Tímarit Máls og menningar - 01.02.2008, Blaðsíða 55
TMM 2008 · 1 55
Vi l l t a b a r n i ð o g s i ð m e n n i n g i n
VI. Tilraun með sjálfsmynd
Eins og sést er Lína ólík okkur hinum. Hún er sterkari, ríkari og klárari
en flestir aðrir. Hún býr á jaðri samfélagsins og storkar lögmálum þess.
Yfir henni er ákveðinn tryllingur og hann er dreginn fram þegar hún
bítur í berserkjasvepp í fyrstu bókinni sem hefur engin áhrif á hana.
Berserkjasveppir kunna að gera venjulegt fólk brjálað en eru eins og
dropi í brjálæðishaf Línu. Tryllingurinn birtist enn skýrar þegar Lína
kaupir ósköpin öll af meðulum hjá apótekaranum og blandar þeim
öllum saman, innvortis og útvortis, og drekkur alla blönduna án þess að
verða meint af (Lína Langsokkur ætlar til sjós, 29).
En allan bókaflokkinn svífur yfir henni valið: Val um að vera Reglu-
lega Fín Dama eða sjóræningi … og Lína veit varla hvort hún vill. Reglu-
lega Fínar Dömur mega ekki vera með garnagaul eða stinga hnífnum
upp í sig þegar þær borða en samt finnst Línu gaman að klæða sig upp
og spássera um bæinn og stynja „Heillandi, heillandi“ (og á þá við sjálfa
sig!). Í lok bókaflokksins kemur að raunverulegu vali þegar Lína sem
orðin er 10 ára og bestu árin brátt að baki (!) segir Tomma og Önnu að
hún telji ekki eftirsóknarvert að verða fullorðin: „Það er aldrei neitt
gaman hjá fullorðna fólkinu. Það er á bólakafi í leiðinlegri vinnu, asna-
legum fötum, líkþornum og útspari. Það heitir útsvar, sagði Anna. Já, en
það er nú allt sama tóbakið hvort sem er, sagði Lína“ (Lína Langsokkur í
Suðurhöfum, 299). Enn og aftur erum við minnt á að hún er hafin yfir
tungumál hinna fullorðnu. Og bókaflokknum lýkur á því að öll taka
þau kúmensúr-pillurnar, sem reyndar minna grunsamlega mikið á
gular baunir, en þær eiga að koma í veg fyrir að þau verði fullorðin. Og
þau hlakka til að vera alltaf lítil og Lína ákveður að það sé alveg hægt að
vera eitilharður lítill sjóræningi.
Lína Langsokkur er tilraun með sjálfsmynd. Hún getur brugðið sér í
ýmis gervi, verið trúður, skálkur, fín frú, kraftakall, prinsessa eða
traustur vinur. Hún er hvorki góð né vond heldur náttúruafl sem stígur
dans á meðan hún bjargar tveimur börnum úr brennandi húsi og verður
nánast djöfulleg í lok fyrstu bókar þegar hún flækist um háaloftið sitt
með byssu til að skjóta drauga. Hún er ekki þjökuð af oki þess að þurfa
að segja sannleikann, teikna myndina á blaðið en ekki út af því, eða
hugsa á neinn hátt innan þess ramma sem samfélagið sníður þegnum
sínum. Þessi kraftur hefur hrifið börn á öllum tímum, krafturinn til að
standa gegn viðmiðum samfélagsins, mynda sér nýjar skoðanir, skapa
sér nýtt tungumál og nýja orðræðu.