Tímarit Máls og menningar - 01.02.2008, Blaðsíða 128
128 TMM 2008 · 1
B ó k m e n n t i r
Þegar allt þetta fer saman við hæfilega heimspekilegan undirtón: svört róm-
antík, stúdía á meintri kreppu karlmennskunnar, krúttkynslóðarleg feel-good-
stemning sem skapar augnabliks tilgang í öruggum persónulegum smáheimi
og loks greining á tómhyggju sem svo mjög einkennir Nýhilhópinn, þá er
útkoman mjög aktúelt söguefni yngri höfunda og orðinn til skemmtilegur
grunnur til að glæða hugleiðingar lesandans um samtímann.
Kreppa karlmennskunnar
Kreppa karlmennskunnar er þema hjá mörgum yngri höfundum, til dæmis
Mikael Torfasyni í Heimsins heimskasti pabbi, Kristjóni Kormáki í Frægasti
maður í heimi, Ófeigi Sigurðssyni í Áferð (ég nefni bara bráðfyndið innslag
þegar höfundurinn finnur sig loks í rétta elementinu sem kúreki í Patagóníu)
og Fenrisúlfi Bjarna Klemenz. Þetta er vandmeðfarið efni og á höfundur þess-
arar greinar ekki fleiri svör þar en aðrir. Þó kvikna ýmsar hugleiðingar hjá
lesendum og get ég aðeins gefið innsýn inn í hvernig þær birtast hjá mér í von
um að aðrir fari lengra með efnið.
Ekki er annað að sjá en að Dísa í Eitri fyrir byrjendur takist hetjulega á við
dótturmissi, þrátt fyrir skrautlega hegðun á köflum, og reyni að skapa heil-
brigð tengsl við bæði Högna og Halldór, sem þeir virðast klúðra. Konan er í
fleiri ofangreindum verkum normið meðan karlinn er frávikið. Sú skoðun að
konur séu eðlilegri manneskjur en karlar á sér nokkra sögu síðan menn urðu
meðvitaðir um jafnréttismál. Til dæmis er hún alveg kostulega sett fram í bók
Árna Þórs Hilmarssonar, Tilfinningalíf karlmanna frá 1994. Þar er upphafið að
mikilli ógæfu Andra rakið til þess þegar hann meiðir sig sem strákur og fær
ekki að gráta hjá afa og tjá sig eins og stelpa. En í nokkrum verka ofangreindra
höfunda gráta karlmenn mikið og tala stöðugt um tilfinningar án þess að það
komi að nokkru gagni.
Valdið liggur oftast hjá konum í sögunum, og jafnvel þegar Högni á að vera
harðneskjulegur og hafa yfirhöndina í kynlífi þeirra Dísu þá gerist það ekki
fyrr en hann hefur fengið leyfi til þess frá henni. Eftir það tapar hann sér og
brotnar niður að því loknu og grætur. Stundum er eins og karlpersónurnar hafi
botnlausa sektarkennd gagnvart konum í nefndum verkum. Halldór í Eitur
fyrir byrjendur er gott dæmi um það, enda hefur hann góða ástæðu til þess.
Hann verður hálfpartinn barn hennar sjálfur og virðist jafnvel óska sér þess
(því hann þurfti á því að halda að einhver sæi um hann (bls. 116)). Hann virðist
spegla sjálfan sig í Hans Elíasi, syni einstæðrar móður, sem kannski hafði ekki
tíma fyrir hann; núna vill hann hafa Dísu fyrir sig, án þess endilega að vilja
vera maðurinn hennar. Karlmennskufyrirmyndir hans eru afar fábrotnar og er
einna helst hægt að nefna Humphrey Bogart í því sambandi, og er þá frekar
verið að tala um ímynd í kvikmyndum en leikarann sjálfan. Í þessu sambandi
mætti segja að kreppan tengdist skorti á karlmannlegum fyrirmyndum, vegna
brenglaðra ímynda í fjölmiðlum og afþreyingarmenningu (sbr Frægasti maður
í heimi), auk mórals drengja sem margir eru aldir upp hjá einstæðum mæðrum