Tímarit Máls og menningar - 01.02.2008, Blaðsíða 21
TMM 2008 · 1 21
Umberto Eco
Um stíl Kommúnistaávarpsins
Því verður ekki haldið fram að nokkrar vel skrifaðar blaðsíður geti einar
og sér breytt heiminum.1 Heildarverk Dantes urðu ekki að gagni við að
færa ítölsku borgríkin undir hið Heilaga rómverska keisaraveldi. Þó er
það svo að þegar Kommúnistaávarpsins frá 1848 er minnst, texta sem
sannarlega hafði gríðarleg áhrif á heimsatburði síðustu tveggja alda,
held ég að það verði að lesa hann út frá bókmenntalegum eiginleikum
hans eða að minnsta kosti – jafnvel þótt hann sé ekki lesinn á þýsku – út
frá óviðjafnanlegri uppbyggingu textans hvað mælskufræði og rök-
færslur varðar.
Árið 1971 kom út bókarkorn eftir rithöfund frá Venezúela, Ludovico
Silva, sem bar titilinn Bókmenntafræðilegur stíll Marx og Bompiani lét
þýða 1973. Ég held að bókin sé nú ófáanleg en það væri vel þess virði að
gefa hana aftur út. Fyrir utan að rekja bókmenntalega mótunarsögu
Marx (fáir vita að hann orti einnig ljóð þó að þeir sem hafa lesið þau segi
að vísu að þau séu hræðileg), greinir Silva hvert einasta verk Marx í
smáatriðum. Forvitnilegt er að hann helgar Kommúnistaávarpinu
aðeins nokkrar línur, kannski vegna þess að það er ekki strangt til tekið
persónulegt verk. Það er leitt, því þetta er framúrskarandi texti sem
stekkur á milli opinberunarstíls og kaldhæðni, áhrifaríkra slagorða og
einfaldra útskýringa og (að því gefnu að samfélag kapítalismans hafi
áhuga á að endurgjalda óþægindin sem þessar fáu blaðsíður hafa valdið
því) ætti enn þann dag í dag að láta nemendur í auglýsingagerð greina
með lotningu.
Ávarpið byrjar með ægilegum trumbuslætti, eins og Fimmta sinfónía
Beethovens: „Vofa gengur nú ljósum logum um Evrópu“ (og gleymum
því ekki að það er stutt í forrómantískt og rómantískt blómaskeið
gotnesku skáldsögunnar og vofur ber að taka alvarlega). Á eftir fylgir
ágrip af sögu félagslegrar baráttu allt frá Rómarveldi þar til borgara-
stéttin myndaðist og fór að styrkjast, og blaðsíðurnar sem eru tileink-