaðsíða 22
22 TMM 2007 · 4
H a l l g r í m u r H e l g a s o n
Jónas er oft yndislegastur þegar minnst liggur við. Hér er skáldið í raun
aðeins að klára myndina svo byrja megi á næstu. Línurnar eru ósköp
saklausar, nærri því hversdagslegar. Samt eru þær ortar af sama metnaði
og „stóru línurnar“. Orðavalið er ákaflega Jónasarlegt, innblásið af þeim
tónelska léttleika sem minnir eiginlega bara á Mozart. Enginn annar
gæti orðað hversdagslega setningu eins og „það er fullt af sveitabæjum
þarna sem standa frekar dreift“ með svo hátíðlega alþýðlegum hætti.
En strax á eftir léttum fiðlukafla druna pákur og bassar:
Við norður rísa Heklu tindar háu.
Svell er á gnípu, eldur geysar undir;
í ógna djúpi, hörðum vafin dróma,
skelfing og dauði dvelja langar stundir.
En spegilskyggnd í háu lofti ljóma
hrafntinnuþökin yfir svörtum sal.
Nú taka myndinar að flæða út yfir erindin enda erfitt að hemja svo ógn-
andi og innblásna lýsingu á eldfjalli í þrjár línur. Hér ryðst náttúruvís-
indamaðurinn inn í kvæðið og segir: „Frá með ykkur skáld og listmál-
arar, nú er komið að mér!“ Úr verður lengsta náttúrumynd kvæðisins,
ljóðræn sneiðmynd af eldstöð sem staðið hefur af sér alla framþróun í
jarðvísindum.
Reyndar hafa menn viljað leiðrétta Jónas í því að hrafntinnu sé ekki
að finna í Heklu. Jónas fari því með rangt mál. En er það ekki svolítið
smásmugulegt? Er það ekki svolítið eins og að segja við Kjarval: „Nei,
veðrið var ekki svona þann 14. júní 1952“. Jónas fer víðar með „rangt
mál“ í Gunnarshólma: Síðar í kvæðinu talar frægasta hetja hinnar
rammheiðnu sögualdar um „guð“.
Í skáldskap er „rétt“ aðeins það sem hrífur.
Hannes Pétursson heldur því reyndar fram í bók sinni Kvæðafylgsni
frá árinu 1979 að síðustu tvær línur myndarinnar eigi ekki við Heklu
heldur séu þær lýsing á Hrafntinnuhraunum sem finna má sunnan eld-
fjallsins og orðið „salur“ merki hér jörð, að fornum sið. Jónas hafi örugg-
lega vitað að enga hrafntinnu sé að finna í Heklu.
En hlýðum á næstu línu: „Þaðan má líta sælan sveitarblóma“.
Maður sér ekki fyrir sér mikla útsýn af flötum hraunum, hvað þá að
svo lágt sett fyrirbæri eigi sér „þök“. Það er líka ákaflega ólíkt Jónasi,
sem einatt er jafn kýrskýr og Shakespeare í öllum sínum myndum, að
ana með okkur út í hraun án nokkurs fyrirvara. Jónas segir okkur alltaf
hvað hlutirnir heita sem hann yrkir um: Eyjafjallajökull, Tindafjöll,
Rangárvellir, Hekla, Markarfljót, Eyjasandur …