Tímarit Máls og menningar - 01.02.2008, Blaðsíða 62
62 TMM 2008 · 1
K r i s t í n G u ð m u n d a r d ó t t i r
að þetta hafði ekki farið framhjá augum hans og eyrum. Ekki líkaði
Þórbergi þetta í fyrstu, en hann gerði það svo að sínu orðtaki.
Eitt sinn er Sólrún kom til okkar þóttist ég sjá að hún væri með barni.
Hvorug okkar hafði orð á því.
Um þessar mundir fór Steindór í sjúkrahús, og þar mun hann hafa
verið er Sólrún ól barnið. Það var stúlka, og var hún skírð Guðbjörg. Ég
ætla að Steindór hafi ráðið því. Hann dó skömmu síðar.
Ég kom til Sólrúnar þegar hún lá eftir barnsburðinn. Hún var mjög
döpur og spurði hvort ég væri ekki með kveðju eða boð til sín, en það var
ekki, og fannst mér Þórbergi farast heldur lítilmannlega, því þegar ég sá
telpuna var ég viss um að hann ætti hana, svo nauðalík honum var hún.
Þegar hún var þriggja til fjögurra ára kom Sólrún með hana til okkar.
Þá var hún alllík Þórbergi í andliti og ennþá líkari honum í öllum hreyf-
ingum og tiltektum og gretti sig alveg eins og hann! Við Hallbjörn
þorðum varla að líta hvort á annað á meðan þær stóðu við. Síðar spurði
hann hvort mér þætti sú litla ekki sýna hverra manna hún væri.
Þetta lá svo í augum uppi að Katrín Thoroddsen læknir spurði Salóme
hvar hún hefði náð í krakka sem væri alveg eins og hann Þórbergur. Þá
var litla Guðbjörg þar.
Þórbergur mun hafa greitt meðlag með telpunni fyrstu árin, en ég
efast um að hann hafi skipt sér af henni að öðru leyti. Heldur virtist mér
fara minna fyrir ástum þeirra eftir þetta, þó hélst samband þeirra, en
valt á ýmsu.
Það sem stóð í vegi fyrir að þau giftust þegar Sólrún var orðin ekkja
var að þá hafði Þórbergur fastákveðið að kvænast aldrei!
Í þennan tíma var Bernard Shaw mikið lesinn í Unuhúsi, og sú
skoðun – eða trú – ríkti þar ætíð síðan, að kvenfólkið ýmist véli eða
neyði vesalings karlmennina í hjónaband og sé á fæstra færi að standast
það. Ef þetta er rétt hefur Sólrún ekki sótt sérlega fast að giftast Þórbergi,
eða þá að hún hefur verið heldur slyppifeng.
En annars bar það kunnáttu kvenna í þessum listum fagurt vitni, að
sumir sem hæst höfðu um þetta voru einna ólmastir í eltingaleiknum
við að ná sér í sjálfseignarkvenmann.
Þessi ár átti Sólrún í miklu basli og reyndar var það svo á meðan
Steindór lifði. Efnahagur hans mun hafa verið lakari en Guðbjörg gamla
taldi sér og öðrum trú um. Síðasta – eða síðustu árin var hann víst
heilsuveill.
Eftir að Steindór dó flutti Sólrún í hús systur sinnar við Lokastíg hér
í bæ. Þar var móðir þeirra líka og hjálpuðu þær Sólrúnu að gæta barn-
anna, svo að hún gat unnið utan heimilisins.