Tímarit Máls og menningar - 01.11.2007, Blaðsíða 86
M e n n i n g a r v e t t va n g u r i n n
86 TMM 2007 · 4
sínum hafa skrifað skáldsöguna Aftureldingu tólf ára gamall til að andmæla
guðfræði Torfhildar! Fleiri fyrirlesarar sýndu fram á að Halldór hafi verið
býsna upptekinn af Torfhildi, lesið hana í þaula og miðað sig við hana framan
af. Sagt var að jafnvel megi finna áhrif frá Torfhildi í Íslandsklukkunni.
En þó að Elding fjalli um kristnitökuna og Torfhildur hafi lesið hreinlega
allt sem finna mátti í fornum ritum um hana og tilveru manna hér á landi á
þeim tíma þá er Elding ekki síður ástarsaga, sagði Gunnar, og í umfjöllun
Elínar Oddgeirsdóttur um dagbók Torfhildar frá 1889–90 sem varðveist hefur
kom vel í ljós að Torfhildur var upptekin af ástinni. Þar er hin litterera dama
víðsfjarri. Okkur birtist mynd af konu sem dreymir allt annan veruleika en
hún lifir í, þráir hjónaband með manni sem hún telur jafningja sinn og gengur
svo langt að senda honum bónorðsbréf, þótt ekkert bendi til að þau hafi þekkst
eða hann gefið henni á neinn hátt undir fótinn. Það var merkilegur lestur.
Auk skáldsagna og barnasagna var Torfhildur ötull ritstjóri, kostaði, rit-
stýrði og skrifaði að mestu þrjú tímarit. Hið elsta, Draupni (1891–1908), notaði
hún einkum undir eigin skáldsögur. Þar birtist saga hennar um Jón Vídalín
árið 1893 og skáldsagan Jón biskup Arason var birt í árgöngunum 1902–1908.
Draupnir dó með Jóni Arasyni. Svo bjartsýn var Torfhildur framan af útgáfu
Draupnis að hún setti á fót barnablaðið Tíbrá 1892, en af því komu bara tveir
árgangar með frumsömdum og þýddum siðbótarsögum. „Það er sannarlega
fögur lífsstefna að vera öðrum til góðs, og er um leið blessunarríkust fyrir
þann, sem þannig breytir,“ segir þar á einum stað og gæti verið mottó ritsins í
heild. Sælir og fátækir fá kraftaverk að launum fyrir gæsku sína og hinum iðr-
andi er jafnan fyrirgefið. Hins vegar hefnist þeim grimmilega sem ekki iðrast
sinna illu verka. Níski, auðugi og gráðugi maðurinn er til dæmis étinn upp til
agna af rottum!
Mánaðarritið Dvöl varð lífseigasta tímarit Torfhildar. Það kom út reglulega
í hverjum mánuði frá ársbyrjun 1901 til ársloka 1917. Þetta er mjög imponer-
andi, einkum áður en maður kemst að raun um að hvert tölublað var aðeins 4
blaðsíður í stóru broti eða ein örk samanbrotin. En letrið var smátt og varla
nokkrar myndir þannig að það hefur nú tekið smástund að lesa hvert blað.
Dvöl er umfram allt „kvennablað“. Í ritstjórapistli fyrsta heftisins segir
Torfhildur:
Ég hefi áður fyrri í mörg ár sagt til í hannyrðum, bæði hinum fornu og nýju, en er
nú hætt því fyrir löngu. En ég ætla í þessu blaði, sem kemur út mánaðarlega, að gefa
smámsaman út nákvæmar upplýsingar, sumpart með myndum, – þar sem þær verða
nauðsynlegar – hvernig megi læra þær, enn fremur um silki, bronce og olíumálverk
og fleira, sem ég hefi lært og varið til miklum tíma og peningum. Svo verður og
fleira í því t.d. ráðleggingar, fræðandi greinar, sögur og merkilegar frásagnir, sem
bæði geta skemt körlum og konum.
Fyrst um sinn kemur blaðið út einu sinni í mánuði, en sjái ég mér það fært, mun
það koma oftar út.