Tímarit Máls og menningar - 01.02.2008, Blaðsíða 126
126 TMM 2008 · 1
B ó k m e n n t i r
við kærustuna Hatsumi. Samband Saiko og Tómasar lýtur öllum sömu lög-
málum og samband Toru og Naoko í Norwegian Wood – þau ná næstum því
alveg saman rétt áður en stúlkurnar láta sig hverfa vegna drauga fortíðar. Saiko
les meira að segja Norwegian Wood og Tómas gefur henni í jólagjöf Dance,
Dance, Dance, einu skáldsögu Murakamis sem hún hefur ekki lesið.
Það heldur áfram, en á öðrum nótum: Í skáldsögunni Kafka on The Shore
líkamnast vörumerkið og kjúklingaforinginn Colonel Sanders sem kattamorð-
ingi; á sama tíma er hann vörumerkið Johnnie Walker. Slíkt hið sama gerist í
Fljótandi heimi: þar líkamnast tóbaksvörumerkið Philip Morris á sama tíma
og Johnnie Walker. Í Hard Boiled Wonderland and the End of the World er að
finna ýmsar kunnuglegar persónur, s.s. Stelpuna í Móttökunni, Bókasafns-
vörðinn – og jafnvel efnisyfirlit og kaflaheiti þeirrar skáldsögu eru nákvæm-
lega eins uppsett (Spæld egg, Chet Baker, softporn í Fljótandi heimi – Popcorn,
Lord Jim, Extinction í Hard Boiled Wonderland and the End of the World). Hið
Harðsoðna undraland virðist því liggja mest til grundvallar ásamt Norwegian
Wood og verður ritdómari því miður að játa að hafa ekki lesið þá fyrrnefndu,
enda nánast óhugsandi að ná alveg utan um hinar fjölmörgu vísanir yfir
höfuð.
Í stuttu máli er Fljótandi heimur tribute-remix af bestu gerð, húrrandi lif-
andi reið um lánaða vitund annars höfundar – en það tekur ekkert frá skáld-
sögunni sem slíkri; hún er algerlega og í sjálfri sér fyllilega næg frásögn um
ástir og Reykjavík, um neyslusamfélag og átröskun,7 um bókaskrif og bóklest-
ur, um tákmyndir og táknmið og hið eilífa gap þar á milli, þetta er skáldsaga
langt yfir meðallagi hvað varðar frumleika og ástríðufullan texta og þrælfynd-
inn á köflum.
Tilvísanir
1 Hér mætti sérstaklega tiltaka fjölmörg erlend dægurlög sem minnst er á í bókinni
og einnig áletraða stuttermaboli, t.d. með áletruninni „Jibbí, meskalín!“ (bls. 31)
2 Titill bókarinnar, Fljótandi heimur, getur hæglega verið vísun í verk eftir annan
rithöfund af japönskum ættum, nefnilega skáldsöguna An Artist of the Floating
World eftir Kazuo Ishiguro.
3 „[…] það væri enginn Bruce Springsteen ef það hefði ekki verið Bob Dylan.
Það væri enginn Bob Dylan ef það hefði ekki verið Hank Williams. Bættu við
Víetnamstríði og uppgangi stórfyrirtækja í Bandaríkjunum, og málið er augljóst.
Bruce Springsteen er ekki beinlínis neinum að kenna … hann er bara dæmi um
sögulega þróun.“ (bls. 34, leturbreyting mín)
4 „Eina stundina er allt í föstum skorðum og hina hafa öll lögmál verið leyst upp.
Eins og Maradona: eina stundina snillingur og hina stundina fíkill, eða Argent-
ína: eina stundina paradís og hina stundina helvíti. Það er raunverulega ekki hægt
að taka neinu sem sjálfsögðum hlut.“ (110)
5 „Ég nuddaði höfuðið og heyrði glamra langt, langt þar inni, eins og rödd bærist
úr helli: Leitið stillingar.“ (110)